fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Rock star supernova

Vitiði hvað ég var svekkt yfir að fá ekki miða á þessa tónleika??? Nei, eflaust ekki, en ég var gráti næst á heilsugæslunni í Garðabæ þegar midi.is virkaði ekki vegna álags og svo var orðið uppselt. Ég var marga daga að jafna mig á þessu og var í alvöru að hugsa um að forða mér úr bænum hreinlega í dag til að þurfa ekki að vera í nágrenni við tónleikastaðinn. En sem betur fer gerði ég það ekki, því þá hefði ég ekki komist á aukatónleikana sem eru á morgun :D

Já, ég hef semst extra lítið fylgst með í fjölmiðlum undanfarið. Heyrði samt aðeins í útvarpi í Baðhúsinu um daginn og þá var einhver að tala um þessa tónleika, en sagði alltaf ,,þann þrítugasta-og-fyrsta næstkomandi". Ég var ógeðslega pirruð yfir þessu, hvaða helvítis hálfviti veit ekki að það eru bara 30 dagar í nóvember??? Ég var ekki að fatta þetta fyrr en í gær, þegar ég komst að því að það var búið að bæta við tónleikum 1.des. Júhúúú... ég skellti mér strax á midi.is og viti menn... ÉG FÉKK MIÐA :D :D :D

Nýja myndavélin verður tekin með og nokkrum römmum smellt af hr. Toby... með zoomið í botni ;)

Yfir og út!

mánudagur, nóvember 27, 2006

My name is Bond... James Bond

Ég viðurkenni fúslega að ég hef aldrei verið 007 aðdáandi, en hef séð nokkrar myndir samt, bæði nýjlegar og eldri. Svona almennt finnst mér þessar myndir eiginlega bara hreint ekkert spennandi heldur drepfyndnar. Það er allt svo mörghundruð metrum yfir markið að það er hreinlega ekki annað hægt en að hlægja að þessu.

Það sama á við um nýju myndina finnst mér. Skellti mér á hana í gærkveldi og var þetta bara hin besta skemmtun, hló alveg slatta... og hélt ég myndi drepast úr hlátri í öllum senunum þar sem reynt er að sýna minnstu takta í átt að einhverju sem á eflaust að kallast læknisfræði... en það er aftur annað mál og ég ætla ekki að skemma fyrir neinum með leiðindaumræðu um það. Hinn ljóshærði Bond fer ekkert verr með hlutverk sitt en dökkhærðir fyrirrennarar hans og ísbláu augun gera hann eiginlega bara extra cool.

Auk þess fékk ég ótrúlega skemmtilegt símtal í gærkveldi... Það hefur loksins fengist endanlega staðfest að ég er að fara til Malaví í ársbyrjun og mun dvelja um 1/6 hluta af árinu þar. Ég hlakka rosalega til, þetta verður ævintýri og vonandi eingöngu jákvæð reynsla :)

sunnudagur, nóvember 26, 2006

að ógleymdum óförum....

Afsakið! Ég gleymdi alveg óförunum... var reyndar að velta því fyrir mér hvort ég ætti yfir höfuð að blogga um þær, en þetta er eiginlega pínu skondið svo ég hef ákveðið að deila þessu með ykkur, dyggum lesendum mínum og nánum vinkonum :)

Það vill nefnilega svo skemmtilega til að hún Magga Dís, gestgjafinn úr síðustu bloggfærslu á ferkantað, massíft stofuborð úr gegnheilum við. Það vill auk þess svo skemmtilega til að þetta ákveðna stofuborð leikur aðalhlutverkið á móti mér í þessari færslu. Ég var semst mikið í því að dansa í stofunni hennar Möggu í gærkveldi, en langt því frá að ég hafi verið ein um það, og stofan hennar Möggu er ekkert svo ógurlega stór þannig að það var ekki alveg laust við að væri smá troðningur á ,,dansgólfinu" á tímum. Á einu slíku mómenti verður mér fótaskortur... og ég dett aftur fyrir mig, en verandi kýrskír man ég að fyrir aftan mig er áðurnefnt sófaborð og í tilraun minni til að forða mér frá því að detta á borðið læt ég reyna á liðleika minn og reyni að snúa mér frá borðinu í fallinu (ég veit þið eruð alveg að sjá þetta fyrir ykkur og vonandi farin að munda skelfingarsvipinn á andlitinu). Þrátt fyrir að ég sé alveg hreint kattliðug ;) tókst þessi fimleikaæfing mín ekki betur en svo að ég endaði á borðinu... þó ekki nema rétt á bláhorninu... og ekki nema rétt blábotninn á mér. Ég ætla ekkert að fara í nein frekari smáatriði í þessu máli, en þetta var ógeðslega vont, en mér tókst að halda kúlinu og harka af mér, standa upp og halda áfram að dansa og fann ekki fyrir þessu meir... þ.e. þangað til ég bylti mér í rúminu í morgun. Þá fann ég ógurlega til í vi. rasskinninni. Ég fór fram á bað til að kíkja hverju þetta sætti, og viti menn, í speglinum sé ég að á vi. rasskinninni er alveg hreint STÆRÐAR marblettur, og svo skemmtilega staðsettur að ég er guðs lifandi fegin að þetta var ekki oddmjórri lendingarstaður, því þá hefði ég verið tekin í rass í orðsins fyllstu :)

Boðskapur sögunnar er í raun tvíþættur:
a) ekki eiga stofuborð úr gleri (það hefði gert þessa bloggfærslu enn skelfilegri og víðtækari... úff, ég legg ekki einu sinni í að hugsa svo langt)
b) stofuborðið hennar Möggu er alveg úrvals borð

laugardagur, nóvember 25, 2006

Af hetjudáðum og óförum Dr. Saxa...

Úllalla... enn ein helgin komin og enn eitt djammið búið...

Var semst í prófi í gær, tvíþætt próf, skriflegt fyrir hádegi og verkleg endurlífgun eftir hádegi. Ég get með stolti sagt að ég náði að bjarga sjúklingnum mínum og fékk góð ummæli fyrir frammistöðu mína í verklega hlutanum. Held að bóklegi hlutinn hafi alveg sloppið en ekkert endilega neitt meira en það.

Svo var vísindaferð í gærkveldi, fyrsta vísindaferðin mín í mjög svo langan tíma og jafnvel kannski sú síðasta í læknadeild, hver veit. Þar var vel veitt og við nestuð af veigum við brottför enda ferðinni heitið í post-vísindaferðar-partý hjá Möggu Dís þar sem var glimrandi stemming, röð á klósettið og dans í stofunni, sem er BARA klárt merki um vel heppnað partý og góða stemmingu. Svo var náttúrulega farið í bæinn, á fjand... Óliver að vanda en það var allt í lagi í þetta skiptið. Ég held reyndar að menn hafi verið á launum í gærkveldi við að troða mér um tær... allavega var það alveg hreint óþægilega vinsælt :/ En semst mikið fjör og mikið gaman.

Dagurinn í dag hins vegar verið í rólegri kantinum, þrátt fyrir ánægjulegt þynnkuleysi. Megi framtíðin geyma fleiri djömm og þynnkuleysi :)

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Fréttir af Dr. Saxa...

Jæja! Sennilega kominn tími til að færa dyggum lesendum þessarar síðu fréttir af gangi mála í lífi Dr. Saxa síðustu daga.

Ég fékk mínar ástkæru vinkonur í heimsókn síðustu helgi og við skelltum okkur saman á Sugarcubes undir dyggri forustu Margrétar ;) Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að þetta voru alveg hreint glimrandi tónleikar og hápunktur kvöldsins þegar Sjón steig á svið og tók ,,Lüftgitar" með þeim... úhúhú... ég get ekki neitað að það fór gleðihrollur um mig. Gott tromp til að draga fram úr erminni eftir annars frábæra tónleika.

Eftir verslunarferð og straujun (korta... gefin út af Visa...) var skellt í djammgírinn, blandaðir kokteilar, heimspólitíkin rædd og tilvonandi ríkisstjórnarkostningar ásamt léttvægari málum (je right...) og ég myndi sýna myndir ef ég væri búin að redda sambandi á milli tölvunnar og myndavélarinnar... það eru einhver mótmæli í gangi sko :/ Ekki má gleyma að brunað var lengst í burtu í stórhríðinni í Voga-partý... en við fengum aðgang, auðvitað... hvaða Vogungur vill ekki fá alvöru partýljón frá Skútustöðum og Baldursheimi til að bæta andrúmsloftið... (úps... gekk ég of langt núna??? tja, vonandi ekki enda bara létt spaug hér á ferð ;). Mikið fjör og mikið gaman en ekki nóg til að halda okkur þar alla nóttina heldur skelltum við okkur á Kofann í ,,góða veðrinu" og tjúttuðum of course, sumir meira en aðrir ;) Síðan tók ég þá afdrifaríku ákvörðun að fara í leigubílaröð... sem ég ætla ekki að hafa fleiri orð um... annað en að þarna stóð ég í 2,5 klst, blaut, köld, dofnari í líkamanum en ég hef nokkurn tíman upplifað áður... og endaði svo með að fá ekki leigubíl. Við skulum bara segja að leigubílaröð síðustu helgar fari á toppinn yfir HRÆÐILEGAR leigubílaraðir :/ ohhh... ég fæ alveg hroll við tilhugsunina og svo er ekki laust við smá nefrennsli og hæsi til að minna mig á þennan fjanda líka.

Síðan hefur svo sem lítið gerst. Er að rembast við að reyna að halda uppi dampi til að lesa fyrir próf... en það er því miður ekki að ganga alveg eins og best væri á kosið... huhumm... :/

Heyrðu heyrðu, ég er alveg að gleyma að ég og Böglís fórum í bíó á fimmtudagskvöldinu og skemmtum okkur konunglega. Held ég hafi ekki komist svona nálægt því að pissa á mig af hlátri síðan... ég veit hreinlega ekki hvenær. Borat... BARA mynd sem fólk verður að sjá, hún er reyndar svona siðferðislega alveg á mörkunum... en það er samt bara ekki hægt annað en að hlægja og hananú.

oh well oh well... nú er það smá endurlífgunarlestur og svo mitt yndislega bæli :D

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Leigubílaröð...

Ég skellti mér á Sálina á Nasa með nokkrum einstökum bekkjarsystrum í gærkveldi, sællra minninga. Þetta var þrælskemmtilegt alveg hreint, dansað og tjúttað og... jább, dansað aðeins meir. Gamanið tók samt endi um síðir og við skelltum okkur út í ,,góða" veðrið. Það ringdi held ég ísnálum í gærkveldi og blés mjög svo köldu. Eftir eina pylsu og kókómjólk (skyldumáltíð fyrir heimför af djamminu) byrjuðu vandræðin að koma sér heim. Eftir mikinn nauðgunaráróður í fjölmiðlum undanfarið er svo komið að ég þori ekki lengur að labba ein heim af djamminu. Og hvað gerir maður þá? Pikkar upp gaur og fær hann til að fylgja sér heim? Tekur áhættuna enn einu sinni og arkar einn heim? Lætur Skutluna koma þér heim? Tekur leigubíl?

Ég er nú ekki alveg sú sleipasta í pikk-uppinu... og svo gæti maður af einskærri heppni pikkað upp glæpamann þess vegna svo ég valdi að hafna þeim kosti. Vegna nýlegra dæma í þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að arka ein heim, jafnvel þó að ég sé búin að vera að læra box í tæpar 2 vikur. Þá ákváðum við að láta reyna á þetta Skutlu fyrirbæri. Ég var með 2 Óskarsdætrum sem búa í sama húsi í Hátúninu og þær ætluðu að deila einni Skutlu og ég taka eina á Garðana... Þegar allt kom til alls þá er þetta RÁN, kostar meira en leigubíll og keyrir þig ekki einu sinni heim að dyrum heldur bara í þitt ,,hverfi". Hvernig eru svo ,,hverfi" skilgreind? Er þeim skipt eftir póstnúmerum? Ef svo er þá tilheyra Stúdentagarðarnir 101 þannig að það er alveg spurning hvar þeir yfirhöfuð myndu skutla mér út og ég þurfa að labba ein restina af leiðinni. Svo við gáfum skít í skutluna. Skutlurnar 2 Óskarsdætur ákváðu að rölta heim í sameiningu, þær sáu jú fram á að þurfa að standa einhvern hálftíma í leigubílaröð hvort eð var. Ég hins vegar varð að láta mig hafa það að standa í fjandans leigubílaröð í tæpan klukkutíma, í ísköldum vindi og rignandi ísnálum, umkringd ótrúlega leiðinlega fullum samlöndum mínum. Fyrir aftan mig í röðinni var miðaldra fólk sem gerði ekki annað en að tuða, voru ýmist að rífast sín á milli eða rífast út í loftið yfir þessu fyrirbæri ,,leigubílaröð" og að það væri út í hött að ,,frjáls maður í frjálsu líðveldi láti bjóða sér annað eins..." Guð hvað mér leiðist svona fólk. Við hliðina á mér í röðinni stóð einn gaur, sem by the way smyglaði sér inn í röðina en mér var svo kalt og heilafrumurnar komnar í lágagírinn til að spara orku að ég gat ekki staðið í því að vera með vesen út af þessu. Hann var ekkert ómyndarlegur svo sem, þannig að maður hefði nú getað sett í hösslgírinn, en kúplingin var alveg hreint frosin og handbremsan á, enda kannski eins gott því hann fór að koma með mjög svo ósmekkleg og leiðinleg komment um fólkið í kring um okkur og sýndi ekki af sér góðan þokka (eins og þessu myndi vera lýst í íslenskum róman frá um miðri síðustu öld). Fyrir framan mig í röðinni voru svo börn... þau litu allavega ekki út fyrir að vera með aldur til að vera úti svona seint/snemma, höguðu sér mjög svo barnalega og steininn tók algjörlega úr þegar þau fóru að syngja jólalög... Þá hélt ég að mér væri ALLRI lokið, en nei, það var enn eftir ca. hálftími í röðinni. Ég varð þeirri stund fegnust þegar ég komst inn í bíl og brunaði heim á leið, örugg frá fullum og leiðinlegum djammverjum sem og nauðgurum og öðrum ofbeldismönnum.

Svona er nú Ísland í dag :)

laugardagur, nóvember 11, 2006

Jólin, jólin, jólin koma brátt...

Ég sem hélt ég væri alveg ótrúlega snemma í þessu í ár. Ákvað að fara í dag og kaupa fyrstu jólagjafirnar svona með það að markmiði að koma þeim í póst nógu snemm svo að þær hafi borist á leiðarenda fyrir jól svona til tilbreytingar. Fannst einmitt svo sniðugt að drífa í þessu líka og losna við að fara í Kringluna fullskreytta svona löngu fyrir jól og troðast á milli í þvögunni...

...en ég var OF sein :( Það er búið að fullskreyta Kringluna, og örtröðin er byrjuð og fólk farið að pína börnin sín með sér í Kringluna og fleiri álíka staði, börnin hágrátandi upp til hópa og allir argir og pirraðir. Alveg það sem ég vildi forðast. Og ég sem á eftir að kaupa nánast allar jólagjafirnar enda ekki nema rétt miður nóvember svo sem.

Að þessu sögðu hef ég ákveðið að kaupa engar jólagjafir í ár... og det är nu det...

föstudagur, nóvember 10, 2006

2 próf eftir á læknadeildarferlinum

Úff... búin að láta rakka mig niður í munnlegu prófi, það jafnast nú ekkert á við það til að koma manni í helgargírinn :) Var alveg búin á því áður en ég fór upp á LSH, eftir 3 tíma svefn í nótt og kvíðahnút í maganum í marga daga. Prófið gekk semst ekki vel... en er búið og ég er mun hressari núna, búin að búa til hummus eftir uppskriftinni hennar Elvu. Þetta er reyndar alveg hreint fjári sterkt hjá mér, sennilega of mikið engifer, of mikill hvítlaukur og of mikil steinselja... en ósköp gott samt.

Ég held að það sé orðin staðreynd að ég á bara eftir 2 próf í læknadeild... eitt eftir 2 vikur og svo síðasta prófið ekki fyrr en í vor :) Jeminn hvað tíminn líður hratt og jólin bara handan við hornið :Þ

Helgarplönin óákveðin hjá mér allavega. Njótið helgarinnar gestir góðir :)

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Tarantino-færsla II

Jeminn eini... ég kemst ekki yfir hvað áðurnefndur gaur er líkur Tarantino... (vísa í fyrri færslu). Ég horfi á þetta í hvert skipti sem ég er inni hjá þessum lækni, nánast stari bara á þessa mynd og hún er nánast það eina sem ég sé þarna inni.

Ég sprakk svo næstum því úr hlátri í gær þegar ég fattaði loksins á hvern annar sonur þessa sama manns minnti mig á... Eli Roth... bara jafnvel aðeins myndarlegri en hann. Ég átti verulega bágt með mig þarna inni í miðju viðtali við skjólstæðing.

Er þetta eðlilegt? Það besta er samt að ,,Tarantino" og ,,Roth" eru í eins litum römmum...

Þessir bræður gætu alveg gert góða hluti á grímuballi og bara vera þeir sjálfir... en vera í raun Tarantino og Roth. Já, eða bara komið fram opinberlega sem framleiðendur ,,Hostel". Ég ætti kannski að benda þeim félögum á þetta og þeir gætu fengið vinnu sem tvífarar þessarra ,,merku" manna...


sunnudagur, nóvember 05, 2006

Vefjasýni...

Það er best ég greini frá boxtíma 2... Við fengum hanska í þetta skiptið, gamla gatslitna sem þjálfarinn hefur án efa svitnað heilan helling í en mun skárra samt að boxa með þeim en berhentur. Sár mín frá fyrstu æfingunni voru náttúrulega ekki gróin á föstudaginn og þegar ég fór að boxa með hönskunum festist ég í þeim í bókstaflegri merkinu... hanskarnir klístruðust í sárin og þegar ég reif mig úr þeim skildi ég eftir vefjasýni... En ég lifi það af ef næstu notendur hanskanna gera það :)

Helginni hefur nánast eingöngu verið eitt við svæfingar... ýmist lestur fyrir próf eða í djúpum draumförum ofan í bókina... því það er sko hreint ekki erfitt að sofna ofan í þá bók/glósur eins og nafnið ber með sér (Anesthesiology...)

Ég varð líka að henda rósinni minni áðan... jább, fékk nefnilega gefins rós síðustu helgi og er að fatta það núna að ég bloggaði aldrei um það. Þetta var alveg hreint hápunktur síðustu helgi (og þá sjáið þið hvað þarf lítið til að gleðja einfalda sál eins og mig...) og á sko sannarlega skilið bloggfærslu. Ég fór í rólegheitum að ná mér í klaka í Nóatún úti á Granda sl. laugardag (því þar er hann ókeypis sko, þó ég hafi reyndar keypt sódavatn líka til að friða mína eigin samvisku) og þegar ég er að ganga út er rétt að mér eitt stykki hvít rós... ,,Má bjóða þér rós?" Ég þáði með þökkum auðvitað og splæsti mínu fínasta brosi til baka til táningsstúlkna, sem gerðu með þessu einfalda framtaki sínu mikið góðverk.

Mig langa oftar að fá blóm svona alveg upp úr þurru bara :)

föstudagur, nóvember 03, 2006

PS

Gleymdi alveg að geta þess að ég náttúrulega tékkaði á hvort hann hefði skráð íbúðarnúmerið sitt á þvottalistann... en svo var ekki :/

Hrekkur

Mér dauðbrá í gærkveldi. Var búin að henda þvotti í 4 vélar niðri í þvottahúsi á görðunum, eins og ég hef stundað svona nokkuð reglulega síðustu 6 árin. Það var ekkert sérstakt við þessa þvottaferð svosem... nema hvað að þegar ég fór að ná í þvottinn var myndarlegur karlmaður að setja í vélina... við þetta brá mér satt best að segja. Ég hef ekki lent í þessu áður í öll þessi stúdentagarðsár mín, svo það er nú svo sem alveg kominn tími til. Ég náttúrulega bauð góða kvöldið eins og ég geri nú vanalega (hvort sem þvottahúsgestir eru myndarlegir karlmenn eður ei...) og svo vildi ég bara sökkva í gólfið því ég áttaði mig á því að ég var nýkomin úr sturtu... með hárið hálfblautt enn þá og það sem farið var að þorna var með uppsteit og allt ýft og vitlaust og gott ef það voru ekki enn smá maskarabaugar undir augunum eftir sturtuna.

Gott Sólveig!!! Ég þakkaði reyndar guði fyrir að hann var ekki þarna þegar ég henti í vélina, nýkomin úr Baðhúsinu, rennandi sveitt og eldrauð í framan.

Ég kann sko að heilla þá upp úr skónum við fyrstu kynni, hehe... Er þetta ekki rétta leiðin annars??? Reyndar engar líkur á að svona gaur sé single... nema hann sé þá gallaður að einhverju leiti og þá vil ég hann náttúrulega ekki ;)

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Æfingabúðir dauðans...

Ég hef sjálfviljug skráð mig í æfingarbúðir dauðans... það var að byrja nýtt námskeið í Baðhúsinu í dag, Thai box... hvað svo sem það nú þýðir. Ég ákvað að prófa og er held ég DAUÐ. Þetta er þrekþjálfun óttans, minnir um margt á miðvikudagsæfingarnar hérna í den, ég er rauðari en allt rautt í framan, hóstandi úr mér lungum og lifur, nötrandi í hverjum vöðva, með blöðrur á hnúunum og fingrunum og með marbletti á höndunum... hljómar þetta ekki alveg einstaklega vel??? Mér líður reyndar eins og sprungnu dekki sem hefur verið keyrt á nokkrum kílómetrum of langt. Og fyrir þetta ætla ég semst að borga...

Það er útlenskur gaur með þetta námskeið, sennilega Breti, hann allavega talar með breskum hreim og við erum allar ýmist ,,darlin" eða ,,love"... frasar eins og ,,there you go love", that's my girl" og ,,come on darlin" hafa hljómað í eyrum mér í rúman klukkutíma í kvöld.

Mér er farið að líða örlítið betur núna reyndar og á eftir að halda áfram að batna vonandi... allavega þangað til strengirnir koma á morgun :/

Þar til síðar...

Mismunum...???

Ég fór í dag með tveimu af læknum heilsugæslustöðvarinnar í hádegismat á Tilverunni, veitingastað í Hafnarfirðinum. Þetta væri sennilega ekkert sérstakt nema bara fyrir þær sakir að þetta er hefð sem kvenkyns læknar á heilsugæslustöðvum í Garðabæ og Hafnarfirði hafa tekið upp sín á meðal, þarna eru engir karlmenn leyfilegir... tja, ekki í þeirra hóp allavega, en þær eru nú svo sem ekkert að henda út öðrum karlkyns gestum af staðnum... enda myndi það tæplega líðast. Þær hittast sem sagt á Tilverunni 1 x í mánuði í hádegismat og ræða allt á milli himins og jarðar.

Mér finnst þetta mjög góð hugmynd og er meira en til í að vera í svona gúppu síðar á lífsleiðinni. En svo fór ég að hugsa... Er hópefli kvenna komið út í öfgar? Erum við farnar að útiloka karlmenn í of miklu mæli? Eru þessi karlkyns grey að verða útundan í heimi sem er upptekinn af því að jafna rétt kvenna á einn og annan hátt og hefur því jafnvel fyrir vikið skotið yfir markið á sumum sviðum...???

Phahaha... nei, hreint ekki. Pungarnir eiga sér líka sína hádegisfundi reglulega, og sennilega er það nú meira að segja svo að karlmenn eru í meirihluta á flestum fundum sem þeir sækja. Karllæknarnir á heilsugæslustöðinni ,,minni" (þeirri sem ég er á núna) eru ýmist í karlakórum eða meðlimi í ,,leynifélögum". Ég styð því heils hugar þessar konur í framtaki sínu.

Ætla að setja þessa hugmynd á bak við eyrað og geyma hana þar til ég verð orðin fullorðinn læknir... hvenær sem það nú verður :/