fimmtudagur, júlí 17, 2008

Hundaskítur

Oj...! Þegar ég kom heim áðan, eftir heilan vinnudag og ark alla leið upp á topp Hlíðarfjalls og með versnandi strengi og necrotíska verki í lærunum, gekk ég fram hjá skít... í miðjum stigaganginum. Er ekki verið að grínast í mér? Hver í fjandanum hirðir ekki upp hundaskítinn sinn???

föstudagur, júlí 04, 2008

Eldsneyti

Ég skellti mér í að prufukeyra bíla í dag, eins og í gær og náði 4 fyrir lokun. Það stóð samt tæpt en ég fékk í lokin að skella mér upp í gráan jeppling og brunaði af stað. Þegar ég var komin yfir ljósin sunnan við Toyota-umboðið tók ég eftir því að bensínljósið kviknaði. Ég vissi náttúrulega ekki hvort það hefði kviknað eitthvað áður en ákvað að halda áfram og taka smá rúnt. Það hlyti nú að hafast. EEEEN NEI! Þegar ég var á leiðinni til baka vildi ekki betur til en helv... bíllinn drap á sér. Frekar pínlegt að þurfa að hringja í umboðið og biðja þá um björgun. Þeir komu og drógu bílinn af stað þar sem hann fór ekki í gang hjá þeim neitt frekar en mér, allavega ekki fyrr en við vorum rétt lögð af stað. Þá prófaði gaurinn aftur að setja bílinn í gang og það tókst og hann náði að keyra nánast alla leið að Toyota, nema síðasta spölinn.

Þegar ég settist svo upp í minn bíl til að koma mér heim og loka á þessa vandræðalegu reynslu, kviknaði bensínljósið hjá mér og ég ætlaði sko hreint ekki að fara að verða bensínlaus þannig að ég brunaði á AO og fyllti kaggann fyrir litlar 9000 kr. SKÍTUR!!! Ég er hætt við að kaupa annan bíl, sel bara minn, kaupi mér vespu og málmbrynju til að vera í á vespunni, fleiri milljón króna líftryggingu og nota svo bara rútuna til langferða. Það er SVO langt því frá að

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Fleiri myndir

Ég hef ákveðið að reyna að setja inn eitthvað af myndunum sem lentu í tæknilegum örðugleikum í síðustu færslu.



Minntist ég ekki á myndavélina mína, sem varð batterýslaus á leið minni hringinn og ekkert hleðslutæki með? Þetta var sem sagt síðasta myndin sem mér tókst að taka...





Að sjá þessar skvísur... Það er óhætt að segja að þær séu stórglæsilegar.



Stórfrænkur og æskuvinkonur... Geri aðrir betur ;)



Það var svo sannarlega fjör og þessi mynd talar sínu máli.



Er einhver svipur með okkur systrabörnunum??? Tja...!



Góðu fjöri verður alltaf að ljúka einhvern tímann og það var svo sannarlega komið langt fram á næsta dag þegar síðustu hræðurnar skreiddust heim úr eftirpartýinu. Mér finnst þetta bara ótrúlega táknræn mynd. Merkilegt hvað grænn litur hefur róandi áhrif á þig Örvar minn ;)

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Lífs eða liðin...???

Voruð þið farin að halda að ég væri komin 7 fet undir græna torfu??? Hehh! Hreint ekki. Ég var bara í mikilli finnu og svo sumarfríi og mátti bara ekkert vera að þessu. Ég hélt líka að það myndu nú ekki margir kippa sér upp við það þó ég legði bloggfingurna á hilluna, en það voru bara ótrúlega margir sem kvörtuðu.

Síðasta bloggfærsla snérist um strengi... boot camp strengi. Í dag hef ég sært mig á annars konar strengjum. Ég keypti mér nefnilega gítar um daginn, með diggri aðstoð JGB og hljómsveitarfélaga hans. Fyrir valinu varð nettur kassagítar úr gegnheilum við og ég hafði það af í fyrsta skipti í kvöld að stilla hann alveg og reyna nokkur grip. Það sárvantar að einhver segi mér hvaða fingur ég á að nota á hvaða streng við þetta, ég er eitthvað að fikra mig áfram við þetta sjálf með aðstoð netsins auðvitað. Þar finnst jú allt. Það er ekki laust við að vinstri höndin sé svolítið aum við að pikka á lyklaborðið. Þetta kemur allt með æfingunni. Þarf líka að kaupa stóru gítarbókina, mér skilst skv. áræðanlegum heimildum að það sé algjört must.

Annars hefur sumargríið verið erfitt en skemmtilegt. Fyrstu dagarnir fóru í að skipuleggja 10 ára MA-afmælishitting og stóð dagskráin yfir í 3 daga. Þetta var hreint ótrúlega skemmtilegt en ég verð að viðurkenna að ég skemmti mér best 16. júní, þegar skipulagið lá ekki á mínum herðum og ég gat um frjálst höfuð strokið. Eitthvað tók þetta á því ég var vart mönnum sinnandi í 3 sólarhringa á eftir, svaf 11-14 tíma á sólarhring og gekk á autopilot þessa tíma sem ég átti að teljast vakandi. Ég læt nokkrar myndir fljóta með.

Örvar, Júlía og Fríða


Valdís og Berglind sýna þvílíka samvinnu að annað eins hefur varla sést á norðurhveli jarðar... tja, ekki síðan bara síðari ísbjörninn var skotinn um daginn ;)


Júlía... bíddu! Aftur??? Varla annað hægt... sjáið bara einbeitinguna.


Ohhh... Fæ ekki að setja inn fleiri myndir. Djö...!!!

Ég skellti mér líka í smá heimsókn í borgina til að fagna fertugsafmæli Markúsar, innflutningi M&M&M í nýja húsnæðið á Álftanesinu og svo auðvitað kennararéttindum Ingibjargar óðalsbónda. Úr varð hin besta skemmtun og hringferð meira að segja. Því miður var batterýið á myndavélinni ekki alveg til samvinnu svo ég gat ekki tekið svo mjög af myndum. Keypti reyndar eina einnota myndavél á Vík svo ég get kannski sett inn einhverjar myndir þegar fram líða stundir.

Í vikunni sem leið fórum við skvísurnar 3 í smá kvöldrúnt í íshellinn í Mývatssveit. Ég keyrði á upphækkaða Nissan jeppanum og það var ekki laust við að það færi um mann einhver macho-straumur að stýra svona stórum dekkjum. Eitthvað var það allavega. Ég er að hugsa um að hætta við að skipta Avensisnum út fyrir Octaviu og fá mér bara alvöru jeppa í staðinn ;). Hérna væri líka bara algjör nauðsyn að láta myndir fylgja með, en mér bara tekst ekki að hlaða inn fleiri myndum hérna að sinni. Spurning um að endurvekja þessa myndasíðu sem ég stofnaði einhvern tímann...

Svo ótal margt hefur skotið upp í kollinn á síðustu vikum sem svo sannarlega hefði átt skilið að enda í færslu hérna á þessari síðu en ég man náttúrulega ekki lengra en nef mitt nær (og það er nú ekki svo ýkja langt að það eru litlar líkur á að svo verði.

Boot camp aftur í fyrramálið eftir um 3 vikna hlé... ekki nokkrar líkur á strengjum eftir það, eða hvað???