mánudagur, apríl 20, 2009

Apríl í myndum....

Aprílmánuður byrjaði vel fyrir  menningarvitana. Eftir ótrúlega skemmtilega Queen tribute tónleika hinn merka dag 26. mars kom færeyski söngfuglinn Eivör norður yfir heiðar og heiðraði okkur með nærveru sinni. Barkinn hennar inniheldur ekki bara rödd, hann er hreinlega hljóðfæri. Gæsahúðin kættist svo mjög að hún var viðvarandi næstu daga á eftir.


Hér má sjá hvernig hún beitir tungunni af hreinni snilld...

Annar stórviðburður í lífi mínu átti sér stað föstudaginn 17. apríl síðastliðinn. Þá fór ég í laseraðgerð á augunum til að endurheimta fulla sjón... þ.e. án þess að þurfa að styðjast við hjálpartæki eins og gleraugu eða linsur. Aðgerðin heppnaðist í alla staði vel og nú get ég fylgst með minnstu smáatriðum í kring um mig, óháð veðri og vindum :)

Mikið rosalega er maður nú smekklegur og sexý svona blindur og fínn beint eftir aðgerðina...

Á laugardaginn var var svo glímt um Grettisbeltið, dýrasta verðlaunagrip landsins. Þar tók frændgarður minn þátt, hvorki meira né minna en helmingur þátttakenda (4/8) sem er þess heiðurs aðnjótandi að geta titlað sig systursyni eða bróðursyni mína... Já sæll!!! Ekkert smá heppnir þeir. Þeir stóðu sig með stakri prýði að vanda og skipuðu þrír þeirra efstu sætin, sem er alveg nýtt í sögu þessarar gömlu þjóðaríþróttar, svo einstakt fyrirbæri að þulurinn var búinn að nauðga frasanum um frændurna frá Baldursheimi. Hann kom reyndar með eina góða hugmynd... að halda Íslandsglímuna í Baldursheimi... en 100. glíman verður einmitt að ári. Mæli með því að skipuleggjendur athugi málið :)

Hérna eru verðlauna hafarnir þrír, Jón Smári og Pétur Eyþórssynir og svo Pétur Þórir Gunnarsson.

Hérna gefur svo að líta frændgarðinn, Einar Eyþórsson og Bjarni Þór Gunnarsson hafa bæst í hópinn. Gaurarnir í glímubúningunum kepptu allir um Grettisbeltið en litli grísinn í hvítu peysunni hafði keppt í grunnskólamóti fyrr um morguninn og verið í verðlaunasæti.

Hérna er svo sigurvegarinn í faðmi fjölskyldunnar.

Þeirri litlu leist nú ekki meira en svo á þegar karl faðir hennar byrjaði að glíma að hún brast í grát en virðist hafa róast í lokin allavega. Fjórði skjöldurinn með nafninu hans kominn á beltið góða og planið að fjölga þeim enn. Þess má geta að hann var aldursforsetinn á mótinu, einungis þrjátíu ára. Iss... það er enginn aldur :)

mánudagur, apríl 06, 2009

Karlaþjóð...!

Horfið endilega á myndina ,,A nation without women" og spáið í það í leiðinni hverjir sátu fyrir svörum fyrir stjórnmálaflokkana á borgarafundi á RÚV í kvöld...

föstudagur, apríl 03, 2009

Barði snillingur

Barði (í Bang Gang) er snillingur og sá allra kaldhæðnasti í heimi hér held ég bara hreinlega. Hann var í viðtali á Rás 2 núna rétt áðan og endaði á þessari snilld:

Eins og fólk með aflitað hár segir svo oft: ,,Af hverju að vera í fýlu þegar þú getur verið hress?"

Ég bara hélt ég myndi drepast úr hlátri, og það undir stýri í miðbæ höfuðstaðar Norðurlands og það á háannatíma á föstudegi. 

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Þrek!

Djö... að maður skuli ekki vera duglegri að hreyfa sig. Manni líður svo óendanlega vel eftir að hafa púlað duglega. Ahhh...! :)