sunnudagur, janúar 20, 2008

Borgin

Ég mætti í borgina í gær og ákvað að rifja upp gamla takta og skellti mér á djammið í gærkveldi. Fór fyrst út að borða með henni Höllu minni á b5, sem er víst einn af heitari stöðum bæjarins í dag. Það er af sem áður var þegar Óliver var staðurinn.

Ég verð að segja að það voru mun fleiri karlmenn til að gleðja augað hérna en fyrir norðan, maður áttar sig SVO greinilega á því þegar maður kemur aftur eins og aðkomumaður... Mér fannst þetta mjög gaman og ætla að koma bráðlega aftur. Það var líka miklu meira af leiðinlegu fólki í bænum en ég hef lent í fyrir norðan. Djís! Ég hélt ég myndi drepast úr leiðindum í leigubílaröðinni, pissfullur gutti fyrir aftan mig sem reif endalaust kjaft við einhverja skvísu. Ef hún hefði bara þagað og ekki svarað honum endalaust. Ég var orðin svo pirruð að ég átti bágt með að lemja þau ekki bæði. Íslendingar eru með nettan snert af mikilmennskubrjálæði svona á mánudögum-föstudögum... en um helgar og í glasi magnast þetta brjálæði um allan helming, svo mjög að mig hryllir við. Dýrseðlið skín svo í gegn að siðmenning fýkur gjörsamlega út í veður og vind.

Er til eitthvað sem getur fallist undir að vera ,,normal" Íslendingur?

fimmtudagur, janúar 17, 2008

,,Stórir strákar fá raflost..."

Svo var kveðið á síðustu öld. Maður hefði haldið að háskólagengin manneskja ætti að átta sig á því að það
getur verið hættulegt að vinna við rafmagn... þegar það er á, ekki satt?

Tja! Frá því ég flutti inn í íbúðina mína núna í byrjun septembers s.l. hafa dósirnar í loftinu stungið aðeins í augun á mér. Greinilega ekki svo mikið að ég sé búin að taka mig til og laga það á þeim tæpum 5 mánuðum sem ég hef verið hérna... EN í dag tók ég mig til og kippti þessu í liðinn. Til að laga þetta þurfti ég að losa plastdótið af endunum á rafmagnsvírunum til að koma þeim undir lokið á dósunum... þið skiljið vonandi. Allavega, ég vildi ekki gera þetta í myrkrinu svo ég hafði kveikt á ljósunum... GÓÐ HUGMYND!!! Ég hefði kannski átt að taka rafmagnið af þegar ég fékk smá straum í puttana... en það var nú bara svona rétt til að minna mig á að ég var að vinna við lífshættulegt rafmagn, RAFMAGN gott fólk..! Þegar bláu blossarnir létu sjá sig og lekaliðinn sló öllu út þakkaði ég guði fyrir rafmagnsverkfræðinginn
sem fann hann upp, tók rafmagnið af og kláraði allar hinar dósirnar með Malawíljósið á höfðinu og slapp við að enda sem rafmagnssteikt, illalyktandi brunahrúga.

Ég hef lært mína lexíu allavega og batnandi manni er best að lifa :)

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Bíó

Eru ekki allir búnir að sjá ,,The Golden Compass"? Ég skellti mér á hana um daginn og skemmti mér konunglega. Vel gert ævintýri sem er alveg fyrir mig og svo skemmir hreint ekki fyrir að það er slatti af húmor í henni og óvæntum uppákomum.

Ég mæli með henni :)

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Hlutir sem eru afstæðir!

Aldur er einn af þeim. Mér finnst ég til dæmis bara hreint ekkert eldri en þegar menntaskólaárin voru í gangi og rétt við það að líða undir lok... jú, ok þá! Kannski smá, en hreint ekki svo mikið. Kveikjan að þessum örstuttu hugrenningum er sú að ég var að koma heim eftir hreint yndislega kvöldstund. Við fórum nefnilega 7 stöllur úr menntaskólanum (MA altso fyrir þá sem ekki vita...) út að borða og svo á kaffihús og umræðan var óneitanlega lituð af fjölskyldumunstri flestra viðstaddra (FLESTRA en ekki alveg allra, NB...). Barneignir, brjóstagjöf, 10 ára MA reunion, barneignir, lega á fæðingardeild eftir fæðingu... o.s.frv. Á borðinu við hliðina sátu strákar... á menntaskólaaldri líklega þó þeir hafi litið út fyrir að vera 10 ára og þeir voru þvílíkt að fylgjast með umræðunni á okkar borði. Spurningin er hvort þeir voru að hlusta af því að þeir væru að velta því fyrir sér af hverju svona ,,fullorðnar konur" væru að gera úti á kaffihúsi í miðri viku eða þá að umræðuefnið um fæðingar og brjóstagjöf, sílikonhlífar á geirvörtur og ungabörn vakti áhuga hjá þeim.

Ég veit hreinlega ekki hvort er skárra :/

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Gleiðlegt nýtt ár

Árið 2008 er gengið í garð. Ársins 2007 verður minnst fyrir mjög svo misánægjuleg tíðindi. Ég lagði leið mína til tveggja nýrra heimsálfa, Afríku og Asíu og snéri heim aftur ríkari af reynslu á hinum ýmsu sviðum og er mun nær því að vita hver ég er. Ég náði líka þeim merka áfanga að útskrifast loksins frá HÍ eftir 6 ára langt nám. Anna frænka útskrifaðist einnig. Ég byrjaði á kandídatsárinu sem flýgur áfram og nálgast endann ótrúlega hratt. Þá á ég að vera orðin fullorðins... Þessi pistill á ekki að vera neinn annáll svo ég ætla ekki að þylja allt upp og gleymi sjálfsagt einhverju mjög svo mikilvægu. Ýmislegt annað miður skemmtilegt hefur líka gerst á árinu, vinir hafa lent í slysum og vandræðum, náskyldir ættingjar greinst með leiðinda, leiðinda veikindi og nú síðast fauk hluti af fjárhúsþakinu hjá Eyþóri bróður mínum. Það var alveg hreint fáránlegt veður þennan 30. des síðastliðinn. Ég fauk... ÉG FAUK og réði ekkert við mig. Það hef ég aldrei upplifað áður. Fjárhúsin sveifluðust til í vindinum og rúður splundruðust yfir greyið kindurnar. Þakplöturnar flugu og ein þeirra endaði í rekaviðardrumb og stóð föst þar, og hreif hann með sér í rokinu. Ég held að það hefði orðið eins og í Quentin Tarantino mynd ef það hefði maður orðið fyrir þessu flykki en ekki rekaviðardrumbur. Ég hafði enga trú á að það yrðu 
uppistandandi fjárhús eftir þetta veður 
allt saman en allt fór betur en á horfðist, húsin standa 
enn og hluti af gærdeginum fór í að 
loka gatinu sem myndaðist á þakið. Þá stóðu menn
saman eins og svo oft áður þegar á reynir, fólk af
nágrannabæjunum kom til hjálpar og þetta gekk
allt saman ótrúlega hratt og vel.

En nóg um það. Ég vona svo sannarlega að árið 2008 verði betra en það nýliðna og að okkur hlotnist öllum heilsa og hamingja. Ég ætla allavega að lifa leyndarmálinu í botn og sjá hvert það leiðir mig. 
Það verður spennandi að sjá um næstu áramót :)