föstudagur, september 14, 2007

FSA

Hef hafið starfsferil minn á FSA eða hvernig sem maður á að skammstafa þetta í dag. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri heitir nefnilega ekki lengur ,,Fjórðungur" skv. lögum frá alþingi, heldur er bara alveg hreint heilt sjúkrahús og heitir því Sjúkrahúsið á Akureyri. Held ég haldi mig samt við að tala um FSA þar til mér verður skipað að segja eitthvað annað.

En nóg um það. Veðrið í gær var alveg hreint fáránlegt, hífandi rok, lemjandi él eða rigning til skiptis og svo lítið skyggni að varla sást á milli fjalla hérna í firðinum, sem mér finnst frekar furðulegt þar sem Eyjafjörður getur varla talist annað en þröngur fjörður. Þetta minnti óneitanlega örlítið á gráa daga í höfuðborginni. Í dag skartar fjörðurinn hins vegar sínu fegursta, glampandi sól, kalt og snjór efst í fjöllunum og þvílíkt logn að það er eins og fjörðurinn sé ísilagður því þar sést ekki gára á yfirborðinu. Yndislegt alveg hreint! Hlakka til að komast út fyrir veggi sjúkrahússins.

mánudagur, september 03, 2007

Rúmlega!

Jebb! Rúmlega... ekki í merkingunni ,,aðeins meira en" heldur í merkingunni ,,að liggja í rúminu".

Nú gætu sumir lesendur fyllst unaðstilfinningu í erli dagsins við þá tilhugsun að fá að eyða deginum í rúminu. Ég verð að viðurkenna að ég hef líka tilheyrt þeim hópi, en í dag finnst mér það bara þreytandi. Er það kannski af því að ég er með stöðugan verk í helv... vi. ökklanum, sem er þrefaldur að þykkt og farinn að verða bláleitur? Gæti verið! Er það kannski vegna þess að tærnar á þessum sama vi. fæti eru svo þrútnar og ljótar á litinn að mann hryllir við að þurfa að horfa upp á þetta? Gæti verið! Eða er kannski málið að mér finnst þessi dofi í téðum tám pínu spúkí? Gæti verið!

En hver er ástæðan fyrir þessu einkennilega ástandi á ökklanum? Tja! Ég skal reyna að útskýra það. Ég á hinn mesta gæðing sem heitir Askur. Hann er hár og tignarlegur hestur sem ber af í stóðinu okkar og allir hafa orð á því hvað hann sé vasklegur klár. Þrási karlinn hafði m.a. sérstakt dálæti á honum. Hann Askur minn stendur líka óneitanlega undir þessum væntingum, hann er þýður og góður hestur en fjárrekstur er honum ekki svo mjög að skapi, allra síst í nágrenni við vélknúin farartæki og ALLS ekki 2 daga í röð. Hérna var nefnilega smalað á laugardaginn og þá fékk ég óneitanlega að prófa smá kúrekatakta eins og að sitja hann rétt á meðan hann prjónaði aðeins (sem ég er nú í æfingu við að gera) og skella mér á bak með bara annan fótinn í ístaðinu og báðar hendur með traustatak í faxinu. Í gær tók svo steininn úr því við fórum út í Gautlönd að ná í fjárhóp sem við áttum þar. Leiðin heim var óneitanlega verulega pirruð af hans hálfu, kippandi í tauminn og hoppandi upp í loftið annað slagið. Þegar við vorum svo komin heim að Gróf tók hann svo smá prjón, beint upp á afturfæturna, ég renn aftur af hnakknum og lendi á tveimur fótum. Þarna stóð ég sem sagt í vegkantinum, með hestinn á tveimur fótum fyrir framan mig og ég hélt enn í tauminn með annarri hendinni einhvers staðar langt fyrir ofan mig. Þegar ég lít upp sé ég í hvað stefni, því Askur karlinn var farinn að falla í átt að mér. Ég væri eflaust ekki hér til að segja frá þessu ef ég hefði bara staðið þarna hvumsa og beðið þess sem óhjákvæmilegt var. Sem betur fer var ég frekar snögg að hugsa og stökk af stað til að forða mér frá því að lenda undir hrossinu mínu en það bara vildi ekki betur til en svo að ég snéri mig á ökklanum og kútveltist niður vegkantinn, sló hausnum eitthvað í en tók sem betur fer ekkert eftir því þar sem ég var með hjálm. Vegsummerkin um höfuðhöggið sáust bara á hjálminum sjálfum. Téður steinn í vegkantinum ku bera nafnið ,,Sólveigarbani" í daglegu tali á heimlinu. Hólmgeir litli frændi minn lýsir þessu ágætlega...: ,,Ég sá bara allt í einu 4 fætur á hrossi spriklandi upp í loftið".

Ég er búin að láta mynda þetta flykki sem ég dröslast nú með á þeim stað sem ég hafði einu sinni vinstri ökkla og fót og ég reyndist óbrotin. En mikið askolli finn ég til í ökklanu og hann er alveg leiðinlega bólginn greyið en ég er heil að öðru leyti og hann Askur minn líka svo þetta er allt í góðu. Ég hökti bara um á öðrum fæti og hækjum en er mest bundin við rúmið og læt mér leiðast en þakka guði fyrir að ég lenti ekki undir karlinum mínum í þetta skiptið.

,,Og hananú sagði hænan og lagðist á bakið!"