laugardagur, apríl 28, 2007

Fegurðarsamkeppnir...

Er að velta fyrir mér hvort að sú regla sé enn við lýði í fegurðarsamkeppnum kvenna að barneignir útiloki þáttöku... engar mömmur takk???

Ætli það sama gildi um þátttöku karla í svona keppnum? Er bara að spá af því að Hr. Heimur keppnin er í gangi á Skjá 1 núna...

föstudagur, apríl 27, 2007

What's up?

Ætla að skella inn litlu fréttaskeyti hérna í tilefni þess að ég er þreytt á lestri :)

Síðustu helgi brunaði ég heim í sveit til að vera viðstödd fermingu Ástu frænku. Hún er náttúrulega alveg ótrúlega sæt skvísan og bara alveg hreint myndarlegasta fermingarbarn sem ég hef séð frá upphafi svei mér þá. Sjáið bara sjálf...

Hérna eru fermingar systkinin og svo Ástan ,,litla" við veisluborðið með bros á vör.

Veðrið um helgina var alveg ótrúlega furðulegt, það kyngdi niður snjó á föstudeginum og ég keyrði norður í leiðinlegasta slyddu/slabb/hríðarveðri sem um getur. Svo var alveg snjóhvítt bara og gæsirnar voru auðveld bráð ef einhverjum hefði dottið í hug að skjóta á þær. Þær reyndu að finna sér bletti þar sem styst var niður á jörð en það tókst nú misvel hjá þeim og andagreyin reyndu að synda í gegnum krapið á tjörninni (á ekki mynd af því). Það var hins vegar heitt á daginn, alveg 5-7 stiga hiti svo þetta var mjög furðulegt.

(vona að þið sjáið gæsagreyin sem dökku dílana...)

Svo verð ég bara líka að halda í hefðina með að sýna myndir af krílunum heima. Þau voru hressari sem aldrei fyrr og eru farin að tala út í eitt. Þau verða óstöðvandi áður en langt um líður.

Katla skvís, lokuð uppi á lofti...

Bárði finnst mjög spennandi að fikta í hliðinu þessa dagana og þó það líti út fyrir að hann sé fangi, lokaður bak við rimla á þessari mynd þá hefur hann mjög gaman af þessu og er ævinlega að fikta í hliðinu. Hann á eftir að fatta hvernig maður opnar áður en langt um líður.

Annars er fátt nýtt sem drífur á daga mína, les hérna lyflæknisfræði og uppgötva svo sem alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi... held reyndar að þessi lestur sé farinn að taka sinn toll því það er komin einhver innri óeirð í mig og ég held tangarhaldi í bækurnar til að henda þeim ekki frá mér og gleyma mér í kæruleysi og tilhlökkun fyrir Tælandsferð. Ætla líka að skella mér á Diktatónleika í kvöld sem ég hlakka þvílíkt til að fara á, svo þið sjáið að það þarf alveg óskaplega lítið til að kæta mig :)

Verð líka bara að minnast að ég fór í bíó um daginn, á mynd sem heitir ,,the Shooter" með Mark Wahlberg í aðalhlutverki og einhverri skvísu sem fór alveg ótrúlega mikið í taugarnar á mér fyrir mjög sterkan suðurríkjahreim. Myndin er ósköp þunn en ágætis afþreying og ég veit um allavega eina sem gæti átt eftir að slefa nokkrum munnvatnsdropum yfir MW... (IB).

En best að læra smá meira um nýrun áður en ég skelli mér í bæinn. Aldrei að vita hvenær það gæti komið sér vel að slá um sig á börum borgarinnar með fróðleik um sýru/basajafvægi... HAHAHA... :D

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn

Jæja gott fólk! Það er komið sumar... eins og segir í laginu. Þó að veðrið hafi verið einstaklega fallegt hérna í höfuðborginni í tilefni dagsins þá var ekki laust við að það væri aðeins kalt, en sólin skein og það blakti varla hár á höfði. Veturinn klikkti út með stórviðburðum í miðbænum þar sem sannarlega var heitt, annarsvegar í eldinum í Pravda og hins vegar í heita vatninu á Laugarveginum. Ótrúlegt alveg... en Pravda var líklega heitasti staðurinn í bænum um tíma ;)


Hér gefur að líta það sem eftir er af staðnum sem hefur verið viðkomustaður læknanema eftir vísindaferðir síðustu misseri, en hann má muna fífil sinn fegurri.


Ég get svo sem ekki sagt ykkur neinar stórfréttir. Ég er á leiðinni heim í sveit í dag, ferming hjá systur minni, eða já öllu heldur dóttur systur minnar á morgun og svo bara brun í bæinn aftur á sunnudaginn. Hvernig þetta fer með lestur skín alveg í gegn, en það verður bara að hafa það. Ásta skvís fermist líklega bara einu sinni og ég vil ekki þurfa að missa af því takk fyrir. Verð bara að láta nokkrar myndir af litlu krílunum fylgja með.


Katla skvísan hefur frekar sérstakan smekk, hún rífur í sig heyið frá kindunum með bestu list. Hún stendur í garðanum og velur sér bestu tuggurnar úr rígresisrúllunum og hérna er hún einmitt alsæl með lúku, sérvalin frá lambsmóðurinni, sem gefur að skilja fær besta heyið ;)
Það rifjaðist reyndar upp fyrir mér að eitt það sem manni fannst einna best í den var að komast í rígresið í votheysturninum svo kannski er margt líkt með skyldum þegar allt kemur til alls.


Hérna er svo Bárður meistari aðeins að taka til í fjósinu. Ótrúlegt hvað fata, skófla og smá sandur getur haft ofan af fyrir þessum litlu dýrum. Ég var reyndar virkur þáttakandi í þetta skiptið en það festist ekki á digital form :D

Hætt í bili. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og vona að það reynist ykkur öllum einstakt.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Ofbeldisfullt Draumaland...???

Hvað er í gangi eiginlega? Fyrir nokkrum morgnum vaknaði ég með verk í nefinu og var helaum á mótum brjósks og beins. Ég hélt fyrst að þetta væri tengt kvefinu mínu eða að ég væri hugsanlega komin með sýkingu því þetta var bólgið allt líka. Eða var ég kannski kýld í Draumalandinu? Tja... maður spyr sig.

Í morgun vaknaði ég svo að drepast í hálsinum. Ekki svona eins og þegar maður er með hálsbólgu heldur eins og að ég hafi verið lúbarin á barkann, þið vitið svona eins og menn fá í bíómyndunum. Það er vont að kyngja og mjög svo vont að koma við hálsinn bara allan nánast.

Ég held hreinlega að ég verði að fara að skipta um Draumaland. Það er eitthvað athugavert við þetta allavega.

laugardagur, apríl 14, 2007

Fæðingalæknisfræði...

Játs!

Sit hérna með krosslagðar fætur og langar í augnablikinu ekkert að eignast börn... EVER, bara að ættleiða. Er nefnilega farin að lesa fæðinga- og kvenlæknisfræði og er í augnablikinu að lesa um fæðingar og viðgerðir á afleiðingum þeirra... Jakk! Veit að allavega sumir lesendur mínir vita hvað ég er að fara með þessu :/

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Mánuður í prófið :/

Jæja gott fólk! Ég er á lífi, ekki það reyndar að ég láti mér detta í hug að fólk efist eitthvað um það eftir bara nokkra daga blogghlé, en það má alltaf vona ;)

Ég ætla bara rétt að deila með ykkur hugleiðingu minni um nýtt slagorð 10-11 búðanna sem bylur á hljóðhimnum manns í hvert skipti sem maður opnar útvarp. ,,Ekki flækja lífið..." Er líf okkar nú orðið svo óendanlega flókið að við getum ekki lengur eldað eða skellt okkur í lágvöruverslun, sem er orðnar nánast á hverju götuhorni? Eða er bara svona ofboðslega einfalt að láta hreinlega ræna sig í 10-11 um hábjartan dag og það jafnvel í miðri viku? Ég get æst mig yfir fáránleika þessarar auglýsingar. Þýðir það þá að ég vil flækja lífið? Er ég kannski föst í viðjum míns of flókna Bónus-lífs?

Tja! Maður spyr sig...

sunnudagur, apríl 08, 2007

Fleiri myndir af fjöri Páskahelgarinnar :)

Jæja! Ætla að standa við loforðið sem ég gaf í síðustu færslu um að birta fleiri myndir af skemmtunum páskahelgarinnar. Fyrst ætla ég að láta fljóta með fleiri myndir frá Hvanndalsbræðrum á Skírdag.


Hér eru þær Heiðar-systur allar komnar saman á tjútt í höfuðstað Norðurlands og farnar að taka aðeins í hvora aðra... þó ég leyfi mér að halda því fram að þær hafi nú eflaust nokkrum sinnum áður tekið ívið meira í hvora aðra ;)


Ef þessi mynd er aðeins hreyfð þá er það bara merki um hvað var gaman hjá okkur. Þið sem voruð ekki á staðnum misstuð af miklu en voruð án efa með okkur í anda :)



Þegar koma saman svona margar fyrrverandi bekkjarsystur er ekki annað hægt en að festa þær á filmu og ekki er nú síðra tilefni þegar þær eru svona fjallmyndarlegar allar saman ;)


Að kvöldi föstudagsins langa var svo haldið á tónleika Ljótu hálvitanna í Skjólbrekku og kom berlega í ljós að þeir bera nafnið með rentu og eru hver öðrum furðulegri í útliti. Þeir hins vegar syngja af þvílíkri innlifun og af einskærri gleði sem skín svo í gegn að maður getur ekki annað en hrifist með og haft gaman af. Textarnir þeirra eru líka ákaflega hnittnir og skemmtilegir og fjalla um daglegt líf en minna um rómantík og álíka bull ;) Eftir tónleikana var svo fjörinu haldið áfram í Seli við undirspil og þar gafst sko tækifæri til að dansa og drekka örlítið meir (vatn auðvitað eingöngu... hóst!), taka nokkur dansspor í viðbót og tjútta agnarögn til viðbótar. Það þarf því varla að hafa orð á því einu sinni að úr varð hið skemmtilegasta kvöld frá upphafi til enda, allt frá prepartýi hjá Ingibjörgu yfir í tónleika, millipartý hjá Ingibjörgu og svo að lokum á balli í Seli :)

Ok, þessi mynd er kannski ekkert frábær... en reynið sjálf að sjá myndarlegan mann á sviðinu...

Hérna tók Ólöf líka vel á því í tunguleikfiminni og er ég ekki frá því að hún hafi kvartað yfir strengjum í tunguvöðvunum í gær eftir erfiðið ;)



Og hér er svo hún ég sjálf í mínu fínasta pússi og með bros á vör í tilefni dagsins :)


En nú er líklega komið meira en nóg. Miðað við hvað mér hefur gengið illa að koma þessari færslu saman verður spennandi að sjá hvort mér tekst að birta hana... Látum allavega reyna á það :)

föstudagur, apríl 06, 2007

Heima og Hvanndalsbræður...

Ég er komin heim í sveitasæluna og verð hér í vellistingum þar til páskahátíðin er afstaðin. Fyrsta morguninn kom hann Bárður litli frændi minn og vakti mig náðasamlegast og við mikinn fögnuð eins og þið getið ímyndað ykkur. Hann fékk að launum að máta bikini-toppinn minn, hann passaði reyndar ekki alveg en flottur er hann karlinn.




Hérna hafa líka gerst undur og stórmerki, því hérna fæddust lömb... í mars. Segið svo að rómantíkin blómstri ekki í sveitum landsins enn ;)


Hérna er einmitt litli kúturinn að kljást við ,,kisa"
eins og hann kallaði það í byrjun,
en þetta er allt að koma hjá honum :D

Hérna er svo litla daman á heimilinu að taka til hendinni í skítmokstri sýnist mér. Hún kom einmitt inn áðan með skít á fingrunum, glennti fingurna framan í mig og sagði hátt og skírt: ,,Kiindakúúúku...". Geri aðrir betur, ég segi nú ekki annað ;)


Í gærkveldi var svo smalað í bíla og brunað á 3 vel fullum bílum til Akureyrar til að berja Hvanndalsbræður augum og hlýða á tóna þeirra og ilhýran söng. Á þessa bræður hef ég aldrei hlýtt áður, allavega ekki meðvitað. Ég komst reyndar að því að ég þekkti nokkur lögin þeirra, sennilega hafa þau sýjast inn af Rás2 eða eitthvað. Þessir bræður eru algjör snilld, slá á mjög svo létta strengi inn á milli og eru bara nánast með uppistand. Textasmíðar þeirra eru heldur ekkert ástarhjal endalaust heldur reyna þeir að segja sögu. Þeir voru einnig með bingó, happadrætti, föndurhorn og ég veit ekki hvað.



Hérna má einmitt sjá hve vel þeim tókst til að
föndra páfagauk úr mislitum pappírsörkum ;)


Félagsskapurinn var ekki heldur af verri endanum, gamlar góðar vinkonur og fjölskyldumeðlimir og svo sannarlega kátt á hjalla :)


Hérna má sjá Jóhönnu og Ingibjörgu fagna þeim bræðrum innilega...



Og hérna eru svo yfirlýstar systur, Vala og Bergþóra... (helv... myndavél :( )

Ég ætla að skella inn fleiri myndum hérna við tækifæri, en þar til ég fæ þær hjá henni Ólöfu minni verðið þið bara að láta þessar duga í bili. Í kvöld eru það svo Ljótu hálfvitarnir, sem (eins og áður hefur komið fram hér á þessari síðu) óþarft er að taka fram hvaðan eru ;) Þið fáið frekari fréttir af því síðar.

mánudagur, apríl 02, 2007

Slátur...!!!

Ó já lesendur góðir... SLÁTUR! En ekki lifrarpylsa eða blóðmör eins og borin er fram í sveitinni, og ekki blodpudding eins og þeir gera í Svíjaríki, ónei ónei, þetta blogg verður tileinkað annars konar slátri...

Ég gleymdi nefnilega alveg að minnast á hápunkt laugardagsdjammsins... Ég endaði nefnilega á Óliver eftir tónleikana og hékk þar með 3 mismunandi gengjum eftir því sem kvöldið drógst á langinn. Einmitt á þeim tíma sem ég sat við borð með Betu, Siggu og fleirum þá kemur eitt stykki Skoti labbandi fram hjá borðinu. Ég reyndar veit svo sem ekki hvort hann var frá Skotlandi... en hann var allavega í skotapylsi. Einhvern veginn æxlast nú málið svo að hann er eitthvað að reyna að komast fram hjá Siggu, svona pínu vandræðalegt eins og þegar maður ætlar að víkja til vinstri og manneskjan á móti víkur til hægri (frá henni séð) og svo sviss þar til menn hafa dansað salsa þarna í einhvern tíma... (Sorry! Nú missti ég mig aðeins :/) Allavega! Sigga gerði það sem margir hafa hugsað en ég hef aldrei séð neinn framkvæma áður, hún kippti pylsinu upp... og mítan er sönn...!!! Ó já, því við henni og okkur hinum við borðið blasti þetta líka litla slátur (kannski sönnun á annari mítu með að Skotar hafi stór reður). Við vissum ekki alveg hvernig við áttum að bregðast við né hvernig hann myndi bregðast við... Við allavega sprungum úr hlátri og fórum nett hjá okkur... Skotinn var bara pollrólegur og reyndi að sannfæra okkur um að nú væri komin röðin að okkur. Hann hafði samt ekki erindi sem erfiði en maður gæti velt því fyrir sér hvort þetta sé einmitt tilgangur hans með því að mæta í skotapylsi á djammið...!!!

Þetta ætti maður allavega alveg að geta kallað... slátur í beinni!

Njótið heil!

sunnudagur, apríl 01, 2007

Atlantic Music Event 2007

Nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að gera alveg hreint fullorðins bloggfærslu, með myndum og tenglum og alls konar krúsídúllum svo það verður spennandi að sjá hvernig til tekst.

Þá er Atlantic Music Event 2007 lokið og stóðust alveg væntingar. Held að Færeyingar eigi alveg ógrinni af efnilegum tónlistarmönnum ekkert síður en við Íslendingar, sem þó viljum helst eiga heimsmet í öllu og það með talið fjölda efnilegra tónlistarmanna.


Hérna er hann Brandur Enni að taka nokkra ljúfa tóna.
Drengurinn er ekki nema 18 eða 19 ára, semur ástarsöngva
eins og ítalskur hjartaknúsari... Hann á eftir að þroskast á næstu
árum, bæði röddin og vonandi temur hann sér
fjölbreyttari textasmíð. Hér má svo hlíða á tóna hans
fyrir þá sem hafa áhuga :)


Næstur á ,,pallinn" eins og þeir segja á færeysku var svo
Teitur karlinn. Hann er með furðulegustu sviðsframkomu
sem ég hef séð, jaðrar við að maður fái það á tilfinninguna
að hann sé einhverfur tónlistarsnillingur.
Hann er líka með mjög sérstaka rödd, sem myndi
ólíklega flokkast undir að vera beint falleg, en hún er svo
furðulega heillandi samt að maður nánast fellur í stafi
við að hlusta á hann. Hvet ykkur til að dæma um það sjálf
með því að klikka hér.


Eivör ofurdífa var svo næst í röðinni og hún bætist á lista
yfir þær konur sem ég myndi vilja stela röddinni frá ef ég
fengi töframátt einn daginn. Ótrúlega sterk rödd og fáránlega
breitt raddsvið sem heillar mann alveg upp úr skónum og
sviðsframkoma í stíl. Hvet alla til að hlusta á útsendingu
Rásar 2 af þessum tónleikum næstkomandi föstudag
kl 16:05 eða kíkja á þetta til að svala örlítið forvitninni.


Það síðasta sem ég sá svo í þetta skiptið var hann
Högni Lisberg sem ég hugsa að dæmist sem idol kvöldsins,
allavega ef marka má aðdáun kynsystra minna í yngri kantinum.
Þær hreinlega slefuðu og gott ef sumar bleyttu ekki brók
svo mikil var hrifningin. Hann er náttúrulega klassa gaur
með hressa og skemmtilega sviðsframkomu.
Ég hef allavega hug á að fylgjast meira með hans efni
í framtíðinni og til að koma ykkur á bragðið
mæli ég með að þið klikkið á þetta.

Fyrir ofur-áhugasama einstaklinga um þessa færeysku tónlistarmenn er líka vert að benda á Rokklandsþátt Óla Palla frá því í síðustu viku, en þar eru þeim gerð góð skil eins og Óla er einum lagið. Skelli inn link til að auðvelda ykkur þetta ;)

En ætli ég segi þessari fullorðins bloggfærslu ekki lokið í bili. Þar til næst...
Adios! :D