laugardagur, mars 31, 2007

Og grettisbeltið vann...

Var á Íslandsglímunni áðan að styðja 3 frændur mína sem voru að keppa. Þeir stóðu sig með stakri prýði drengirnir eins og vænta mátti. Pétur Eyþórs. vann grettisbeltið með fullt hús stiga og Pétur Þórir varð í þriðja sæti með aðeins minna fullt hús... Jónsi karlinn var meira í því að skalla bara, ýmist gólfið eða andstæðinginn. Kannski verða þeir bara 3 á pallinum næst!

Annars mjög svo gott djamm í gær. Jón Gunnar vinur minn fagnaði þá nýliðnu afmæli sínu með stæl og bauð slatta af liði í partý. Ég mætti með Berglindi upp á arminn :) Úr varð hin skemmtilegasta samkunda þar sem m.a. voru Bandaríkjamenn og Danir á staðnum. Ég skellti mér í bæinn með Sue, mágkonu hennar, Rolf og Berglindi. Síðan fann hann Gísli okkur líka. Ég endaði svo á tali við 2 gaura... annan fæddan 85 og hinn 86, entist reyndar ekki lengi í því og tók leigubíl heim í kofann minn.


Hér gefur svo að líta afmælisbarnið og partýhaldarann ásamt
Tedda frænda sínum. Jón með hinn alræmda jarðaberja-mojito í hönd.


Here are my 2 new friends from USA, Careyanne (CA) and Sue.
Sue! This is just the beginning of a beautiful friendship ;)



Rolf og Berglindi sukku ofan í tal um umhverfisspjöll af völdum
mótorhjóla, náttúruvernd og svo margt annað...



Hérna erum við stöllurnar svo saman.
By far myndarlegustu læknanemarnir á staðnum ;)

Myndir af Íslandsgímunni verða að koma síðar, betri vélin notuð á svoleiðis samkomum sko!

fimmtudagur, mars 29, 2007

Wild Hogs!

Skellti mér í bíó í kvöld og sá þessa mynd ,,Wild Hogs". Mynd sem fjallar um 4 miðaldra karlmenn sem skella sér í roadtrip á Harley hjólunum sínum til að kæfa gráa fiðringinn og finna gaurinn í sér aftur - hljómar kannski ekki skemmtilega, en myndin kemur á óvart og er fyndin. Reyndar mjög svo einfaldur aulahúmor, en hey ef maður getur ekki hlegið að því þá á maður bágt. Þessi mynd fer nefnilega ekki yfir aulahúmorsmörkin, þið vitið þegar vitleysan er komin út í öfgar og hætt að vera hlægileg... humm.. jú kannski á köflum en það er ekki áberandi. Mæli því tvímælalaust með þessari mynd fyrir videokvöld þegar þið viljið kitla hláturstaugarnar og ég hef tröllatrú á því að hláturinn lengi lífið. Getið því horft á þessa mynd skv. verðandi læknisráði ;)

Maðurinn við hliðina á mér í bíóinu hló líka svona skemmtilega hátt og furðulega að það eitt hefði nægt til að fá mig til að skella upp úr, svo kannski var hann lykillinn að því að mér fannst þessi mynd svona fyndin. Menn ættu því kannski að hafa upp á honum áður en menn leigja myndina, svona til öryggis. Hláturinn hans vóg reyndar ekki alveg upp á móti reykingalyktinni af honum...

En nú er það draumalandið - þar sem ég þori kannski að vera mótorhjólagella og bruna um á HD, þó ég þori það ekki fyrir mitt litla líf svona ,,live" :/

miðvikudagur, mars 28, 2007

Er læknir á staðnum...???

Hefur þú lesandi góður velt því fyrir þér hvernig þú myndir bregðast við þessari fyrirspurn? Nei! Ekki það? Það hef ég og trúiði mér og hún vekur alltaf hjá mér jafn mikinn hroll. Ég ímynda mér náttúrulega þær allra verstu hugsanlegu aðstæður þar sem ég er kölluð til til að bjarga deyjandi manneskju... en hverjum bjargar maður svo sem algjörlega tómhentur??? Afskaplega fáum því miður, því eins og rannsóknir sýna þá bjargar hnoð ekki... en það getur viðhaldið lágmarks blóðstreymi til að manneskjan geti endurheimt eitthvert líf eftir hjartarafstuð, ef gefið nógu snemma. Ok, ég skal hnoða en því miður er ég ekki með innbyggt stuðtæki, allavega ekki enn.

Ég ætti kannski að fara að koma mér að efninu? Ok þá. Ég var sem sagt í Baðhúsinu í hádeginu í dag eins og svo oft áður en í þetta skiptið var ég í þrektíma dauðans, sprettir upp og niður stiga (4 hæðir), hoppa jafnfætis upp og niður stiga, sippa og svo armbeygjur og magaæfingar... og það er BANNAÐ að stoppa. Allavega, þegar kom að því að teygja kemur kona inn í salinn og spyr hvort að einhver læknir eða hjúkrunarfræðingur sé á staðnum. Ég hugsaði um það sem snöggvast að gefa mig ekki fram... en það var bara í einn þúsundasta úr sekúndu. Ég sá náttúrulega fyrir mér hið versta tilfelli og á meðan ég hljóp á eftir konunni fram var ég með mynd í kollinum af meðvitundarlausri, miðaldra konu á gólfinu í búningsklefanum með hjartaáfall eða eitthvað þaðan af verra. Málið var hins vegar ekki svo alvarlegt og þetta jafnaði sig nú bara með smá rólegheitum. Nú er þessi ís hins vegar brotinn og þó tilfellið hafi ekki verið alvarlegt í þetta skiptið þá á maður þetta fyrsta sjokk ekki eftir allavega.

Hafiði pælt í því að læknar eru þeir einu sem skv. lögum sem mega ekki yfirgefa slysstað? En nóg um þetta í bili.

Yfir og út!

þriðjudagur, mars 27, 2007

Ég átti ,,ammæli" í gær, ég átti ,,ammæli" í gær, ég átti ,,ammæli" ég sjálf... (sungið með sínu nefi)

Úff já, dagurinn í gær rann upp og EKKERT sem ég gat gert til að koma í veg fyrir það... Nei, nei, þetta var nú ekki SVO slæm lífsreynsla. Dagurinn var nú bara líkur öðrum dögum. Ég vaknaði til að lesa og eftir að hafa lesið örlítið um brjóstholsskurðlækningar fór ég í baðhúsið og stóð þar á öndinni með angana út í loftið í um klukkutíma. Einstaklega endurnærandi en ekki laust við að strengirnir létu aðeins kræla á sér. Sem betur fer fékk ég afsökun til að lesa ekki seinnipartinn ;) Hún Vala frænka bauð mér á kaffihús og svo eyddum við eftirmiðdeginum saman með Gesti Aroni auðvitað, litla kúti, sem varð náttúrulega að fá sinn skammt á kaffihúsinu þó uppáhaldið hans hafi ekki verið á matseðlinum... og nú mega menn geta í eyðurnar ;)

Í gærkveldi kom svo Jón ,,litli" frændi minn í heimsókn. Ætluðum að skella okkur í bíó en fundum ekki neina mynd sem okkur langaði eitthvað sérstaklega á. Þá kom hugmynd að fara í keilu en... í staðinn tókum við alveg hreint ógeðslega væmna stelpumynd á leigu (Family stone), svo væmna að ÉG var næstum búin að kasta upp við áhorfið... ótrúlega amerísk vella, segi ekki meir. Sem betur fer var samt hægt að skella upp úr inn á milli. Þetta minnti mig bara nánast á bíóferðirnar okkar um árið Ingibjörg... nema kannski ekki alveg eins slæmt. Enginn ,,Punisher" allavega ;)

Annars er lífið bara yndislegt og ég get hreint ekki kvartað, þó þessi lestur hangi yfir manni næstu vikurnar. Það er sól úti, dinner á Vegamótum með nokkrum af mínum uppáhalds skvísum í kvöld og páskarnir á næsta leyti og þá verður nú ýmislegt afrekað annað en lestur. Svo styttist bara óðum í Thailand baby, Thailand :D

Þar til næst

mánudagur, mars 26, 2007

Slegið á strengi... ekki endilega létta

Að hafa ekki hreyft mig síðustu mánuði var farið að há mér svo ég lagði leið mína í Baðhúsið um daginn af gömlum vana. Auðvitað hefur maður verið að hreyfa sig en ekki reglulega síðan fyrir jól svo nú skildi tekið á því. Tíminn byrjaði mjög svo vel, kom mér á óvart hvað ég stóð mig vel í mínum fyrsta pallatíma. Þegar ég var búin að hoppa og skoppa upp og niður af pallinum í rúmar 20 mínútur, sparkandi út í loftið, hnélyftu eða ,,hælírass" æfingar til skiptis og veifandi handleggjunum eins og ráðvilltur fugl fór ég að finna blóðbragð í munninum og hugsaði með mér að nú gæti ég ekki meir á þessum hraða... Um leið og ég hafði lokið þessari hugsun tók þrjóskan yfirvöldin, ég ætlaði sko hreint ekki að gefast upp og hélt áfram að hamast eins og geðsjúklingur og vandist blóðbragðinu. Svona kláraði ég tímann, ýmisst með þá hugsun í kollinum að ég gæti ekki meir eða að ég skildi klára þetta helv... fyrst ég byrjaði á því. Ahhh... mikið er gott að reyna á sig af alvöru og fæst betra en að koma heim sveittur og gera nokkrar jógaæfingar á dýnunni. Daginn eftir vaknaði ég með væga strengi í kálfunum en annars bara allt í góðu og stóð við að mæta í MRL (magi-rass-læri) tíma kl 9 á laugardagsmorgni... Þar tók ég á því af svipuðum krafti og áður nema helst til mikið í þetta skiptið... þurfti einu sinni að hlaupa út úr tímanum með æluna í hálsinum... Kláraði samt tímann líka og gerði góðar teygjuæfingar... með reglulegu millibili í allan gærdag því ég fann alveg hvernig strengirnir fóru vaxandi.

Í dag ætlaði ég svo að vera mjög svo dugleg, vakna og skella mér á bókhlöðuna til að lesa. Ég hafði það alveg af að vakna... en það gegndi öðru máli þegar kom að því að stíga í fæturnar, rétta úr þeim og ganga... það var óneitanlega erfiðara. Ég hætti því snögglega við að fara á hlöðuna og hef í dag haldið mig heima, í joggingbuxum og gangandi um íbúðina eins og gömul kona sem er slæm af slitgigt í hnjám og mjöðmum. Á morgun er hins vegar engin miskunn, þá verður átaksdagur enn og aftur svo það er vissara fyrir þessar fótadruslur að koma sér í skikkanlegt ástand í nótt :)

En nú er það draumalandið sem bíður mín... :D

laugardagur, mars 24, 2007

Af nútíð, fortíð og jafnvel miklu fleira...

Lesendur góðir. Í dag hyggst ég nefna allavega tvennt um Malaví sem ég held ég sé ekki búin að nefna áður. Hið fyrra gæti ykkur þótt svolítið sérstakt því í Malaví skiptir nefnilega máli hvernig maður klappar. Ójá, þið lásuð rétt. Fyrir almúganum og venjulegu fólki eins og mér og þér væntanlega líka á maður nefnilega að klappa með beina lófa og láta þá mætast eins og spegilmynd. Skiljiði? Þetta gefur mjög svo hvellt klapphljóð og ber ekki merki um neina sérstaka virðingu. Þegar hins vegar kemur að því að klappa fyrir ,,the chief" í þorpinu eða einhverjum æðri framamanni skal maður klappa með kúptum lófum, í hægari takti og myndast þá mun holara klapphljóð sem segir þeim sem klappað er fyrir hversu mikil virðing er borin fyrir honum. Það væru því mikil mistök að klappa fyrir forsætisráðherranum með flötum lófum, STÓR mistök.

Annað með hefðir í Malaví er að þar er vinstri umferð. Landið var náttúrulega bresk nýlenda svo það þarf svo sem ekki að koma á óvart. Ég gleymi ekki aukaslögunum sem hjartað mitt tók í rútunni frá Stansted til Hethrow þegar helv... rútan fór ÖFUGT í hringtorgið. Ég hélt ég ætlaði upp um þakið mér brá svo mikið. Til að byrja með fannst manni líka örlítið sérstakt að keyra vinstra megin og sitja ,,vitlausu" megin undir stýri, en það vandist ótrúlega fljótt. Það sem er kannski enn furðulegra er að síðan ég hef komið heim hef ég í tvígang verið í vinstri umferð... í mínum umferðarheimi allavega. Í fyrra skiptið var ég að keyra á Húsavík, sem er nú sem betur fer ekki mjög svo fjölfarinn bær og áttaði mig allt í einu á því að bíllinn sem ég var að fara að mæta keyrði á sömu akrein og ég... ég var ekki alveg jafn snögg að átta mig á að ég var að keyra öfugu megin á veginum :/ Þetta slapp samt stórslysalaust og bara vægur handskjálfti og hraðtaktur hjá mér rétt á eftir. Seinna skiptið var ég nú bara að keyra á þjóðvegi 1 í sveit sveitanna (ekki þörf á að taka fram hvar á landinu það er... ;) og er að tala við 14 ára frænda minn sem situr í farþegasætinu. Hann rýfur umræðuna eftir dálitla stund og segir við mig hálf furðulegur á svipinn: ,,Uuuu... Solla, ertu ekki að keyra á vitlausum vegarhelmingi...???" Ég þurfti í alvörunni að hugsa hvorum megin ég átti að vera... Þetta er nú samt allt að koma, held ég enda eins gott þar sem ég er nú farin að keyra um höfuðborgina og hér er nú ekki beint rými né fámenni til að leyfa manni að aðlagast hægri umferðinni í rólegheitunum. Þið sjáið af þessu Hannes og Elva að það verður ekkert endilega hlaupið að því að skella sér í umferðina á annatíma þegar þið komið aftur heim...


Hér verða sko nokkur danssporin tekin þegar kemur að því að fagna heimkomu ykkar ilfætlinganna að nokkrum mánuðum liðnum... Hérna er bara smá forsmekkur af því sem koma skal þegar þessi fríði og föngulegi hópur sameinast aftur á einum og sama klakanum og ég held að meira að segja kjötkveðjuhátíð í Rio muni blikna við samanburðinn ;)


(Á þessar myndir vantar reyndar Markus, en fann ekki mynd af honum... hún kemur vonandi síðar :)

Jæja, best að hætta þessu bulli og fara að lesa.
Eigið góðan dag, hvar í heiminum sem þið eruð :)

þriðjudagur, mars 20, 2007

Leiðrétting

Verður víst að taka það fram þar sem færslan kemur inn á 20. mars að hún er skrifuð 19. Vildi bara að það kæmi fram til að valda ekki misskilningi :)

Afmælisbarn dagsins

Afmælisbarn dagsins er óumdeilanlega Katla litla frænka mín, sem fyllir sitt annað aldursár í dag. Stúlkan sú kom í heiminn vonum seinna, eða nákvæmlega 7 tímum síðar en vonast var til. Hefði hún komið í heiminn þessum örfáu tímum fyrr hefði hún nefnilega átt afmæli í gær, sem er einmitt afmælisdagur afa hennar og föður míns heitins. En litla daman vildi eiga sinn dag út af fyrir sig, það er nokkuð greinilegt. Þetta var bara fyrsta merkið um staðfestu litlu frúarinnar. Hún nefnilega reynir sitt til að stjórna heimilisfólkinu og það ekki af veikum mætti. Reyndar fær hún mikla samkeppni í þeim efnum frá litla frænda sínum, Bárði en hann er ekki nema 7 vikum yngri. Hér mætast því stálin stinn í stjónseminni og alveg hreint yndislegt að fylgjast með þeim stundum, þó að hljóðhimnurnar séu farnar að safna siggi í öllum látunum :) Það eru náttúrulega gömul sannindi með börn (og jafnvel óþarfi að taka það sérstaklega fram) að það er ekkert leikfang eins spennandi og akkúrat það sem einhver annar heldur á... Þetta vil ég túlka sem staðfestinu á hinu gamla máltæki: ,,Grasið ER ávalt grænna hinum megin” (hinum megin við hvað samt???).


Úr sveitinni er náttúrulega bara allt gott að frétta. Hér er farið að sjást út á bæi aftur eftir bylinn í gær, en þá sást vart út úr augum. Þetta var samt ekki alveg eins slæmur bylur og gerði á aðfangadag 2005, en þá villtust menn á leiðinni út í fjós, sem er í ca. 30 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu. Það var rosalegt veður.

Humm... er að fatta eitt. Það átti nefnilega að halda upp á afmæli Kötlu litlu í gær... en vegna veðurs var því frestað til dagsins í dag... skrýtið! Ætli hún hafi einhver sambönd við veðurguðina líka litla daman og að stjórntaumar hennar teygi sig víðar en bara innan heimilisins???

Hér má allavega sjá litlu dömuna leika sér á ganginum heima í sveitinni. Veit nú reyndar ekki hvort fór sérstaklega vel um svínið í skónum en það skiptir heldur ekki höfuðmáli :)


Hér eru svo þau frændsystkin, Katla og Bárður (börn tveggja systkina minna fyrir þá sem ekki þekkja til en hafa áhuga á ættfræði) að leika sér saman í nokkuð góðri sátt.

Hér gefur að líta Bláfjallið mitt fagra og fjárhúsin okkar heima. Ég bara kemst ekki yfir hvað snjórinn gerir náttúruna fallega. Þessi mynd er reyndar tekin fyrir fyrrnefndan byl, verð að bæta úr því á morgun með nýjum myndagöngutúr :)


Og hér er svo aðeins annar vinkill á sveitina heima þar sem áin hefur flætt yfir allt og búin að hertaka veginn austur að fjárhúsunum.

En nóg komið í bili. Hérna megin á hnettinum er kominn háttatími fyrir heiðarlegt og vinnandi fólk, samt spurning um hvort ég tilheyri þeim hópi þessa dagana... Tja, telst vonandi enn nokkuð heiðarleg þó að vinnan sé kannski eitthvað minni.

Yfir og út!

sunnudagur, mars 18, 2007

Myndasíðan komin í gagnið :)

Jæja mínir kæru lesendur :)

Hér eru mikil tíðindi... ég er komin með myndasíðu og búin að ná að raða myndunum í rétta röð en á reyndar eftir að setja inn útskýringartexta. Ég vara ykkur samt við því myndirnar eru ansi margar þrátt fyrir að ég hafi skorið þær niður um næstum 2/3 :)

Slóðin er: www.fotki.com/solveigpe

Líka komnar inn nokkrar árshátíðarmyndir en þeim á eftir að fjölga.

Kveðja úr snjóbylnum í Mývatnssveitinni

sunnudagur, mars 11, 2007

Af árshátíð og sveitasælu

Ekki misskilja þetta sem svo að Malavípistlum sé lokið, hreint ekki. Verð bara aðeins að skrifa um nútímann líka svo að þið náið að fylgjast með áfram.

Ég er nefnilega komin heim í sveit eftir mjög svo vel heppnaða árshátíð Félags læknanema á föstudagskvöldið þar sem allir mættu í sínu fínasta pússi og voru foreldrum sínum og stétt til sóma... svona það sem ég sá til allavega. Okkar bekkur var reyndar helst til fámennur enda margir enn í útlöndum. Skemmtiatriðin að þessu sinni voru alveg hreint stórskemmtileg og tjúttið á eftir ekki síðra. Ég skemmti mér allavega alveg frábærlega. Myndi vilja setja inn myndir hér því til staðfestingar en það er víst eitthvert klikk í kerfinu svo nú get ég ekki sett inn myndir. Kannski er búið að setja upp myndkvóta á bloggspot.com og ég því sennilega búin með minn í bili :)

Í gær tók ég svo flugið og skellti mér norður í land og heim í sveit, sem tók mér í þeim búningi sem mér finnst klæða hana best, fannhvít og bjart yfir. Það er EKKERT sem toppar Mývatnssveitina mína þegar hún er svona prúðbúin :) Hérna heima var líka tekið mjög svo vel á móti mér, fólk almennt hissa á að sjá mig aftur í heilu lagi... veit ekki við hverju þau bjuggust eiginlega, ég hafði aldrei hugsað mér að koma heim í molum.

Til að toppa heimkomuna komst ég í feitt áðan... fór niður í skúr og haldiði að ég finni ekki þessa dýrindis lykt þar, ilminn af hákarli, sem ég hef nú þegar gætt mér á bara svona rétt í forrétt fyrir lambalærið sem er í hádegismat :) Má vera að einhverjum lesendum mínum blöskri, en hákarl og súrir sviðafætur var óneitanlega eitthvað sem ég hefði viljað snæða á þorranum en var ekki alveg á boðstólnum í Malaví. Íslenska brennivínið og ákavítið má alveg missa sín enda fékk ég meira en nóg af C (Carlsberg).

Over and out

miðvikudagur, mars 07, 2007

Pistill nr 3

Humm... hvað á ég nú eftir að segja ykkur?

Man eftir einu sem ég gleymdi um daginn þegar ég var að tala um fólkið og þjóðflokkana. Við nefnilega fórum einn daginn á menningarsafn þar sem við vorum fræddar um mismunandi hefðir hjá þjóðflokkunum. Margt sem var sagt var svo fáránlegt að ég hreinlega verð að hafa orð á því. Hjá Malövum er það t.d. sér athöfn þegar hjón hafa samfarir í fyrsta skipti eftir meðgöngu og fæðingu. Chewarnir eru raunsæir og þar sem samfarir eru bannaðar síðari hluta meðgöngu og í 3-6 mánuði eftir barnsburð er bara hreinlega reiknað með því að heimilisfaðirinn fái útrás fyrir langanir sínar ,,on the side”. Til að koma í veg fyrir að þessar athafnir hans og þau óhreinindi sem því fylgja smitist yfir í saklaust barnið hans er barnið haft með við fyrstu bólfarir foreldranna eftir þetta hlé. Það er ýmist bundið á bak móðurinnar eða haft liggjandi í rúminu. Þegar allt er afstaðið er sæðinu og ,,vaginal fluids” safnað saman og barnið smurt þessum líkamsvessum foreldra sinna og svo þarf að lyfta því yfir eld frá norðri til suðurs og austri til vesturs til að hreinsa barnið af hugsanlegum syndum föðurins. Annar þjóðflokkur hefur það lagið á að fyrstu 2 vikurnar eftir fæðingu er móðirin í sér húsi með nýburann en að þeim tíma liðnum þarf hún að gefa eiginmanninum merki um hvenær hann er velkominn aftur. Það gerir hún með því að verða sér úti um ferska kúamykju, smyrja henni á allt gólfið í húsinu og sitja svo fyrir utan með barnið þar til eiginmaðurinn rennur á lyktina... í bókstaflegri merkingu. Hljómar þetta ekki vel? Hjá sumum þjóðflokkum þurfa menn líka að borga fyrir kvonfang, nokkurs konar heimanmund. Bílstjórinn okkar þurfti m.a. að greiða andvirði 3 kúa fyrir konuna sína. Hann spurði líka hvað þyrfti að borga fyrir okkur og hann átti mjög erfitt með að trúa að í heimalandi okkar væri kvonfang ókeypis... ef menn telja það ekki eftir sér að verða ástfangnir :)

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að skera mig úr... svo manni leið á köflum frekar furðulega í Malaví þar sem hvítur maður getur engan veginn horfið í fjöldann. Við fundum strax fyrir því á flugvellinum í Amsterdam á leiðinni heim að maður slakaði öðruvísi á af því maður gat horfið í fjöldann (reyndar vorum við svo áberandi túristalegar innan um allt hitt hvíta fólkið í fínu fötunum sínum að við höfum sennilega skorið okkur ærlega út... en allavega ekki vegna húðlitarins lengur). Ég hef líka heyrt talað um að fólk sé beðið um leyfi til að fá að snerta þetta ljósa furðulega slétta hár. Börnin á einu munaðarleysingjahælinu sem við fórum á voru hins vegar bara stjörf. Þau voru á aldrinum 3-5 ára og vildu náttúrulega öll fá að vera í fanginu á manni og að laumast til að snerta hárið á manni var eitt af því fyrsta sem þau gerðu. Fyrst hélt ég að stelpurnar væru að reyna að ná hárteygjunni úr hárinu á mér (verð að minnast á Örvar, bekkjarbróður minn úr MA af þessu tilefni... þeir sem til þekkja vita hvað ég er að fara). En það var ekki málið heldur bara að fá að strjúka þetta sérstaka hár. Þau voru svo sæt. Sum barnanna verða reyndar alveg arvavitlaus og skíthrædd við mann af því maður er svona asnalega hvítur og furðulegur. Þau bara orguðu og reyndu allt til að komast í burtu, eins og hræddur köttur.


Hérna er eitt dæmi um slíkt. Greyið barnið var hreint ekki ánægt með nærveru okkar. Ætlaði að reyna að kæta hana með því að taka mynd og sýna henni. Það sló á táraflóðið rétt á meðan hún var að skoða myndina af fyllstu varfærni, en svo hófst það aftur og það margfalt... Það getur víst ekki öllum líkað við mann!



Flestir voru samt uppveðraðir af manni og þegar maður var búinn að smella af mynd og sýna þeim urðu lætin þvílík að maður átti nánast fótum sínum fjör að launa, þau ruddust hvort fram fyrir annað og ,,pósuðu", svo mjög að þau voru hreinlega komin inn í myndavélina og ekki lengur hægt að fókusera á þau.


Og svo er það dúkkusagan. Hún Laufey Ása 10 ára bróðurdóttir mín saumaði þessa svörtu tuskudúkku hér að ofan í saumum í skólanum og var mjög svo stolt af verki sínu, sem eins og sjá má er bara nokkuð vel gert miðað við aldur og fyrri störf. Henni var það mikið mál að ég tæki þessa dúkku með mér til Malaví og gæfi hana lítilli stúlku þar. Þetta fannst mér náttúrulega bara SVO yndislega falleg hugsun að ég taldi ekki eftir mér að gera þetta fyrir hana. Lofaði henni líka að ég kæmi heim með mynd af þeirri heppnu stúlku sem fengi þessa heimagerðu dúkku í hendurnar. Ég valdi þessar litlu systur sem eru dætur næturvarðarins við húsið okkar í Monkey Bay. Þær voru dauðhræddar við mig þegar ég nálgaðist þær, en sú eldri þáði samt dúkkuna úr hönd minni. Það sætasta við sögu dúkkunar er samt eftir að mínu mati því síðar um daginn þegar við stöllur fórum í göngutúr um þorpið rákumst við á stelpuna aftur og haldiði að hún hafi ekki haldið traustataki í dúkkuna sína. Ójúbb! Hérna Laufey mín, þetta er stelpan sem fékk dúkkuna þína. Skal gefa þér eintak af þessari mynd við tækifæri :)



Þessi mynd er svo tekin í fjallgöngunni okkar góðu í rúmlega 30 stiga hita, rakastigi dauðans og svitabaði óttans. Íris hélt meira að segja að hún myndi fá hjartaáfall í þessari þrekraun en við höfðum þetta af. Mikið asskolli var nú samt gott að fá aðeins að jafna sig á þessum steinum í miðri ánni :)

Malaví brunnur minn er engan veginn uppurinn svo þið megið eiga von á meiru á næstu dögum :)

þriðjudagur, mars 06, 2007

Pistill nr 2

Verð að minnast á eitt í sambandi við Malaví. Veit ekki hvort ég var nokkuð unglegri þar en hérna heima (vil sjálf trúa því að ég sé bara alltaf svona ungleg...) en í Malaví trúði fólk því frekar að ég væri 20 en 28 og ég var spurð um skilríki þegar ég ætlaði að kaupa bjór, en þar er áfengiskaupaaldurinn 21 árs. Ég er náttúrulega bara himinsæl með þetta, enda finnst mér ég ekki sjálf deginum eldri en 21 :D

Annað sem ég fékk hreinlega ekki nóg af var þessi ótrúlega græna náttúra, það var hreinlega allt grænt svo langt sem augað eygði, frá lægstu dalverpum upp á hæstu fjallstinda. Okkur var reyndar tjáð að landið væri ekki alltaf svona grænt en við værum bara svo heppnar að vera þarna á regntímanum. Veit ekki hvort ég myndi þekkja landið aftur ef maður færi út á þurrkatímanum þegar ALLT er brúnt.




Held ég verði líka enn og aftur að minnast á matinn í Malaví. Hef náttúrulega minnst á þennan bragðlausa maísmjölsgraut, nzima, sem þau borða í öll mál og hreinlega sakna hans þegar þau fá hann ekki. Okkur var m.a. tjáð að ef það er eitthvað sem Malavar sem fara til náms erlendis sakna þá er það seddutilfinningin sem nzima gefur þeim, þeim finnst þau alltaf vera svöng. Með þessu borða þau ýmist þennan heila, sólþurrkaða, steikta fisk sem hefur óneitanlega verið minnst á áður eða þá relish úr graskersblöðum sem bragðast eins vel og fiskurinn bragðast illa. Hefði vel getað hugsað mér að fá uppskriftina að því og nota það sem sósu með hrísgrjónum hérna heima.


Tvívegis snæddi ég líka grillmáltíð á strönd Lake Malawi sem í bæði skiptin samanstóð af grilluðum fiski, hrísgrjónum, heimagerðri tómatsósu og soðnum graskerslaufum. Þetta voru ágætis máltíðir en helst til steinefnabættur þar sem maður bruddi sandkorn í hverjum bita. Kröfurnar voru samt ekki miklar fyrir, svo þetta varð bara hin fínasta máltíð.




Franskar kartöflur eru líka mjög svo vinsælar þarna og er boðið upp á þær með ÖLLUM mat, allt frá kjúklingi upp í fínustu steikur. Í flestum tilvikum eru þetta þó ekki djúpsteiktar kartöflur eins og við eigum að venjast heldur kartöflur sem eru marineraðar í rétt volgri fitunni, sömu fitu og er notuð til að djúpsteikja kjúklinginn svo að maður fær jafnvel einstaka djúpsteikta fjöður með frönskunum í kaupbæti... jammý!!!




Annars borðuðum við mest vestrænan mat; ávesti (ahhh... yndislegu ávextirnir :Þ ), grænmeti, hrísgrjón, kartöflurétti og fengum einstaka sinnum kjúkling og tvívegis snæddum við nautasteik á 2 fínustu veitingahúsum landsins. Hvernig okkur tókst til að elda úr malavísku hráefni er svo okkar að vita... Kalt mat: Mjög vel. Eldurðum meira að segja pizzu einu sinni sem rann ljúft niður. Mestu vonbrigði fyrir bragðskynið okkar voru án efa súkkulaðikökurnar sem þeir gera og malavísk kexframleiðsla. Við brögðuðum nokkrum sinnum súkkulaðiköku og af fyllstu hógværð get ég fullyrt að bestu súkkulaðikökurnar sem við fengum voru þær sem við gerðum sjálfar. Við gerðum líka margar tilraunir tið að finna okkur gott kex. Við lögðum í útgjöld (því kex er munaðarvara í Malaví og verðlag mun hærra á því en flestu öðru) á rúmlega 10 mismunandi kextegundum og urðum fyrir hverjum vonbrigðunum á fætur öðrum. Við fundum á endanum kextegund sem við gátum lagt okkur til munns, og það með bestu lyst. Komumst reyndar að því síðar að það kex var framleitt í S-Afríku...

Hérna erum við einmitt á fínasta veitingastað sem ég hef nokkurn tímann snætt á... kannski sérkennilegt að hann skuli vera staðsettur í Malaví en þar er hann nú samt. Staðurinn heitir 21 grill og er staðsettur við Ryalls hotel í Blantyre. Þarna gæddi ég mér á þessi líka fínu nautasteik með ljúfengri sósu, bakaðri kartöflu og gufusoðnu grænmeti. Sötraði vín með og reyndist kostnaðurinn við máltíðina nema ca 800 íslenskum krónum. Þetta fannst okkur nú svo hræódýrt að við hefðum snætt þarna aftur ef við hefðum haft tíma :)



En ég ætla að láta þetta nægja í bili. Er strax byrjuð á pistli 3 svo hann ætti að birtast á næstu dögum.

mánudagur, mars 05, 2007

Staðið við loforð gærdagsins... fyrsti kafli

Vá hvað það er gott að sofa í sínu eigin rúmi, með sín hreinu rúmföt og yndislegu dúnsængina mína. Hefði ekki trúað hvað ég gæti saknað þess. Að fara í heita kraftmikla sturtu og bara standa undir bununni er líka eitthvað sem ég hef saknað. Að arka um íbúðina mína (allan 30 fermetra grunnflötinn) og bara vera til var líka þess virði að koma heim fyrir, svo ég tali nú ekki um að komast heim í sveit næstu helgi. Þrátt fyrir þetta allt og meira til myndi ég ekki hugsa mig tvisvar um ef mér yrði boðið að fara aftur til Malaví.

En jeminn! Af hverju var ég að lofa upp í ermina á mér í gær að ég myndi gera Malaví betri skil á næstu dögum hérna á síðunni minni? Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja...

Ætli ég byrji ekki bara á fólkinu. Íbúar Malaví eru í grunninn aðallega af 3 mismunandi þjóðflokkum: Chewa, Yao og Ngoni. Hver þessara þjóðflokka hefur sína gömlu menningu og tala sitt tungumál þó Chechewa sé í dag aðaltungumálið í Malaví, talað af um 50% þjóðarinnar. Fyrir mér líta þessir þjóðflokkar alveg eins út og ég get engan veginn séð nokkurn mun, þetta eru allt mjög svart fólk, með breið nef og frekar breiðleitir í andliti og ekki ýkja hávaxið fólk. Ekki kannski hægt að segja að Malavar séu beint smáfríðir en þau hafa sinn sjarma engu að síður. Fólkið er almennt mjög vingjarnlegt, meira að segja stundum einum of, svo okkur Vesturlandabúunum ofbýður, en við erum líka voðalega upptekin af einhverju sem mætti kallast ,,personal space”. Ef það er eitthvað sem ég get sagt ykkur um Malaví er að þar er ekki til neitt ,,personal space”, og fólkið hefur heldur ekki nokkurn minnsta áhuga á því. Hvernig væri það líka hægt í landi sem er álíka stórt og Ísland með íbúafjölda í kring um 13 milljónir? Hvert sem maður lítur er fólk og ekki líða 3 sekúndur svo að þú sjáir ekki manneskju, eða merki um nærveru þeirra, jafnvel á þrengstu og bröttustu fjallavegum. Það er hreinlega fólk út um allt og þau taka manni ótrúlega vel. Aldrei fann maður fyrir því að maður væri óvelkominn og ég held ég geti sagt með hreinri samvisku að ég hafi aldrei orðið smeik við heimamenn þó þeir hafi orðið helst til ágengir í áhuga sínum á að selja manni varning sinn.

Börnin eru ótrúlega falleg, með stór augu sem stækka enn meira við að sjá ,,mazungu” (hvíta manninn) og þau eru brosandi allan daginn, þrátt fyrir rifin föt, berar iljar og á köflum tóma maga. Þau meira að segja brosa sínu breiðasta þegar þau rétta fram lófana og segja: ,,Give me my money...” án þess að hafa kastað á þig nokkurri annarri kveðju áður og sennilega án þess að vita í alvörunni hvað þau eru að segja. Við spurðum einn kunningja okkar út í þetta og hvað þau séu gömul þegar þau læra að nota þennan frasa í hvert skipti sem þau sjá ,, mazungu”. Hann sagði að margir landar sínir hefðu gaman af að kenna börnunum þennan frasa og að margir ,,wazungu” (ft.) hafi álíka gaman af og rétti þeim kwacha fyrir. Fyrir mér var þetta frekar sorglegt en nokkurn tíman fyndið. Við vorum líka fræddar um það að börnin eru send í betl af fjölskyldunni því Malavar, eins og aðrar þjóðir, hafa áttað sig á því að ríka fólkið er veikt fyrir stórum betlandi barnsaugum. Ég fékk alveg sting í hjartað í hvert skipti sem ég neitaði betlurum, en ég hef tekið afstöðu gegn betli. Kallið mig harðbrjósta en ég bara get ekki séð að það hjálpi neinum til lengdar. Frekar vil ég styrkja fátæka með því að kaupa framleiðslu þeirra, sem ég gerði óspart og kom með heil 36 kíló af farangri heim, þó ég hafi skilið mest af þeim 18 kílóum sem ég fór með út eftir í góðum höndum Malava.

Einn Malavinn sem við ræddum við sagði að það væri í raun bara tvennt sem Malavar væru góðir í og það væri annars vegar að búa til börn og hins vegar að betla. Ég get ekki verið annað en sammála honum með að þeir eru duglegir við að búa til börn. Ræddi m.a. við eina HIV-smitaða konu sem var fædd 1964 og átti 9 börn og 3 barnabörn. Hún sagðist reyndar hafa verið ófrísk 15 x, sem þýðir að hún hefur misst 6 börn. Þetta finnst mér hreint ótrúlegt en er engan veginn hægt að segja að sé óalgengt. Malavar eru líka duglegir við að betla og geta endalaust beðið um meira. 70% af tekjum ríkissjóðs er erlendur fjárhagsstuðningur og í þann stutta tíma sem við vorum í þessu fátæka ríki vildu allir vera vinir okkar... af þeirri einu og einföldu ástæðu að við erum hvítar. ,,Þegar við sjáum hvíta manneskju sjáum við peninga...” svo ég vitni beint í Ísak vin okkar, sem reyndist mikill betlari við nánari kynni. Mér finnst sjálfsagt sem þegn í einu ríkasta landi heims að gefa ríkulega af auð okkar til eins fátækasta lands heims. Það var samt vægast sagt áberandi að þeir búast við miklu meira og við vorum vinsamlegast beðnar um að koma því til skila til íslenskra stjórnvalda að þeir myndu gjarnan þyggja frekari stuðning. Eins og við hefðum númerið hjá forsætisráðherranum í minninu í gemsanum okkar. Við urðum alveg orðlausar og mjög svo vandræðalegar, en sögðum að við myndum gera okkar til að koma þessu til skila. Nú veit ég ekki hvort nokkur pólitískt þenkjandi manneskja les þessa aumu síðu mína, en ef svo er þá vil ég trúa því að ég hafi staðið við mitt. Við komumst reyndar að því að Malavar eru góðir í einu enn, og það er sennilega sérgrein þeirra. Þeir geta stappað í mini-busa betur en nokkur annar það er ég fullviss um. Að takast að troða rúmlega 20 fullorðnum, börnum á hvert laust hné, þurrkuðum fiski undir hvern bekk og kjúklingum í hvert laust pláss í bíl sem venjulega rúmar 12 manns í sæti með góðu móti hlýtur að nálgast heimsmet og jafnvel ólympíumet.

En nóg komið í bili. Ég skelli hérna með nokkrum myndum en er að vinna í að stofna mína eigin myndasíðu þar sem ég ætla að setja inn mun fleiri myndir og jafnvel setja inn link hérna til hliðar með aðstoð einhvers góðs bloggsíðugúrús. Einhver sem býður sig fram í hlutverkið??? Anyone?

Þessa gutta hittum við fyrir einn daginn á leiðinni heim af sjúkrahúsinu í Blantyre. Þeir voru mjög hrifnir af því að sjá myndir af sjálfum sér á digital myndavélunum okkar og voru ótrúlega góðar fyrirsætur ;)

Þessa krakka hittum við fyrir utan gististaðinn okkar í Blantyre. Gætum kallað þessa mynd: ,,The (new) kids from the block..."



Þessi litla stelpa var að ganga með tómhentri móður sinni og rogaðist mjög svo stolt með fulla fötu af vatni á höfðinu upp snarbratta brekku. Fatan vegur sjálfsagt eitthvað meira en stúlkan sjálf, ekki óalgeng sjón.


Þetta er svo hinn alræmdi nzima-réttur með þurrkaða steikta fiskinum og eggjakökunni. Ég verð bara að segja að þetta lítur ekki eins ólystuglega út og þetta var í alvörunni. Þessi mynd sýnir ekki nema lítið brot af sannleikanum. Jakk, ég fæ alveg æluna upp í háls við að minnast þessa hræðilega atburðar.


Góða nótt!

sunnudagur, mars 04, 2007

Heimkoma!

Jæja, þá er ég komin heim og ætla bara að láta óþolinmóða lesendur mína vita að það styttist í að ég taki á mig rögg og geri þessari ferð minni til Malaví betri skil en ég hef gert hingað til í máli og myndum. Megið búa ykkur undir nokkra pistla því það er töluvert sem ég hef um málið að segja.

En núna er það bara mitt yndislega rúm í skápnum sem bíður mín, ohhh... ég hlakka til. Þarf ekki mikið til að gleðja litla hjartað mitt :D