mánudagur, mars 05, 2007

Staðið við loforð gærdagsins... fyrsti kafli

Vá hvað það er gott að sofa í sínu eigin rúmi, með sín hreinu rúmföt og yndislegu dúnsængina mína. Hefði ekki trúað hvað ég gæti saknað þess. Að fara í heita kraftmikla sturtu og bara standa undir bununni er líka eitthvað sem ég hef saknað. Að arka um íbúðina mína (allan 30 fermetra grunnflötinn) og bara vera til var líka þess virði að koma heim fyrir, svo ég tali nú ekki um að komast heim í sveit næstu helgi. Þrátt fyrir þetta allt og meira til myndi ég ekki hugsa mig tvisvar um ef mér yrði boðið að fara aftur til Malaví.

En jeminn! Af hverju var ég að lofa upp í ermina á mér í gær að ég myndi gera Malaví betri skil á næstu dögum hérna á síðunni minni? Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja...

Ætli ég byrji ekki bara á fólkinu. Íbúar Malaví eru í grunninn aðallega af 3 mismunandi þjóðflokkum: Chewa, Yao og Ngoni. Hver þessara þjóðflokka hefur sína gömlu menningu og tala sitt tungumál þó Chechewa sé í dag aðaltungumálið í Malaví, talað af um 50% þjóðarinnar. Fyrir mér líta þessir þjóðflokkar alveg eins út og ég get engan veginn séð nokkurn mun, þetta eru allt mjög svart fólk, með breið nef og frekar breiðleitir í andliti og ekki ýkja hávaxið fólk. Ekki kannski hægt að segja að Malavar séu beint smáfríðir en þau hafa sinn sjarma engu að síður. Fólkið er almennt mjög vingjarnlegt, meira að segja stundum einum of, svo okkur Vesturlandabúunum ofbýður, en við erum líka voðalega upptekin af einhverju sem mætti kallast ,,personal space”. Ef það er eitthvað sem ég get sagt ykkur um Malaví er að þar er ekki til neitt ,,personal space”, og fólkið hefur heldur ekki nokkurn minnsta áhuga á því. Hvernig væri það líka hægt í landi sem er álíka stórt og Ísland með íbúafjölda í kring um 13 milljónir? Hvert sem maður lítur er fólk og ekki líða 3 sekúndur svo að þú sjáir ekki manneskju, eða merki um nærveru þeirra, jafnvel á þrengstu og bröttustu fjallavegum. Það er hreinlega fólk út um allt og þau taka manni ótrúlega vel. Aldrei fann maður fyrir því að maður væri óvelkominn og ég held ég geti sagt með hreinri samvisku að ég hafi aldrei orðið smeik við heimamenn þó þeir hafi orðið helst til ágengir í áhuga sínum á að selja manni varning sinn.

Börnin eru ótrúlega falleg, með stór augu sem stækka enn meira við að sjá ,,mazungu” (hvíta manninn) og þau eru brosandi allan daginn, þrátt fyrir rifin föt, berar iljar og á köflum tóma maga. Þau meira að segja brosa sínu breiðasta þegar þau rétta fram lófana og segja: ,,Give me my money...” án þess að hafa kastað á þig nokkurri annarri kveðju áður og sennilega án þess að vita í alvörunni hvað þau eru að segja. Við spurðum einn kunningja okkar út í þetta og hvað þau séu gömul þegar þau læra að nota þennan frasa í hvert skipti sem þau sjá ,, mazungu”. Hann sagði að margir landar sínir hefðu gaman af að kenna börnunum þennan frasa og að margir ,,wazungu” (ft.) hafi álíka gaman af og rétti þeim kwacha fyrir. Fyrir mér var þetta frekar sorglegt en nokkurn tíman fyndið. Við vorum líka fræddar um það að börnin eru send í betl af fjölskyldunni því Malavar, eins og aðrar þjóðir, hafa áttað sig á því að ríka fólkið er veikt fyrir stórum betlandi barnsaugum. Ég fékk alveg sting í hjartað í hvert skipti sem ég neitaði betlurum, en ég hef tekið afstöðu gegn betli. Kallið mig harðbrjósta en ég bara get ekki séð að það hjálpi neinum til lengdar. Frekar vil ég styrkja fátæka með því að kaupa framleiðslu þeirra, sem ég gerði óspart og kom með heil 36 kíló af farangri heim, þó ég hafi skilið mest af þeim 18 kílóum sem ég fór með út eftir í góðum höndum Malava.

Einn Malavinn sem við ræddum við sagði að það væri í raun bara tvennt sem Malavar væru góðir í og það væri annars vegar að búa til börn og hins vegar að betla. Ég get ekki verið annað en sammála honum með að þeir eru duglegir við að búa til börn. Ræddi m.a. við eina HIV-smitaða konu sem var fædd 1964 og átti 9 börn og 3 barnabörn. Hún sagðist reyndar hafa verið ófrísk 15 x, sem þýðir að hún hefur misst 6 börn. Þetta finnst mér hreint ótrúlegt en er engan veginn hægt að segja að sé óalgengt. Malavar eru líka duglegir við að betla og geta endalaust beðið um meira. 70% af tekjum ríkissjóðs er erlendur fjárhagsstuðningur og í þann stutta tíma sem við vorum í þessu fátæka ríki vildu allir vera vinir okkar... af þeirri einu og einföldu ástæðu að við erum hvítar. ,,Þegar við sjáum hvíta manneskju sjáum við peninga...” svo ég vitni beint í Ísak vin okkar, sem reyndist mikill betlari við nánari kynni. Mér finnst sjálfsagt sem þegn í einu ríkasta landi heims að gefa ríkulega af auð okkar til eins fátækasta lands heims. Það var samt vægast sagt áberandi að þeir búast við miklu meira og við vorum vinsamlegast beðnar um að koma því til skila til íslenskra stjórnvalda að þeir myndu gjarnan þyggja frekari stuðning. Eins og við hefðum númerið hjá forsætisráðherranum í minninu í gemsanum okkar. Við urðum alveg orðlausar og mjög svo vandræðalegar, en sögðum að við myndum gera okkar til að koma þessu til skila. Nú veit ég ekki hvort nokkur pólitískt þenkjandi manneskja les þessa aumu síðu mína, en ef svo er þá vil ég trúa því að ég hafi staðið við mitt. Við komumst reyndar að því að Malavar eru góðir í einu enn, og það er sennilega sérgrein þeirra. Þeir geta stappað í mini-busa betur en nokkur annar það er ég fullviss um. Að takast að troða rúmlega 20 fullorðnum, börnum á hvert laust hné, þurrkuðum fiski undir hvern bekk og kjúklingum í hvert laust pláss í bíl sem venjulega rúmar 12 manns í sæti með góðu móti hlýtur að nálgast heimsmet og jafnvel ólympíumet.

En nóg komið í bili. Ég skelli hérna með nokkrum myndum en er að vinna í að stofna mína eigin myndasíðu þar sem ég ætla að setja inn mun fleiri myndir og jafnvel setja inn link hérna til hliðar með aðstoð einhvers góðs bloggsíðugúrús. Einhver sem býður sig fram í hlutverkið??? Anyone?

Þessa gutta hittum við fyrir einn daginn á leiðinni heim af sjúkrahúsinu í Blantyre. Þeir voru mjög hrifnir af því að sjá myndir af sjálfum sér á digital myndavélunum okkar og voru ótrúlega góðar fyrirsætur ;)

Þessa krakka hittum við fyrir utan gististaðinn okkar í Blantyre. Gætum kallað þessa mynd: ,,The (new) kids from the block..."



Þessi litla stelpa var að ganga með tómhentri móður sinni og rogaðist mjög svo stolt með fulla fötu af vatni á höfðinu upp snarbratta brekku. Fatan vegur sjálfsagt eitthvað meira en stúlkan sjálf, ekki óalgeng sjón.


Þetta er svo hinn alræmdi nzima-réttur með þurrkaða steikta fiskinum og eggjakökunni. Ég verð bara að segja að þetta lítur ekki eins ólystuglega út og þetta var í alvörunni. Þessi mynd sýnir ekki nema lítið brot af sannleikanum. Jakk, ég fæ alveg æluna upp í háls við að minnast þessa hræðilega atburðar.


Góða nótt!

7 Comments:

At 2:34 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Jah'a svona svoltid misgaman ad thessu. Hlakka mikid til ad lesa naesta pistil min kaera.

 
At 7:06 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Fólk út um allt? Ætli Malaví sé þá ekki fyrir Bergþóru? Ég hef komist að því (og hún viðurkennir sjálf) að hún sé mannafæla. Ég verð að viðurkenna að ég smitaðist af þessari mannafælni þegar við vorum á road trippinu okkar saman. Örkuðum allar göngur á milljón til að vera einar í landslaginu :) En það var algjörlega þess virði!

Hlakka til að sjá fleiri myndir á myndasíðunni þinni!

 
At 8:31 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Til lukku með þetta - komin heim eftir vel heppnaða afríkuferð; gott mál.

Varðandi bloggsíðuhugmyndir:
1) Setja linka á aðrar síður, ég býð mig fram í að aðstoða við það. Ég legg til að þú byrjir á því að "uppfæra" bloggið þitt, þ.e. eftir að þú loggar þig inn á www.blogger.com þá ættir þú að finna einhvern glugga sem spyr hvort þú viljir uppfæra bloggið þitt. Það tel ég fyrsta skrefið (ef þú ert ekki búin að því nú þegar) - því ég tel hlekkina vera meðfærilegri í nýja viðmótinu.

2) Myndasíða. Þar sem ég hef ekki sett upp myndasíðu þá er ég ekki með neitt eitt rétt svar um hvað sé rétt að gera, en hér eru þó nokkur atriði.
1) Persónulega þá höfum við Elva ekki viljað setja upp sérstakar myndasíður, okkur finnst hæfilegt að deila nokkrum völdum myndum með öðrum og þetta blogspot dót virðist duga vel til þess.
2) Hafir þú hinsvegar áhuga á að setja upp myndasíðu þá ráðlegg ég þér að prófa fyrst sem allra flesta möguleika til að finna út hver hentar þér best. Því þegar þú byrjar á þessu í alvöru, þá verður þú "hálfföst" við þá vefsíðu...

3a) Að sjálfsögðu ættir þú að spá í hver tilgangur síðunnar væri, þ.e. væri hann sá að geyma bara allar þínar myndir frá a-ö (einskonar öryggisafrit), eða bara valdar myndir t.d. frá ferðum ?!

3b) einnig, ætti þessi síða þá að vera vörð með lykilorði ?

3c) Stærsta spurningin er svo: ertu til í að borga fyrir svona myndasíðu, og þá hvað mikið ?!

Ég býst við að þú hafir ekki gert það upp við þig enn hvort þú sért til í að borga fyrir svona síðu, en til þess að byrja einhversstaðar þá vil ég benda þér á:
msn / myspace: Þar er hægt að hafa blogg og myndir (þú getur farið inn á þetta í gegn um msn-ið þitt).
Þetta er frítt, en leiðinlegt viðmót finnst mér. - Ath. þetta er í eign Microsoft, sumum myndi finnast það neikvætt.

(5 mín síðar frh...)
Hinn alvöru aðilinn, google býður líka upp á að vista myndir á vefnum, þú gætir t.d. skoðað farið á:
http://www.google.co.nz/intl/en/options/

Hér er reyndar beinni slóð inn á það sem þú hefðir áhuga á - Picasa:
http://picasa.google.com/intl/en-GB/web/learn_more_picasa.html

þar bjóða þeir upp á 250 MB af myndum frítt (það er ekki neitt, þú þarft eitthvað nær 100000 MB ef þetta á að geta tekið við einhverju af myndum).


Xtra: svo er síminn að auglýsa eitthvað sem þeir kalla safnið á siminn.is
þú gætir svosem kíkt á það

nú eru desperate housewifes að byrja þannig að ég er yfir og út.

 
At 3:34 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Og verðlaunin fyrir lengsta komment á blogginu mínu fær... Hannes Kristjánsson :)

Takk fyrir þetta Hannes minn, er búin að stofna flickr síðu og ætla að setja bara valdar myndir þar inn - og það er ókeypis. Nú á ég bara eftir að setja myndirnar inn og setja inn link, þetta verður vonandi komið áður en ég verð 22 :)

Sólveig

 
At 5:15 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vildi bara segja þér að ég fékk fiðring í magann við að lesa fyrstu færsluna þína um "endurminningar frá Malawí". Hlakka rosalega til að fá að sjá fleiri myndir.
Kv
Erna

 
At 8:39 e.h., Blogger Hannes said...

Já OK http://www.flickr.com/
það er Yahoo dæmi...

flott er; nú bíð ég bara eftir myndunum ;o)

 
At 10:49 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er viðbjóðslega útlítandi matur. Verð að fara bjóða þér í nettann dinner eitthvert kvöldið og minna þig á hvað íslenskur matur er outstanding!

Annars bara innilega velkomin heim aftur Dr. Sólveig Pé.

Jón Gunnar

 

Skrifa ummæli

<< Home