fimmtudagur, júní 28, 2007

Útskriftarveislan...

Jæja! Þá er það loksins ákveðið. Ég og Anna frænka mín ætlum að halda sameiginlegt útskriftargrill í sveitinni þann 21. júlí næstkomandi. Þar verða nú líklega nokkur lambalærin grilluð og jafnvel læðist ein og ein pylsa með. Veit ekki alveg hvernig verður með veigarnar en það er allt í vinnslu.

Þið eruð auðvitað öll meira en velkomin en væri gott að fá smá sms ef þið hyggist taka þessu gylliboði.

Vonandi sé ég ykkur sem flest :)

laugardagur, júní 23, 2007

Íslenskir snillingar!

Íslendingar eru og verða snillingar. Þegar ég var spurð að því í Malaví hvernig Íslendingar væru sagði ég hreint út að við værum geðveik, og meinti það alveg hreint. Upp til hópa högum við okkur eins og fólk í maníu, keppumst við náungann út í eitt um stærri bíl, flottara hús, nýrri eldhúsinnréttingu og bara nefniði það, við gætum búið til samfélagskeppni úr því.

Met dagsins á samt ónafngreindur maður (sem er samt nafngreindur í skoti Fréttablaðsins í dag) sem var tekinn fyrir smygl í Brasilíu... manngreyið hélt að hann væri að smygla kókaíni en það reyndist vera barnapúður. Pæliði í því að vera svo dæmdur til að sinna samfélagsþjónustu fyrir að smygla barnapúðri inn til Brasilíu... HAHAHA! Þetta finnst mér fyndið.

Flýgur fiskisaga!

Svei mér þá. Haldiði ekki að steggirnir hafi beðið mín í morgun þegar ég kom út... og það 6 í þetta skiptið í stað þriggja hingað til? Greinilega gott orð sem fer af manni hérna í bænum ;)

þriðjudagur, júní 19, 2007

Gullkorn dagsins

Er komin með nýja flugu sem ég ætla að reyna að halda við í sumar... ,,Gullkorn dagsins" og það er hinn færeyski Teitur sem ríður á vaðið og á án efa eftir að eiga nokkur gullkorn í viðbót því textarnir eru nú hreint ekki af verri endanum þar á bæ.

"Certain things are best kept for night time
Like making tea and making babies..."


Og þar hafið þið það mín kæru :)

fimmtudagur, júní 07, 2007

Ófriður!

Hvaða heilvita manni dettur í hug að byrja að munda graddann sinn í íbúðarhverfi kl 7 að morgni??? Það er allavega ekki eitthvað sem ég myndi samþykkja sem nágranni og var því lítt hrifin í morgun. Sendi illar hugsanir þessum einstaklingi en það bar engan árangur, hann hélt bara áfram svo ég hoppaði í sturtuna, nánast of snemma :(

miðvikudagur, júní 06, 2007

Sumarblíða :)

Ég er alveg að semja langan pistil um Tæland sko... en hann er bara í tölvunni minni en núna er ég í vinnunni og bara VARÐ að skella inn nokkrum línum af því það er orðið svo óskaplega langt síðan ég skrifaði eitthvað hérna síðast.

Ég er sem sagt formlega búin að ljúka námi við Háskóla Íslands, útskrift eftir nokkra daga bara. Furðulegt alveg hreint. Ég er náttúrulega strax byrjuð að skoða námsskrár háskólanna í dag og hvað þeir bjóða upp á í fjarnámi... hversu sorglegt sem það er. Ég er allavega búin að ákveða að taka spænsku í fjarnámi frá VMA næsta vetur (þið minnið mig á það kannski síðsumars...)

Ég er mætt með síðustu vorfuglunum hingað á Húsavíkina og er tekin til starfa. Ég fæ náðasamlegast að búa í lítilli kjallaraíbúð með útsýni yfir Kjötiðjuna og aðeins smá út á sjó. Get samt ekki kvartað, allt betra en litla stúdentagarðaholan mín fyrrverandi. Orðið af nýrri kerlu í bænum hefur greinilega breiðst út því að þegar ég var að bera dótið mitt inn á mánudaginn þá kom steggur aðvífandi og sýndi mér mikla lotningu. Í gær voru þeir svo orðnir 3 steggirnir sem biðu mín í garðinum þegar ég kom heim. Þetta voru reyndar Grænhöfðasteggir en ekki mannlegs eðlis en þessir mannlegu hljóta að fylgja á eftir, ekki geta þeir verið eftirbátar fiðurfésins... eða hvað? ;)

Ég er full bjartsýni með gott sumar.