miðvikudagur, janúar 28, 2009

Hárgreiðslustofan SP

Rakaði hárið af stóra bróður í gærkveldi. Það var farið að detta af í flyksum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði alveg ENGAR áhyggjur af því hver útkoman yrði og ekki hann heldur. ,,Blessuð Solla mín vertu ekki að vanda þig svona við þetta, þetta dettur hvort eð er allt saman af í næstu sturtu."

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Hugrenningar í morgunsárið

Ég sit í rólegum hristingi í flugvél á leið norður í land. Ég er þreytt og mér er hálfóglatt. Ég hef lítinn áhuga á að horfa á fólkið í kring um mig og loka því bara augunum. Verður hugsað til þess hvað það væri nú gott að hafa skíðaúlpuna með loðhettunni til að kúra sig í eins... eins og þegar ég fór suður! DJÖ...!!! Fatta að úlpan er ekkert með í för heldur hangir hún í fataskáp í Hamravíkinni. Jæja, hef hvort eð er ekki tíma til að fara á skíði í vikunni.

Flugstjórinn rýfur þögnina: Góðir farþegar! Ég vil vekja athygli á að við nálgumst nú Eyjafjörðinn og munum fljúga inn í sterka austanátt þannig að það er viðbúið að það verði ókyrrð. Þetta er þó ekkert til að hafa áhyggjur af... Bla, bla, bla. Ég finn hvernig ógleðin eykst við tilhugsunina um ókyrrð. Og svo byrjar þetta, maginn æðir ýmist upp í brjósthol eða niður í grindarhol og ég verð að fara í hugleiðslu til að reyna að halda aftur af ógleðinni. ÉG SKAL SKO EKKI GUBBA!

Ég tóri í baráttunni við ógleðina og verð þeirri stundu fegnust þegar flugvélin lendir. Hjúkk!

Ég geng frá borði út í svalt morgunloftið og hugsa með ánægju til þess sem bíður mín, heilir 12 tímar á slysó. Ég veit ekki af hverju en mér verður hugsað til orða flugmannsins í fluginu suður sem var heldur meira ,,bumpy" en norðurleiðin.

,,Góðir farþegar! Þetta er flugstjórinn sem talar. Við erum að reyna að forðast sterka sunnanátt sem veldur þessari ókyrrð sem við erum að fara í gegnum núna. Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af, við biðjum ykkur að hafa sætisólarnar spenntar og halda kyrru fyrir í sætunum. Þetta er ekkert hættulegt og við vonumst til að sjá ykkur sem fyrst aftur..." Ég gat ekki annað en sprungið úr hlátri í fluginu. Áttaði mig reyndar á því að ég var sú eina sem fannst þetta hið minnsta kómískt, hinir voru efalaust uppteknir af að melta þau skilaboð flugstjórans að þetta væri ekkert hættulegt.

Ég vonast svo sannarlega til að sjá ykkur öll sem fyrst aftur :)

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Á skíðum skemmti ég mér tralalala...

Fór í fjallið í dag, í hundslappadrífu og hitastigi rétt um frostmark. Skellti mér auðvitað á nýju græjurnar og gekk bara vel. Færið var reyndar svolítið þungt þar sem það kyngir niður snjó svo maður varð rennandi blautur og það klístruðust saman á manni augnlokin á leiðinni niður. 

Rosalega gaman samt :)

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Ísrael vs. Palestína...

Hafa ekki allir skoðun á þessum deilum? Ég vona það í það minnsta, en kannski eru þær misvel upplýstar. Ég hef það í það minnsta og fæ gæsahúð og fyllist viðbjóði þegar ég sé myndir á síðu 2 í Fréttablaðinu af 2 Palestínskum börnum sem féllu í bardaga. Það er bara eitthvað RANGT við þetta.

Kill Bill

Ég var alveg búin að gleyma hvað Kill Bill 2 er ofur-kúl mynd.

föstudagur, janúar 09, 2009

Kvikmyndakossar!

Það er EKKERT tilgerðarlegra í þessum heimi en tilgerðarlegir kossar í bíómyndum. Mér verður hreinlega óglatt að horfa á mjög kynþokkafullar kvikmyndapersónur kyssast af einskærri tilgerð. Jakk!

Vá!

Humm... hafði ekki gert mér grein fyrir að ég hef ekki bloggað hérna síðan í lok september. Hef greinilega ekki haft mikla þörf fyrir að tjá mig. Það hefur samt ótrúlega margt borið á góma í lífi mínu síðustu mánuði og ég bara ætla ekki að eyða löngum tíma í eitthvert review bull að þessu sinni.

Nýtt ár, með nýjum markmiðum og fyrirheitum. Það eru ekki liðnir neitt rosalega margir dagar af árinu, ekki nema rétt rúm vika en samt hefur ótrúlega margt komið á daginn, sumt mjög miður.

Nýju ári fylgja ný áramótaheit og ég hef sett mér nokkur. M.a. að skrifa dagbók. Jebb! En ekki hérna á þessu bloggsvæði heldur í dagbók, gamaldags, innbundna dagbók, með penna og alles. Áramótaheitin eru skrifuð með skýrum stöfum fremst í bókina og ég hef bara staðið mig nokkuð vel... í alla þessa daga sem liðnir eru af árinu. En mig langar líka að vera duglegri að blogga, setti það ekki inn sem áramótaheit sem betur fer, því ég ætla að reyna að standa við áramótaheitin mín að þessu sinni. Og Hananú!