miðvikudagur, janúar 21, 2009

Hugrenningar í morgunsárið

Ég sit í rólegum hristingi í flugvél á leið norður í land. Ég er þreytt og mér er hálfóglatt. Ég hef lítinn áhuga á að horfa á fólkið í kring um mig og loka því bara augunum. Verður hugsað til þess hvað það væri nú gott að hafa skíðaúlpuna með loðhettunni til að kúra sig í eins... eins og þegar ég fór suður! DJÖ...!!! Fatta að úlpan er ekkert með í för heldur hangir hún í fataskáp í Hamravíkinni. Jæja, hef hvort eð er ekki tíma til að fara á skíði í vikunni.

Flugstjórinn rýfur þögnina: Góðir farþegar! Ég vil vekja athygli á að við nálgumst nú Eyjafjörðinn og munum fljúga inn í sterka austanátt þannig að það er viðbúið að það verði ókyrrð. Þetta er þó ekkert til að hafa áhyggjur af... Bla, bla, bla. Ég finn hvernig ógleðin eykst við tilhugsunina um ókyrrð. Og svo byrjar þetta, maginn æðir ýmist upp í brjósthol eða niður í grindarhol og ég verð að fara í hugleiðslu til að reyna að halda aftur af ógleðinni. ÉG SKAL SKO EKKI GUBBA!

Ég tóri í baráttunni við ógleðina og verð þeirri stundu fegnust þegar flugvélin lendir. Hjúkk!

Ég geng frá borði út í svalt morgunloftið og hugsa með ánægju til þess sem bíður mín, heilir 12 tímar á slysó. Ég veit ekki af hverju en mér verður hugsað til orða flugmannsins í fluginu suður sem var heldur meira ,,bumpy" en norðurleiðin.

,,Góðir farþegar! Þetta er flugstjórinn sem talar. Við erum að reyna að forðast sterka sunnanátt sem veldur þessari ókyrrð sem við erum að fara í gegnum núna. Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af, við biðjum ykkur að hafa sætisólarnar spenntar og halda kyrru fyrir í sætunum. Þetta er ekkert hættulegt og við vonumst til að sjá ykkur sem fyrst aftur..." Ég gat ekki annað en sprungið úr hlátri í fluginu. Áttaði mig reyndar á því að ég var sú eina sem fannst þetta hið minnsta kómískt, hinir voru efalaust uppteknir af að melta þau skilaboð flugstjórans að þetta væri ekkert hættulegt.

Ég vonast svo sannarlega til að sjá ykkur öll sem fyrst aftur :)

2 Comments:

At 10:50 e.h., Blogger Eva said...

greyið flugstjórinn.... hefur verið aðeins ruglaður eftir ókyrrðina. Annars frábært að hitta aðeins á þig hérna fyrir sunnan..... ég held síðan bara áfram að telja niður að afmælisdeginum þínum :)

 
At 2:44 e.h., Blogger Sólveig said...

hehe... já, eins og allir hinir ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home