miðvikudagur, desember 12, 2007

Góður læknir?

Það er ótrúlega margt sem maður er tilbúinn að leggja á sig til að verða góður læknir. Spurning er bara hvort rétt sé að fara eftir því síðasta sem ég heyrði...

,,Parents are better doctors..." ;)

sunnudagur, desember 02, 2007

Af borgarferð, snjó og aðventu...

Eftir næturvakt á fimmtudaginn hoppaði ég beint upp í flugvél og var stuttu síðar mætt í borgina. Þar beið mín náttúrulega bílaleigubíll. ,,Náttúrulega" segi ég og sumir gætu spurt sig hvers konar mismunur þetta sé. Í þetta skiptið bý ég bara svo vel að eiga systurson sem vinnur á bílaleigu og það kemur sér rosalega vel svona alveg hreint inn á milli.

Fyrsta stopp var IKEA, sem er að verða fastur liður í hverri borgarferð. Þar rölti ég um ásamt Elvu og fékk ágætar hugmyndir og gekk út með poka með jólaskrauti. Svo var það hádegisverðarstopp á Þjóðmynjasafninu með Elvu og Margréti. Ég fékk ágætis reality check þar sem Margrét er á haus í próflestri og ég fékk pínu ,,hjúkk-it" tilfinningu að vera laus við svona stresspakka. Er reyndar að fara í próf 5. des en er pollróleg yfir því, kannski of róleg.

Ég fékk að hitta góðvin minn og aðeins spjalla við hann og það var alveg hreint ótrúlega gott að sjá hann loksins aftur. Maður er alltaf að læra í lífinu og málið er að sumar lexíur eru mun betri en aðrar og að njóta lífsins er klárlega ein slík lexía.

Ég hafði hins vegar hugsað mér að koma norður á föstudeginum þar sem ég átti að fara á næturvakt... en veðurguðirnir tóku gjörsamlega fram fyrir hendurnar á mér svo föstudagurinn fór í að hanga, og bíða og loksins þegar komið var kvöld var ákveðið að fljúga ekki... þannig að ég græddi slúður/djamm/tjútt kvöld í bænum með bekknum, sem var alveg hreint ótrúlega gaman og endurnærandi. Að taka flug norður eftir 2,5 tíma svefn var hins vegar ekki alveg eins skemmtilegt en hafðist loksins, sem betur fer á þotu því það var alveg smá hristingur sem hefði verið mun verri í minni vél. Að heyra flugstjórann tilkynna: ,,Góðir farþegar, eins og þið hafið kannski tekið eftir höfum við hætt við aðflug til Akureyrar í annað sinn þar sem virðist vera bilun í aðflugsbúnaði" var hreint ekki eins traustvekjandi og það fór óneitanlega pínu hrollur um mig en þetta hafðist.

Að lenda hérna fyrir norðan í gommu af snjó og þurfa hreinlega að moka bílinn upp úr snjónum kom mér í jólagír 1, 2 og 3, sem ég komst hins vegar hreint ekki í í borginni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Það hefur verið ótrúlega fallegt veður í dag, og nótt, hvítt yfir öllu, snjókorn koma svífandi af himni og jólaljósunum fer fjölgandi. Umm... jólin eru rétt handan við hornið. Ég sé fyrir mér mjög svo kósí dag í dag, í mjúku fötunum mínum sem ég keypti fyrir sunnan og hreinlega bráðna við mann í kósýheitum, uppi í sófa með góða bók og jólaljós... vantar bara malt og appelsín, með piparkökum og... góðan bangsa ;) Býður sig einhver fram?