miðvikudagur, júlí 26, 2006

Things to do in Kópasker...

Desperate Housewives - sería 1... Búin
Prison Brake - sería 1... Búin
Sex and the City - sería 1... Búin
Sex and the City - sería 2... Búin
Sex and the City - sería 3... Búin
Sex and the City - sería 4... Búin
Sex and the City - sería 5... Búin
Sex and the City - sería 6... Búin

Segið svo að ég hafi ekki nóg fyrir stafni hérna á Skerinu ;)

Útlönd...

Hver kannast ekki við að hafa séð eina klassíska sænska barnamynd þar sem börnin eru í sumarbúðum? Þar eru viðarklædd, máluð hús, stöðuvatn, alltaf gott veður, hlæjandi börn út um allt og auðvitað skógur... Mér leið eins og ég hefði gengið inn í eina slíka mynd í gær. Fór heim að Sumarbúðunum við Ástjörn í fyrsta skipti og þar er allt ofantalið. Fékk skrýtna tilfinningu í magann við þetta, pínu fiðring. Fór sjálf aldrei í sumarbúðir á sínum tíma...

En talandi um útlönd... ,,Ut vil ek...", en það ætlar ekki alveg að hafast þetta árið, allavega ekki með skvísunum mínum. Ég VERÐ samt að komast eitthvað... þó ekki væri nema bara helgarferð ein með sjálfri mér. Kannski bara til Gautaborgar... því þar verð ég hreint ekki ein ;)

mánudagur, júlí 24, 2006

Síþreyta...

Geiiisp...!!!

Er ótrúlega þreytt í dag. Komst nefnilega í baggaheyskap hjá henni Úlfhildi, núverandi nágranna mínum í gær og þar var ærlega tekið á því. Þetta var nú samt mjög svo tæknilegur bakkaheyskapur... svona á minn mælikvarða allavega. Hver baggi var ekki handtíndur upp á vagn og raðað þar eftir kúnstarinnar reglum, né heldur handtýndur inn í hlöðu og raðað þar eftir kúnstarinnar reglum. Hér norður undir heimskautsbaug eiga menn nefnilega baggatínu og baggafæriband... tæknilegt :) Ekki laust við að ég sé örlítið aum í skrokknum í dag og það var alveg hreint ÓTRÚLEGA erfitt að vakna í morgun. Snúsaði til 8, vitandi vits að ég myndi þá verða heldur sein á Rieben... en það var nú svo sem í lagi.

Er líka alveg hreint eins og fagurrautt jólaepli í framan og eyrun svo rauð og skorpin að þau líkjast sólþurrkuðum tómötum... og þó það séu alveg hreint 5 mánuðir eftir enn í jól þá er smá miðjarðarhafs-jólastemming í gangi ;)

over and out...

föstudagur, júlí 21, 2006

Saurguð...!!!

Guð minn góður! Mér finnst eins og ég sé óhrein... enda er ég það í orðsins fyllstu merkingu. Í ljósi góðs árangurs míns í gærkveldi (skokktúrinn í skjóli hráslagalegs veðurs og án þess að nokkur þorpsbúi sæi mig... held ég) ákvað ég að endurtaka leikinn í kvöld og fara sama hring. Þetta var hins vegar hreint ekki eins ánægjuleg reynsla og í gærkveldi. Í kvöld er veðrið vissulega mun betra og rosalega falleg kvöldsól, en það hafði líka það í för með sér að það voru fleiri en ég sem hugðust njóta kvöldsólarinnar... svo skokktúrinn byrjaði undir ALLT of mörgum og ALLT of vökulum augum ,,local" þorpara. Og ef það var ekki nóg... þá voru kríurnar frekar illar í kvöld. Byrjaði með að tvær þeirra skelltu sér ofan í höfuðið á mér í orðsins fyllstu og bættu svo gráu ofan á svart með því að skíta á mig... og til að kóróna kvöldið, þá tóku nokkrar stöllur þeirra upp sama athæfi, svo ég átti bara fótum mínum fjör að launa :(

Nú sit ég sem sagt hér, með sár á sálinni og saurug upp fyrir haus... reyndar meira svona bara á haus... jakk.... VERÐ að fara í sturtu :/ NÚNA!!!

Lokuð...!!!

Dósin mín er lokuð! og verður lokuð um óákveðinn tíma með þessu áframhaldi. Um er að ræða Hunt's niðursoðna tómata, sem ég ætlaði að grípa til í gærkveldi og elda ítalska grænmetissúpu ala ,,ég sjálf"... eftir uppskrift sem ég bjó til með dyggri aðstoð bragðlauka minna eftir að hafa snætt þessa líka ljúffengu súpu í blóðbankanum (skemmtileg tilviljun að bjóða upp á rauða tómatsúpu, þegar er nýbúið að tappa af manni tæpum hálfum líter af rauðum vökva...). Þá kemur nefnilega á daginn að það er ekki til dósaopnari í íbúðinni. Ég skellti mér því í búðina, full bjartsýni um að sveitabúðir standi fyrir sínu, allt til alls í svoleiðis stórmörkuðum, kaupfélögin klikka ekki... en neibb!!! Þar er heldur ekki til dósaopnari, enda er þetta ekki lengur kaupfélagsverslun. En þar var til tappatogari og í ljósi gefinnar reynslu og tappatogaralauss heimilis ákvað ég að fjárfesta í einum slíkum.

Nú getur fólk því mætt í heimsókn, án þess að þurfa að hugsa fyrir því hvernig það hyggst opna rauðvínsflöskuna sína... en fólk er á sama tíma eindregið hvatt til þess að koma með dósaopnara með sér, sem ég hyggst leggja hald á... get reyndar líka borgað fyrir hann ef út í það er farið ;)

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Kópaskersflugvöllur...

Alltaf bæti ég á afrekaskrána... búin að fara á flugvöllinn hérna á Skerinu. Var úti að hlaupa (ótrúlega dugleg...) og vissi náttúrulega ekkert hvert ég átti helst að hlaupa, þannig að ég fylgdi bara einhverri slóð hérna við þorpið... og endaði úti á flugvelli. Hljóp hann breiðan og endilangann og mikil traffík á vellinum. Flugtök og lendingar hægri vinstri, stífar æfingabúðir í gangi þar sem allir virðast vera jafnir, kríur, spóar, lóur, sandlóur og fleiri og fleiri. Þjálfarinn virtist vera herforingi að hætti USA... gamall og grár spói sem sýndi ótrúlega takta. Magnað alveg hreint. Ég verð reyndar að viðurkenna að nærvera skerandi ,,kríííí, krííí..." fékk mig til að skella hettunni á höfuðið. Þakka guði fyrir MA-hettupeysuna mína :)

Annars lítið að frétta. Skelli rós í mitt eigið hnappagat fyrir þetta afrek mitt í kvöld, að fara út að hlaupa. Litla sveitastelpan ég sem er svo ÁBERANDI utanaðkomandi hérna í þorpinu var í fyrsta skipti að þora út að hlaupa hérna síðan ég kom... ekki nema bráðum 3 vikur. Algjör hetjudáð að mínu mati. Hef hingað til verið sippandi vitlaus uppi í stofunni minni eða hjólandi-spinnegal hérna niðri í aðstöðu sjúkraþjálfarans so far... en nú er ísinn brotinn, nú verður farið út í hvaða veðri sem er ;)

Verð að fara að teygja á. Síðar :)

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Toyota Camry '87

Hef selt mína ástkæru Daisy, öðru nafni Snæfríði Íslandssól og ekki laust við að hennar sé saknað og það bara frekar sárt. Eftir heimsókn á grandakaffið á netinu áðan datt mér í hug að athuga hvað væri viðmiðunarverð á bílnum mínum ástkæra...

Viðmiðunarverð: 0 kr.

Er ekki verið að spauga??? Og ég seldi drossínuna á 50 þús... eintómur gróði í gangi ;)

þriðjudagur, júlí 18, 2006

þetta er fallegur dagur :)

Ó já... hver hefði trúað að ég ætti eftir að vitna í kónginn sjálfan hérna á þessari bloggsíðu... en þessi dagur gefur bara ekkert annað en tilefni til þess. Veðrið var FRÁBÆRT, eins og alltaf hérna á Norðurlandinu... Búin að hlaupa upp á eitt stykki fjall, og komst heil niður, borðaði léttan kvöldmat og er núna í þessum skrifuðu orðum stödd fyrir framan tölvuna á heilsugæslustöðinni, íklædd víðum íþróttabuxum og skældum bol, með ,,detox" tebolla og símana mína tvo í eftirdragi... og þetta gefur tilefni til frekari vitnana... ,,What more can a girl ask fore...???"

Annars er lífið frekar rólegt og gott hérna, þó að tíð bloggskrif beri svo sem ekki vitni um það. ,,Glanspíu" hringar hrannast upp, trefillinn er orðinn rúmur meter á lengd og hekluðu dúllunum fjölgar svo þið sjáið að það er ekki slegið slöku við hérna í læknabústaðnum ;) Hver hefði trúað að það væri minna einmannalegt ein í stóru húsi á Kópaskeri yfir sumartímann en í íbúðinni minni á görðunum í borg óttans...??? En ég ætla reyndar ekki að hrósa happi of snemma... bíðum fram í ágúst og sjáum hvernig hljóðið í mér verður þá ;)

En nú er það einn sex & city þáttur fyrir svefninn.

Adios

mánudagur, júlí 10, 2006

Fullkomið brúðkaup

Var í FULLKOMNU brúðkaupi um helgina. Hún Margrét stórvinkona mín og náfrænka var að ganga í það heilaga með Markusi, stóru ástinni í lífi hennar. Margrét var svo stórglæsileg þennan dag, ekki það að það komi neitt á óvart, því það er hún svona dags daglega líka þessi elska :) og þó við sýndum nú nokkrar gamlar og kvikindislegar myndir af henni í veislunni, þá verður það ekki skafið af henni að hún var GULLFALLEG brúður. Til hamingju enn og aftur með þennan stóra dag og takk fyrir frábæra veislu. Er með strengi í dag, á mánudegi, eftir allt tjúttið og það segir nú sitt um partýstuðulinn :Þ

Takk fyrir mig :-*

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Sker kópanna :)

Jæja! Þá er ég mætt á skerið, búin að fara á Rieben og alles. Þetta verður vonandi bara ágæt reysla hérna... 7, 9, 13... bank bank bank :)

Var annars búin að sanka að mér alls konar myndum og seríum á DVD... ætlaði að nota dauðu stundirnar til að njóta svoleiðis tímaþjófs. Dauðu stundirnar hafa svo sem alveg komið, en sjónvarpið er ekki með scart tengi... né nokkur önnur tengi ef út í það er farið og tölvan mín er að fríka út svo það eina sem ég get gert með þessa DVD diska er að lesa utan á hulstrin :(

Auglýsi hér með eftir sjónvarpi að láni til skamms tíma... Skilyrði að það sé með scart tengi :) Bara að hafa samband.