laugardagur, júlí 28, 2007

Skóhillur

Nú er komið að því að hylla skóhillur... LOKSINS! Þið kannist vafalítið öll við það að ganga inn í lokað herbergi eða anddyri þar sem liggja mannhæðarháar skóhillur meðfram öllum veggjum, eða er það ekki annars? Það hef ég gert allavega og mér lærðist fljótt að halda niðri í mér andanum þegar maður gengur í gegnum slíkt rými. Rýmið sem um ræðir í þessu tilfelli er inngangur starfsmanna á sjúkrahúsinu hérna á stofnuninni og táfýlan er ólýsanleg og ógleymanleg. Ég brenndi mig á því í nokkur skipti og andaði þarna inni. Ímyndið ykkur fleiri tugi af mikið notuðum skóm, mislokuðum og í öllum regnbogans litum og þessa blöndu af fjölbreyttri táfýlu... JAKK! Ég fæ alveg morgunmatinn upp í háls.

Get ekki meir í bili.

föstudagur, júlí 27, 2007

Brotin loforð!

Jæja! Það er eins og mig minni að ég hafi verið búin að lofa Tælandspistli einhvern tímann. Ekki hef ég staðið við það enn og það verður heldur ekki alveg í bráð. Mig langar líka að setja inn smá pistil um Öskjuferðina og útskriftarveisluna en það verður að bíða aðeins líka þar sem ég ætla að setja inn nokkrar myndir þá líka og það er ekki alveg að gera sig í þessari tölvu (í vinnunni).

Annars er bara glimrandi að frétta af mér. Húsavíkurhátíð hérna í bænum um helgina og íbúafjöldinn margfaldast þar sem brottfluttir Húsvíkingar koma aftur í bæinn og haldin eru hin ýmsu ,,reunion". Það vill svo skemmtilega til að vaktsíminn verður bundinn um mittið á mér með ól þessa helgi svo ég vona bara að allt fari vel fram :)

Svo ætla ég bara að enda þessa stuttu en ákaflega þörfu bloggfærslu (svo þið hin vitið að ég er lífs en ekki liðin) á honum Teiti félaga mínum sem ég held alveg afar mikið upp á þessa dagana:

,,Called the police, put in a report
But no one has reported
Seeing my most wanted one."

Góða helgi hvað svo sem þið gerið til að hafa ofan af fyrir ykkur :)

miðvikudagur, júlí 18, 2007

1408

Fór í bæjarferð til Akureyrar í gærkveldi og skellti mér í bíó með LóuLóu. Fyrir valinu varð mynd sem heitir því skemmtilega nafni 1408 og með tríeykið Samuel L. Jackson, John Cusak og Stephen King lofaði þetta góðu. Ég varð hins vegar klárlega fyrir vonbrigðum. Hún lofaði góðu í byrjun og vissulega var þetta vel gerð mynd... en geðveikinni náði ég ekki alveg. Hef ekki lesið bókina hans SK um þetta svo ég veit svo sem ekki hversu extreme hún er en myndin fór allavega fyrir ofan garð og neðan, allavega að mínu mati.

Skilaboð dagsins: ,,Eyðið peningnum ykkar í eitthvað annað en þessa mynd."

mánudagur, júlí 09, 2007

80's hiti!

Hálfvitahelginni lokið og stóðst hún væntingar alveg hreint með ágætum. Í troðfullu húsi í Ýdölum tókst Ljótu Hálfvitunum að gera hálfvita úr okkur hinum svo hlátrasköllunum og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Mjög gaman, MJÖG GAMAN alveg hreint.

En að öðru. Ég keypti mér forláta disk um daginn sem ber titilinn ,,100 íslensk 80's lög" eða eitthvað álíka. Þetta ætti ekki að koma á óvart, allavega ekki þeim sem þekkja mig náið því það er ekki ósjaldan að perlur eins og Cure, Duran Duran, A-Ha og fleiri góðkunningjar fá að svífa á geislanum ef ég fæ að ráða. Þetta diskasafn er bara þrælskemmtilegt og hef ég haft mikið gaman af. Þarna renna áfram ótrúlega mishallærisleg lög, og flest þeirra eitthvað hallærisleg. Textasmíð eru eitthvað minna en í hávegum höfð, svo mjög að mér blöskrar á stundum. VERÐ hreinlega að láta eitt fylgja svona rétt í lokin:

,,I don't want to rock your mother,
I don't want to roll your brother,
I just want to hurry home and...
fock you..."

Og þar hafið þið það. Aldrei betra en að byrja nýja vinnuviku á svona góðmeti. Njótið :D

föstudagur, júlí 06, 2007

Sannkölluð hálfvitahelgi fram undan

Hálfvitar verða það annaðkvöld, og það meira að segja Ljótir Hálfvitar... Hver alla sem vettlingi geta valdið til að mæta í Ýdali og held ég lofi hreint ekki upp í ermina á mér með að þar verði gaman að vera.

Ég hlakka afar mikið til :)

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Að segja ,,nei"!

Í hvað er ég nú búin að koma mér? Úff... fæ hnút í magann við tilhugsunina eina og samt þarf ég ekki að standa við þetta loforð mitt fyrr en í lok sept. Er farin að sjá eftir að hafa ekki afþakkað pent.

Um hvað snýst svo þessi hnútur? Þann 29. sept, Ársþing Læknafélags Íslands... hef ég tekið að mér að flytja erindi... á ensku... og var svo utanvið mig í símtalinu að ég álpaðist til að segja ,,já" og svo fattaði ég ekki einu sinni að spurja út í það hvernig ég ætti að tækla verkefnið eða hvert nákvæmlega verkefnið væri ef út í það er farið. Þetta verður alltént fróðlegt ferli á næstu vikum.

Gúlp!!!