föstudagur, desember 29, 2006

Hó hó hó...

Vúps! Ég er svolítið sein með þessa færslu... EN...

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Ég hef haft í nógu að snúast undanfarið. Jólin náttúrulega áttu sinn sess og aðfangadagur rann upp og gekk til viðar í faðmi fjölskyldunnar. Tvö tæplega tveggja ára kríli að taka upp pakka í fyrsta skipti og það var nánast skemmtilegra að fylgjast með þeim en að opna sína eigin pakka (ath... ég sagði ,,nánast"). Svo varð ég reyndar að vakna leiðinlega snemma og bruna til Hvíkur og taka að mér læknavaktina þar. Úff... það var meira en nóg að gera, ekki um það að ræða að jólin væru róleg, hreint ekki. Var á vakt í 2 sólarhringa og missti pínu smá af jólunum hérna heima, ekkert hangikjöt á jóladag fyrir mig þetta árið :(.

Síðan er ég bara búin að taka lífinu svona frekar rólega. Fór reyndar í fjós fyrir systur mína og mág svo þau kæmust í jólaboð til Húsavíkur. Klóraði mig nú alveg fram úr þessu þrátt fyrir að maður ætti nú að vera orðinn örlítið stirður og nýtt system komið í mjólkurhúsið. En þetta gekk auðvitað allt vel. Fór í fyrrakvöld til að sjá hvernig þetta gengi fyrir sig og sem vanur háskólanemi tók ég glósur til að minna mig á í hvaða röð hlutirnir áttu að gerast og í hvaða röð átti að ýta á hvaða takka... segið svo að háskólanám borgi sig ekki ;)

En nú er það bara Malawi, úff... orðið ískyggilega stutt í þetta allt saman og ýmislegt sem ég á eftir að redda og kaupa og undirbúa mig svona sálarlega fyrir þetta allt saman. Spenningurinn vaxandi og smá kvíði að fara að gera vart við sig líka. Sjáum hvað setur.

Blogga allavega eitthvað áður en ég fer út. Síðar!

laugardagur, desember 23, 2006

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó... :)

Hvernig getur staðið á þessu? Ég var hérna heima fyrir 5 dögum síðan og þá var hér hellings snjór, hvítt svo langt sem augað eygði. Nú er ég komin aftur heim í sveitasæluna og hér er bara nánast autt... allur snjórinn farinn og bara eftir auð jörð. Hér er því allt útlit fyrir rauð jól, en grasið er allavega ekki grænna núna en í júní eins og þetta var hérna fyrir 5 árum.

Ég er búin að vera að snyrta höfuð fjölskyldunnar, 5 höfuð nýklippt og fín (og það er nú bara ekki miklar ýkjur, tókst vel til svona í tilefni jólanna). Svo fékk ég líka óvænta ánægju í þessu klippistofu-ferli... Hún Laufey litla frænka mín (sem er samt orðin 10 ára og hálffullorðin auðvitað) var hjá mér inni í herbergi og það vill svo skemmtilega til að á veggnum hangir mynd af mér 16 ára gamalli (vil ég af gefnu tilefni taka fram að þetta er inni í herbergi móður minnar en ekki mínu...). Hún horfir á myndina og segir: ,,Solla, þú ert svo sæt á þessari mynd, algjört krútt..." Ég horfi á myndina, fer auðvitað hjá mér og þakka fyrir mig. ,,Já, þú ert svo sæt að þú ættir að eiga kærasta... þú ert meira að segja svo sæt að þú ættir að geta verið gift núna..." Og ÞAR hafið þið það og ég líka. Í þokkabót er hún á því að ég sé ekki deginum eldri en 24 ára í mesta lagi... Ohhh... þessi elska. Alveg yndisleg.

mánudagur, desember 18, 2006

I'm in loooove :)

Ahhh...

Var í bíó áðan. Einmitt það sem ég þurfti eftir mjög svo strembna og annasama helgi á Hvík. Ég er búin að vera geyspandi í allan dag og undir kvöld var ég úrvinda af þreytu. Ef ég hefði ekki átt frímiða í bíó sem runnu út í kvöld, hefði ég háttað og farið að sofa þegar ég kom heim um rúmlega 5 í dag. En flugmiðarnir kölluðu og þar sem er orðið RÁNdýrt í bíó þessa dagana mátti maður ekki láta þá bara renna út í sandinn ónotaða, þannig að... ég bjallaði í Önnu pönnu og við skelltum okkur á ,,The Holiday". Þetta er ein fyndnasta og sætasta mynd sem ég hef séð alveg hreint fáránlega lengi. Að skella saman hinum drepfyndna apaketti Jack Black og sjarmörnum Jude Law með hvolpaaugun og þetta ótrúlega sexí glott er bara uppskrift sem gat ekki klikkað. Ég mæli 100% með henni og ekki væri hún verri ef maður hefði einhvern ,,special someone" til að njóta hennar með (ekki það að þú sért það ekki Anna mín, en æi... þið vitið hvað ég meina, er það ekki???). Allavega, þá er þetta mynd sem ég ætla að eiga. Við spauguðum með það hvort við ættum að rölta hringinn í Kringlunni og fara strax aftur... en öllu gamni fylgir einhver alvara og ég held að það hafi alveg átt við í þessu tilfelli.

Boðskapur dagsins...: Farið á ,,The Holliday" og njótið.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Bólusetningarferli 2...

Vá... komin vika frá síðasta bloggi... vúbs! ég er ekki að standa mig Elva mín :)

Ég er komin heim í sveitina mína, frí í skólanum það sem eftir lifir vikunnar og ég að vinna á Húsavík um helgina svo hingað er ég komin. Fékk nokkrar milljónir stjarna og dansandi norðurljós í móttökunefnd auk fjölskyldunnar. Ekki amalegt það. Ég fór að dunda mér aðeins við að taka myndir af norðurljósunum, en þetta var nú bara frumraun sem ég veit ekki hvort gekk nokkuð sérstaklega vel.

Ég er líka að safna í ágætis ,,hamsturkinn" hæ. megin. Fór nefnilega til tannlæknis í gær til að athuga hvort ekki væri allt í góðu svona áður en ég legg land undir fót. Held það sé ekkert ofur spennandi að lenda hjá tannlækni í Malaví. Hann tók eina mynd og þá æstust leikar verulega. Hann sá að þessi eini endajaxl sem ég hafði enn í munninum óx undir hina jaxlana og hann stórefaðist um að hann myndi ná að vaxa upp og færi sennilega að valda mér vandræðum fljótlega. Hann fékk sem sagt að fjúka, án þess að ég hafi fengið tíma til að undirbúa mig undir þetta svona andlega. Úff... ég var svo skjálfhent á eftir að ég gat varla skrifað undir Visa-nótuna skammlaust. Og maður á að vera heilbrigðismenntaður... Humm...!!! Ég er sem sagt ívíð blómlegri hæ. megin í andlitinu og ekki verkjalaus, en með hjálp verkjalyfja líður mér svo sem ágætlega.

Svo kom að 2. bólusetningardegi í dag. Ég fékk hana Þuríði systur mína í lið með mér enda er hún þaulvön að sprauta skepnur (og hvað er ég svo sem annað en skeppna). 4 sprautur takk fyrir takk, og hún systir mín stóð sig með stakri prýði. Ég stjórnaði nú svona aðeins í þessu, leiðbeindi henni skýrt og greinilega með hvað átti að fara í vöðva og hvað undir húð. Ég verð samt að segja að ég hef aldrei séð hana systur mína fara svona varlega með sprautur fyrr ;)

En nóg um þetta allt í bili. Yfir og út.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Útstunginn grís

Í dag er ég eins og útstunginn grís. Fór í 1. bólusetningartörnina í dag, 4 sprautur hvorki meira né minna, og 5 eftir skal ég segja ykkur. Þetta gekk nú svo sem ágætlega, er bara með smá verk í vi. öxlinni en það jafnar sig vonandi fljótlega. Slapp allavega við að fá sprautu í rassin :)

Malaví er líka öll að komast á hreint. Pappísrvinnan að verða búin, nema náttúrulega betlið. Þetta eru nefnilega rosalegar upphæðir og við ætlum að sækja um styrki fyrir sem mestu af þessum kostnaði. Nú bara krossum við fingurna og vonum það besta.

Konfektgerðin gengur líka ágætlega. Íris bekkjarsystir mín (sem er by the way einn allra mesti sælkeri sem ég þekki) kom við í dag og hún fékk að smakka. Að sjá hana smjatta á konfektinu mínu í dag var meira en næg staðfesting fyrir mig að þetta bragðist vel :)

Nú bara hef ég hreinlega ekki meira hugmyndaflug. Er alveg búin á því, það tekur á að semja formleg bréf og hvað þá á ensku.

þriðjudagur, desember 05, 2006

SP Konditori - dagur 2

Svei mér ef döðlujukkið frá því síðast smakkast ekki bara bráðvel með smá súkkulaði. Í gær skellti ég mér svo í að gera piparmyntukúlur og hef verið að dunda mér við það í dag að hjúpa þær og rúlla þeim upp úr heslihnetuflögum... Belgískt konfekt hvað??? Ég þarf allavega ekkert svoleiðis þegar ég hef uppskriftir úr kökubók Hagkaupa og svo sem eins og 2 kg af súkkulaði... Úff, þetta er rosalegt magn. Er einmitt byrjuð á uppskrift 3, er núna bara að bíða eftir að jukkið kólni svo ég geti farið að leika mér að því að búa til kúlur. Og þá er bara ein uppskrift eftir. Komst líka í feitt í dag, fann loksins bauka af temmilegri stærð fyrir þessar jólagjafir mínar. Jább, þetta verður jólagjöfin í ár, usss... það er bannað að kjafta frá í þá sem ekki vita :D

Annars sat ég fyrir framan tölvuna nánast streight frá því ég kláraði skólann í gær og fram til kl 1 í nótt. Malaví ætlar að reynast meira vesen en maður hefði getað haldið í byrjun. En þetta er nú allt að koma. Bólusetningar á morgun og svo verður tekinn rúntur til að athuga með tryggingar, flugmiðinn er reyndar óráðin ráðgáta enn, húsnæði í vinnslu og svo eru það umsóknir um hina ýmsu styrki, já og auðvitað malaríulyfin. Viljið þið geta upp á hvað 60 daga skammtur af einu malaríulyfinu kostar??? Á ég að hafa það svona komment spurningu og láta vita síðar. Já, held ég geri það bara. Endilega kommentið. Svarið kemur í næstu færslu :)

sunnudagur, desember 03, 2006

SP Konditori

Fyrsti sunnudagur í aðventu loksins mættur. Ég verð að viðurkenna að það kom smá jólafílingur í mig um daginn þegar allur snjórinn mætti og búið var að kveikja á jólaljósunum yfir Laugarveginum. Þá ákvað ég hins vegar að það væri of snemmt að hleypa litla jólahjartanu af stað, svo ég setti jólaskapið í frost... er hins vegar búin að taka það úr frosti núna, en það ætlar eitthvað að láta bíða eftir sér samt.

Í von um að ná að kveikja fiðringinn í maganum og koma jólahjartanu af stað ákvað ég að fara í konfektgerð. Jebb, þið lásuð rétt. Eitthvað sem ég hef ekki gert síðan... ja, allavega einhvern tímann á síðustu öld þegar mamma fór á konfektgerðarnámskeið. Ég á reyndar MJÖG erfitt með að ímynda mér að þetta döðlujukk sem er í pottinum mínum verði nokkurn tímann ljúffegir konfektmolar... en á eftir að húða jukkið með súkkulaði... þannig að það er enn von. Er ekki allt gott með smá súkkulaði? Ég er líka farin að teikna upp skraut til að gera á molana... þetta á sko að líta út fyrir að vera professional þó að það komi kannski ekki endilega til með að líta út fyrir að vera professional ;)

Nú er kominn tími á smá meiri konfektgerð. :Þ

laugardagur, desember 02, 2006

Rock star tónleikar - oh oh oh oh oh ohhh...

Ahhh... svíf enn um á bleiku skýi :D

Þetta var ótrúlegt, ég hefði ekki viljað missa af þessu. Smellti af um 150 myndum og hætti bara af því að öryggisverðirnir voru farnir að fetta fingur út í myndatöku mína :( Vildi síður að þeir myndu eyða öllum myndunum sem ég hafði þá þegar tekið, svo ég pakkaði henni bara niður. Synd, því þá rétt var ég komin nógu nálægt sviðinu til að ná almennilega að súma.

Það var ótrúlega góð stemning, í fullri höll, með skopparabolta eins og Toby og Storm sem hamast endalaust á sviðinu, að ógleymdum Dylönu og Magna. Þessi Josh gaur var samt ekki alveg að gera sig, fínn söngvari, en söng bara lög í rólegri kantinum og dempaði stemninguna svona frekar heldur en hitt. Húsbandið er náttúrulega bara ótrúlega gott, held að sigurvegari keppninnar sé miklu frekar Dylana sem fær að syngja með þeim, frekar en Lucas sem er dæmdur til að vera söngvari Supernova... Ekki skemmdi fyrir að Rafael, annar gítarleikarinn slær Toby nánast við í kynþokkanum ;) Ég get allavega alveg mælt með þessu ef þau snúa aftur.

Dagurinn í dag hefur svo að mestu snúist um Malaví, búin að bóka flug og er að púsla sama verkefnislýsingu... á ensku, og það verður að viðurkennast að það vefst aðeins fyrir mér. Þetta er allt orðið mun áþreifanlegra núna, þegar flugið er í höfn, bólusetningar vonandi í næstu viku, sækja um visa og bara hugsa um allt sem þarf að redda áður en við leggjum í hann. Brottfarardagur 5. janúar nk og heimför áætluð 3. mars. Úúúúú... ég er SVO spennt, fæ alveg hroll :D