þriðjudagur, október 31, 2006

Ungbarnaeftirlit...

...fer alveg með mig. En ekki meir um það... ætla að reyna að halda mig við þá reglu að blogga sem minnst um vinnu mína og nám :)

Og þar með er þessari bloggfærslu lokið... ;)

laugardagur, október 28, 2006

Kaktusar!!!

Ég fór í heimsókn á heilsugæslustöð hérna á höfuðborgarsvæðinu í vikunni, sem er svo sem ekki í frásögur færandi... fyrir utan kaktusasafn mikið sem er á staðnum. Við komu á stöðina var náttúrulega tekið vel á móti okkur og byrjað á að ganga með okkur um í ,,sight-seeing". Áðurnefnt kaktusasafn kemur ekki við sögu fyrr en við komum að herbergi hjúkrunarfræðinganna... þar voru allir gluggar og borð þéttsetin af kaktusum... sívölum og ílöngum... og ég veit ekki hvort það segir meira um mig (og skort á XXX) eða þær en þetta leit nánast út eins og safn af gildum limum... (og þá meina ég ekki meðlimum í einu né neinu) mishærðum eða vel búnir nálum...

Nú veit ég ekki nema þessi færsla uppljóstri enn frekar minn innri mann, sem hugsanlega hefur verið dulinn einhverjum áður... en það verður þá bara að hafa það.

mánudagur, október 23, 2006

Sjaldan er ein báran stök og ég orðheppin...


Úff púff...

Ég byrjaði á nýrri heilsugæslustöð í bænum í dag og vandaði mig náttúrulega extra mikið að koma vel fyrir, kynna mig og heilsa með handabandi því þarna verð ég í verknámi næstu 3 vikurnar. Þetta virtist bara ætla að ganga svona líka glimrandi vel, sló um mig við sænskan rannsóknarleiðangur sem var í heimsókn á stöðinni og komst meira að segja inn í tjattið á kaffistofunni í hádeginu... það var semst ekki fyrr en eftir hádegi sem mér urðu á mistök. Ég var búin að vera hjá einum og sama lækninum í nokkrum viðtölum og var búin að taka eftir að hann var með myndir af börnunum sínum í litlum römmum á skrifborðinu sínu... og svo var ein mynd af Quentin Tarantino þarna líka. Ég hugsaði mig um í 2 viðtöl í viðbót áður en ég hafði orð á þessu en ákvað svo að láta slag standa: ,,Hva... eru menn svo bara með mynd af Tarantino í fjölskyldualbúminu???" Læknirinn varð nú eitthvað hálf kindarlegur á svipinn, horfði á myndirnar og sagði: ,,Nei, þetta er nú bara sonur minn, en ég verð nú að nefna þetta við hann þó ég efist um að honum finnist þessi samlýking einhver heiður..." ÞARNA, akkúrat ÞARNA fór ég að roðna og gerði mér grein fyrir að það er líka hægt að skora mínusstig á fyrsta degi :/


sunnudagur, október 22, 2006

Landsbyggðartútta...

Ég heyrði þetta orð notað í fyrsta skipti í síðustu viku og féll strax fyrir því. Það var einn af rómuðum læknum Heilsugæslunnar á Akureyri, sem sagðist ekki hafa getað hugsað sér að verða læknir á LSH, ,,verandi sú landsbyggðartútta sem ég er" svo ég noti orð hans beint. Mér finnt þetta mjög lýsandi orð, líka fyrir mig svo ég ætla að taka það upp. Búin að sækja um að fá löggildingu á nýja nafninu mínu hjá nafnanefnd... Sólveig Landsbyggðartútta Pétursdóttir :)

Þeir eru með einhverjar mótbárur og segja þetta ekki vera sérnefni... en ég held bara áfram að hamra á því við þá að þetta sé löggilt íslenskt orð, sem beygist eftir íslenska beygingakerfinu og hvort það sé sérnafn eða ekki eigi ekki að skipta öllu máli. Er að hugsa um að mælast til þess við verðandi afkomendur mína að þeir taki þetta nafn upp líka og að það endi með að þetta verði ættarnafn... hehehe ;O)

miðvikudagur, október 18, 2006

Grímsey City

Þá er stundin runnin upp. Mér líður eins og stórstjörnu, hef minn einkabílstjóra sem skutlar mér út á flugvöll (jafnvel þó ég sé látin sitja í aftursætinu við hliðina á barnabílstólnum...) og þegar ég mæti á völlinn þarf ég ekki einu sinni að segja til nafns í innrituninni. ,,Við erum bara tvö..." segir PP, samferðarmaður minn í þessu ævintýri mínu, og frekari útskýringa gerist ekki þörf, ekki beðið um nein skilríki og þaðan af síður vegabréf þrátt fyrir að um ,,utanlandsferð" sé að ræða. Okkur leyfðist meira að segja að mæta frekar seint í innritun ;)

Skömmu síðar er kallað í hátlarakerfi flugstöðvarinnar: ,,Við tilkynnum brottför til Grímseyjar (City...), allir farþegar eru beðnir um að ganga um borð." Ég lít í kring um mig og sé að 3 karlmenn bæra á sér og gera sig líklega til að hlíða vélrænu röddinni í hátalarakerfinu. Ég og samferðarmaður minn gerum slíkt hið sama. Ég geng í átt að lítilli vél, með innbyggðum stiga og þakka guði fyrir að það er logn, því þessi vél virðist ekki vera gerð fyrir fleiri en 0-2 m/s. Ég vel mér vandlega gluggasæti eftir að ég hef komist að því að ,,sæti 2A" sem stendur skýrt og greinilega á miðanum mínum er ekkert heilagt mál. Samferðamaður minn sest við hliðina á mér og setur sig í stellingar með að nota tækifærið og halda fyrirlestur á leiðinni.

Hreiflarnir eru ræstir og það verður yfirgnæfandi hávaði í vélinni. Ég sé varirnar á PP bærast en heyri ekki orð af þeirri visku sem um þær flæðir og hef ekki hugmynd um hvort hann gerir sér grein fyrir því sjálfur. Þegar varir hans hætta að bærast og hann horfir á mig með augnaráði, sem segir mér að mér sé ætlað að svara einhverju eða í það minnsta tjá skoðanir mínar á einhverju, reyni ég eftir fremsta megni að segja honum að ég hafi ekki heyrt hvað hann var að segja en heyri ekki í sjálfri mér svo ég er farin að efast um að ég hafi yfir höfuð talað, samanber hugmyndina um hvort það heyrist hljóð þegar tréð fellur í skóginum þegar enginn er nálægt... Þegar fer aðeins að hljóðna tilkynnir hann mér að þetta sé Twin Otter vél... og á eftir fylgir ýmiss fróðleikur um þessar vélar sem ég lagði ekki á minnið... enda farið að vera samkeppni um megabætin á mínum bæ og til að halda vinnsluhraðanum uppi hef ég ákveðið að temja mér ,,selectíft minni"...

Við erum allt í einu komin í loftið. Ég horfi niður á sveitir Eyjafjarðar, enn grænar en með snjólínuna alveg í bakgarðinum og finn titringinn frá hreiflunum í sætinu mínu og verð hugsað til S&C þegar Charlott lokaði sig inni með ,,kanínunni" sinni... þessu gæti ég alveg vanist og haft not fyrir... hehehe... ;) (Vonandi ofbýður ég engum af lesendum mínum með þessu...). Ég held áfram að virða fyrir mér útsýnið inn á milli þess sem ég reyni að halda uppi samræðum við samferðarmann minn. Furðulegt hvað sjávarbotninn hefur í raun mikið landslag, þó ég efist um að það beri nokkurt nafn og þá er komin spurning hvort það er nokkurs virði. Þegar ég sé ekki lengur til lands reyni ég að sjá Grímsey í fjarska sem ég veit að er skammt undan, en án árangurs. Í einhverri rælni verður mér litið ofan í sjóinn aftur og sé ekki lengur landslagið sem ég sá áður, heldur dett í að sjá fyrir mér að við brotlendum í þessu salta vatni, sem er svo skammt undan og ég syndi innan um alla fiskana og finn rækjurnar narta í mig. Ég lít skyndilega upp í þeirri von að hrista þessa hugsun frá mér og sé ógurlega myndarlega hönd aðstoðarflugmannsins halda sterklega um einhverja stöng í loftinu... og ég fyllist öryggiskennd. Þessir gaurar vita sko alveg hvað þeir eru að gera. Í sömu andrá færist nef flugvélarinnar niður á við og mér bregður, EN... þarna sé ég land, beint framundan og ég er komin til Grímseyjar :)

Við brottför, tæpum 2 tímum síðar hef ég séð meirihlutann af þeim íbúum eyjarinnar sem halda meðalaldrinum í kring um þrítugt, enda er ,,heilsugæslan" í einni skólastofunni, ég hef gengið að Heimskautsbaugnum og fengið viðurkenningu fyrir það í þokkabót sem ég mun ramma inn og hafa uppi á vegg (og set inn eintak hérna auðvitað þegar ég kemst í skanna), séð húsið þar sem hún Vala mín bjó einu sinni, rætt við skólasystur systkina minna tveggja og sinnt skjólstæðingum... Geri aðrir betur á skemmri tíma. Hef nú fast land aftur undir fótum og get alveg hugsað mér að slíka ferð aftur :)

mánudagur, október 16, 2006

HAK

Ég finn hvernig dofinn tekur völdin í fingurgómunum og hugsa til þess er kuldaboli beit í þá í fyrsta skipti í langan tíma fyrir örskammri stundu. Ég kreppi bera lófana utan um haldið á Bónuspokanum og blóta í hljóði nýju fínu flísvettlingunum mínum, sem væri gott að hafa við höndina núna og hefði verið enn þá betra í morgun þegar ég skóf snjóinn af bílnum. Ég lyfti öxlunum og reyni að koma kraganum á úlpunni í hæð við eyrun í von um að halda í þeim lífinu þar til ég kemst í húsaskjól, sem er skammt undan. Ég verð þeirri stund fegnust þegar ég geng fyrir hornið og sé áfangastað minn - HAK.

Jebb, hér mun ég eyða næstu dögum í að læra að lækna Akureyringa og nærsveitamenn, og er nú þegar búin að komast að því að þetta er ærið verkefni og þörf fyrir fleiri til starfa í þessum harða og lýjandi bransa... Fyrirhuguð ferð til Grenivíkur núna eftir hádegið og svo Grímsey city á morgun, þ.e. ef veður leyfir.

Þið fáið ,,öll" að fylgjast með ;)

sunnudagur, október 08, 2006

Hver er svo ósvífinn að hringja í mann kl 2 að næturlagi... og það úr leyninúmeri???

Já, svona... játaðu, hver sem þú ert.

Ég hefði getað verið steinsofandi og á kafi í draumalöndunum þess vegna, en verandi leigutaki á Stúdentagörðunum þá var það nú reyndar ekki raunin. Í húsi sem samanstendur að einstaklingsíbúðum sem ýmist hýsa pör... eða svona einstakt fólk eins og mig gilda nefnilega ákveðin náttúrulögmál, ekki síst um helgar. Þá á maður eiginlega ekki margra kosta völ annað en að:

a) vera algjört partýdýr og djamma eins og flestir hinir
b) vera ekki heima
c) vera heima en ekki láta þér detta í hug að þú getir sofnað fyrr en í fyrsta lagi hálf 3-3 þegar allir partýgestir eru farnir í bæinn

Kl 2 í nótt var ég sem sagt nýskriðin upp í og lá þar, bíðandi eftir að partýlætin færu aðeins að minnka... en þá mætir fólkið auðvitað fyrir framan gluggann minn, að bíða eftir leigubílnum sem það pantaði fyrir korteri síðan og hefur ekki látið sjá sig. Ég er sem betur fer bæði þolinmóð manneskja og farin að átta mig á þessum helgarlögmálum Stúdentagarðanna, svo ég bara lá róleg og beið eftir að Hreyfill leysti mig undan þeirri kvöð að hlusta á pissfullar gellur tala um hössl síðustu helgar þar sem aðal pikkupplínan var... ,,hey ljóti! viltu dansa"... virkaði að því er virtist ekki alltaf og niðurstaðan var að ef sæt stelpa segir þetta við strák (fylgdi ekki hvernig hann lítur út) þá taka þeir þetta sem móðgun og neita að dansa... en þetta virtist vera góð lína ef pían var ekkert svo mjög sæt... Djjjjúúúpt, finnst ykkur ekki???


Já, og ég semst svaraði ekki í símann... þó ég væri vakandi :)

laugardagur, október 07, 2006

Bjórkvöld Félags Læknanema

Í gærkveldi boðaði Félag læknanema til bjórkvölds á Pravda... Ég mælti mér mót við aðal-skvísurnar í bekknum á Pravda. Þegar ég mætti á staðinn var ekki auðfundið hvar allir læknanemarnir voru, en þökk sé nútíma samskiptatækni, þá gat ég bjallað í hana Huldu og hún kom og fann mig. Við lentum hins vegar nánast í vandræðum með að fá aðgang. Á staðnum voru eingöngu 1.-3. árs nemar fyrir utan okkur, og hreint ekkert margir af þeim. Heyrðum reyndar út frá okkur að það væri einn 4. árs nemi á staðnum og svo mættu reyndar nokkrir í viðbót og 1 fulltrúi af 5. árinu lét sjá sig. Alveg gífurlega góð mæting sem sagt. Af ofansögðu ættu menn að geta gert sér í hugarlund að við skutlurnar af 6. árinu hækkuðum meðalaldurinn um nokkur ár svei mér þá... Er farið að hleypa grunnskólabörnum inn í læknisfræðina, ég bara spyr...???

Hér fylgja svo myndir af okkur skutlunum til að staðfesta orð mín hérna að framan og til að votta nærveru okkar á staðnum.




Kvöldið náði hámarki á Thorvaldsen, af öllum stöðum, sötrandi drykk aldarinnar og tjúttandi á annars tómu dansgólfi... sem náttúrulega fylltist þegar við mættum á staðinn. Teknar voru myndir af mætum lækni... sem var í góðum gír. Ákvað að láta þær ekki fylgja með vegna persónuverndar ;)

Takk þið hin sem mættuð ekki, því ég hefði ekki fengið svona marga ókeypis bjóra ef þið hefðuð öll mætt :D

Jæja Elva mín... ætli ég haldi ekki áfram að blogga fyrir þig :)

Spurning dagsins: Eru gamlar gráhærðar konur sem keyra um á nýjum Benz jafn hættulegar í umferðinni og gamlir karlar með hatt...?

Mín skoðun: Ó já, svo sannarlega. Þær líta hvorki til hægri né vinstri, láta eins og þær eigi heiminn og þar með talið götur Reykjavíkurborgar. Þær eru gjörsamlega sneiddar tillitssemi og bæði ryðjast áfram OG svína fyrir mann.

Verð náttúrulega að taka það fram samt að nú er ég að alhæfa. Hitti bara eina svona í dag og alhæfing mín byggist á reynslu minni á henni.

Annars lítið að frétta. Hef átt sannkallaðan letidag í dag, kíkti í hádegismat til Önnu, rölti í Kolaportið og um Laugarveginn í ógurlegri mannmergð. Kom heim til að lesa en sofnaði auðvitað í sófanum og nú er ég að hugsa um að glápa á imbann. Verst er samt að eftir síðasta fall sjónvarpsfjarstýringarinnar minnar í gólfið virkar hún ekki svo kvöldið bíður ekki upp á letilega stöðu í sófanum og stöðvaráf með bara einum litlum fingri...

Kveð í bili,

SP solo

mánudagur, október 02, 2006

Markmið dagsins... að standa við gefin loforð frá því fyrir helgi :)

Úfff... þá er þessi ógurlega smákúrsatörn búin með öllum sínum laugardagsprófum. Hef ekki minnstu glóru um hvernig gekk, en það er bara höfuðverkur framtíðarinnar :)

Brunaði heim í sveit eftir prófið á föstudaginn, úrvinda af þreytu. Var í smölun og kinda- og lambastússi alla helgina og er með strengi á furðulegustu stöðum og marbletti á enn furðulegri stöðum... humm... segi ekki meir á opinni bloggsíðu ;) Brunaði svo suður í gærkveldi, örþreyttari en nokkru sinni fyrr og ,,vaknaði" í morgun á hápunkti úrvindunnar. Var búin að hjóla hálfa leið upp á Landspítala þegar ég fattaði að framdekkið var loftlaust :/

Nú er ég loksins byrjuð í verknámi þetta árið. Komin inn á svæfingardeild á Hringbraut. Búin að vera að ventilera (= anda fyrir fólk, blása í fólk með belg o.s.frv.) í allan dag og það er ótrúlega erfitt. Veit ekki hvort er hægt að lýsa þessu fyrir þeim sem ekki þekkja til, en ímyndið ykkur að þið séuð að reyna að halda á hringlóttu lóði, á bara fingurgómunum og lófarnir snúa niður... humm... þetta er sennilega algjörlega óskiljanleg útskýring, en myndræn sýning fæst í beinni eftir pöntunum við fyrsta tækifæri :D

Annars er satt best að segja voðalega lítið að frétta... það var kannski ekki bara próflesturinn sem hamlaði bloggfærslu... heldur bara hreinlega klassísk lágdeyða ;) Nei, heyriði... ég VERÐ að taka fram að ég fjárfesti í nýrri digital myndavél um daginn, algjört djásn, Canon EOS 350D... og ég er kolfallin. Er að hugsa um að hætta í læknisfræði, vinna fyrir mér sem læknanemi á hinum ýmsu deildum spítalans og skella mér í ljósmyndun fyrir peninginn. Hljómar þetta ekki bara ágætlega??? Eða ætti ég kannski að geyma þetta þangað til eftir að ég klára prófin í vor...??? hehehe ;)

En nú er nóg komið í bili. Ætla að reyna að verða einhvers frekar vísari fyrir morgundaginn, annar í svæfingu yfirvofandi. Nánar um það síðar :)