mánudagur, október 01, 2007

Raunveruleiki vs. óraunveruleiki...

Atburðir síðustu daga virðast nánast óraunverulegir. Ég er ekki að sjá þetta fyrir mér allt saman.

Góður vinur minn hann Jón Gunnar lenti í alvarlegu bílslysi sl. fimmtudag og það er nánast læknisfræðilegt kraftaverk að hann skuli vera á lífi. Hann er reyndar enginn venjulegur einstaklingu svo kannski ætti þetta ekki að koma okkur sem þekkjum hann svo mjög á óvart. Þeir sem ekki trúa á örlög myndu segja að röð tilviljana hafi spilað stórt hlutverk í þessu ferli öllu... en ég held að þarna búi eitthvað meira að baki. Örlög? Kannski, ég veit ekki hvað á helst að kalla það, en svona atburðir vekja óneitanlega upp þá spurningu hvort Jóni sé ekki ætlað eitthvert stærra hlutverk í þessum heimi.

Síðustu dagar hafa einkennst af tilfinningasveiflum og mér finnst einhvern veginn svo erfitt að sjá þetta fyrir mér. Þegar ég hugsa um Jón koma upp minningar af matarboðum, veiðimanni í húð og háð, msn tjatti, gleði og etv. einum og einum mojito ásamt svo mörgu öðru. Ég sé hann ekki fyrir mér í sjúkrarúmi, og þó hef ég nú séð ófá andlitin við þær kringumstæður svo ég ætti að eiga auðveldara með þetta. Ég keyrði fram hjá íbúðinni þinni um helgina og hefði svo viljað óska að ég hefði verið með efni í pizzu meðferðis og að þú hefðir komið til dyranna við fyrstu hringingu. En það verður bara næst.

Jón! Það er svo margt sem við eigum eftir að gera saman að ég veit að þinn tími hér er ekki búinn. Þetta styrkir þig vonandi bara enn frekar til lengri tíma litið og þú kemur aftur sterkari en nokkru sinni fyrr. Haltu áfram þinni ótrúlegu baráttu og vita máttu að það stendur hópur fólks að baki þér sem er tilbúið að koma til aðstoðar fyrir hálft orð eða minnstu augnhreyfingu ef þér fipast eitthvað á leið til bata. Einhvers staðar á góðum stað stendur skrifað að ,,Góður vinur er sá er í raun reynist"... og miðað við viðbrögð fólks af þessum hræðilegu fréttum ert þú vinamargur maður.

Ég hugsa til þín að nóttu sem degi og hlakka til að sjá þig aftur sem allra fyrst við góða heilsu.