föstudagur, febrúar 29, 2008

Súperflört!

Já góðan daginn!

Fjárfesti í bók sem ber þennan titil. Nú skal sko fjandakornið tekið á því. Missti gjörsamlega af þessum kúrs í menntó nefnilega, spurjið bara þá sem til þekkja. En nú verður sko breyting þar á.

föstudagur, febrúar 22, 2008

Öfugmælavísa!

Upplifði mína eigin öfugmælavísu rétt í þessu. Mér fannst einhvern veginn kominn tími til að taka niður jólaseríuna af svölunum og dengdi mér í það áðan í góða veðrinu hérna fyrir norðan sem gefur óneitanlega loforð um að það sé vor bara rétt handan við hornið. Af þessu tilefni skellti ég Hawaiidrengnum Jack Johnson á geislann og dillaði mér með í húla-húlasveiflu, umgringd gervigreni og jólaseríum. 

Góð blanda það.

Fullkomnun

Ein af mínum bestu vinkonum er nýbúin að unga út og eignaðist stelpu með þvílíkan lubba. Hún er algjört krútt. Ég veit þið hafið eflaust heyrt þessa fullyrðingu oft... EN ég held ég hafi ALDREI séð sætari nýbura. Sá hana bara nokkurra tíma gamla og hún var ekki einu sinni krumpuð og ekkert þrútin í framan eða neitt.

Þegar ég spurði vinkonu mína hvernig hefði gengið var svarið: ,,ÚFF!!! Ég hélt ég myndi drepast!"

Til hamingju með dömuna. Hún er alveg fullkomin.

Labbandi...!!!

Ég ræddi við Bárð litla frænda minn í síma í gærkveldi. Drengurinn verður 3 ára í maí n.k. og talar ótrúlega mikið. Ólöf systir hans fékk bílinn minn í gær til að fara heim í sveit og hann tilkynnti mér það í símann: ,,Óföf koma heim í Dollu bíl." Ég spurði hann þá hvenig ég ætti að komast heim fyrst Ólöf hefði tekið bílinn minn. Það varð þögn í smá stund en svo svaraði hann heldur glaðari en áður:
,,Labbandi"

Segið svo að börn hafi ekki lausninrnar á vandamálum.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Uppskrift að góðri helgi...

Að fá hana Þóru mína í heimsókn... það er bara nóg. Einföld og góð uppskrift það :)

Það er nóg til að láta manni líða vel, hafa gaman, hlæja og bara vera. Bara að vera! Maður getur ekki beðið um meira, er það? Ég fer allavega ekki fram á meira.

Takk fyrir helgina Þóra mín. Þú ert best, LANG-best.

Blood Diamond

Hafði það loksins af að sjá þessa mynd sem frú Elva mælti með á síðunni sinni þegar hún var enn í ilfætlingur og ég var enn í Afríku, ef ég man rétt allavega.
Þetta er ótrúlega áhrifarík mynd sem ég mæli fullkomlega með. Ég fékk æluna upp í háls, tár í augun og fylltist viðbjóði yfir fjandans vestræna heiminum. Ég ber verulega blendnar tilfinninga til demanta eftir þetta. Hef ekki í hyggju á að fjárfesta í svoleiðis. Læt mér nægja slípað gler svei mér þá.

Ef þið hafið ekki séð hana nú þegar þá hvet ég ykkur til að fara á næstu leigu hið fyrsta.

föstudagur, febrúar 01, 2008

Betri er krókur en kelda???

Ætlaði að stytta mér leið í dag... Eftir 2 sólarhringa stórhríð gæti maður kannski sagt sér það sjálfur að það gætu verið komin örlítil snjóalög. Ég ákvað hins vegar að fara í smá göngutúr á leiðinni heim úr vinnunni í dag og lagði krók á leið mína. Þegar ég var búin að arka um á ruddum göngustígum bæjarins í 30 mínútur ákvað ég að stytta mér leið. 
Arkandi yfir órudda göngustíga áttaði ég mig á því að það hefur hríðað nánast stanslaust í langan tíma, svo mjög að ég óð á köflum snjó í mið læri og þá kom þetta gamla máltæki upp í kollinn á mér. Göngutúrinn varð allavega ágætis æfing fyrir lærin... alltaf að sjá það jákvæða við þetta allt saman ;)