miðvikudagur, október 18, 2006

Grímsey City

Þá er stundin runnin upp. Mér líður eins og stórstjörnu, hef minn einkabílstjóra sem skutlar mér út á flugvöll (jafnvel þó ég sé látin sitja í aftursætinu við hliðina á barnabílstólnum...) og þegar ég mæti á völlinn þarf ég ekki einu sinni að segja til nafns í innrituninni. ,,Við erum bara tvö..." segir PP, samferðarmaður minn í þessu ævintýri mínu, og frekari útskýringa gerist ekki þörf, ekki beðið um nein skilríki og þaðan af síður vegabréf þrátt fyrir að um ,,utanlandsferð" sé að ræða. Okkur leyfðist meira að segja að mæta frekar seint í innritun ;)

Skömmu síðar er kallað í hátlarakerfi flugstöðvarinnar: ,,Við tilkynnum brottför til Grímseyjar (City...), allir farþegar eru beðnir um að ganga um borð." Ég lít í kring um mig og sé að 3 karlmenn bæra á sér og gera sig líklega til að hlíða vélrænu röddinni í hátalarakerfinu. Ég og samferðarmaður minn gerum slíkt hið sama. Ég geng í átt að lítilli vél, með innbyggðum stiga og þakka guði fyrir að það er logn, því þessi vél virðist ekki vera gerð fyrir fleiri en 0-2 m/s. Ég vel mér vandlega gluggasæti eftir að ég hef komist að því að ,,sæti 2A" sem stendur skýrt og greinilega á miðanum mínum er ekkert heilagt mál. Samferðamaður minn sest við hliðina á mér og setur sig í stellingar með að nota tækifærið og halda fyrirlestur á leiðinni.

Hreiflarnir eru ræstir og það verður yfirgnæfandi hávaði í vélinni. Ég sé varirnar á PP bærast en heyri ekki orð af þeirri visku sem um þær flæðir og hef ekki hugmynd um hvort hann gerir sér grein fyrir því sjálfur. Þegar varir hans hætta að bærast og hann horfir á mig með augnaráði, sem segir mér að mér sé ætlað að svara einhverju eða í það minnsta tjá skoðanir mínar á einhverju, reyni ég eftir fremsta megni að segja honum að ég hafi ekki heyrt hvað hann var að segja en heyri ekki í sjálfri mér svo ég er farin að efast um að ég hafi yfir höfuð talað, samanber hugmyndina um hvort það heyrist hljóð þegar tréð fellur í skóginum þegar enginn er nálægt... Þegar fer aðeins að hljóðna tilkynnir hann mér að þetta sé Twin Otter vél... og á eftir fylgir ýmiss fróðleikur um þessar vélar sem ég lagði ekki á minnið... enda farið að vera samkeppni um megabætin á mínum bæ og til að halda vinnsluhraðanum uppi hef ég ákveðið að temja mér ,,selectíft minni"...

Við erum allt í einu komin í loftið. Ég horfi niður á sveitir Eyjafjarðar, enn grænar en með snjólínuna alveg í bakgarðinum og finn titringinn frá hreiflunum í sætinu mínu og verð hugsað til S&C þegar Charlott lokaði sig inni með ,,kanínunni" sinni... þessu gæti ég alveg vanist og haft not fyrir... hehehe... ;) (Vonandi ofbýður ég engum af lesendum mínum með þessu...). Ég held áfram að virða fyrir mér útsýnið inn á milli þess sem ég reyni að halda uppi samræðum við samferðarmann minn. Furðulegt hvað sjávarbotninn hefur í raun mikið landslag, þó ég efist um að það beri nokkurt nafn og þá er komin spurning hvort það er nokkurs virði. Þegar ég sé ekki lengur til lands reyni ég að sjá Grímsey í fjarska sem ég veit að er skammt undan, en án árangurs. Í einhverri rælni verður mér litið ofan í sjóinn aftur og sé ekki lengur landslagið sem ég sá áður, heldur dett í að sjá fyrir mér að við brotlendum í þessu salta vatni, sem er svo skammt undan og ég syndi innan um alla fiskana og finn rækjurnar narta í mig. Ég lít skyndilega upp í þeirri von að hrista þessa hugsun frá mér og sé ógurlega myndarlega hönd aðstoðarflugmannsins halda sterklega um einhverja stöng í loftinu... og ég fyllist öryggiskennd. Þessir gaurar vita sko alveg hvað þeir eru að gera. Í sömu andrá færist nef flugvélarinnar niður á við og mér bregður, EN... þarna sé ég land, beint framundan og ég er komin til Grímseyjar :)

Við brottför, tæpum 2 tímum síðar hef ég séð meirihlutann af þeim íbúum eyjarinnar sem halda meðalaldrinum í kring um þrítugt, enda er ,,heilsugæslan" í einni skólastofunni, ég hef gengið að Heimskautsbaugnum og fengið viðurkenningu fyrir það í þokkabót sem ég mun ramma inn og hafa uppi á vegg (og set inn eintak hérna auðvitað þegar ég kemst í skanna), séð húsið þar sem hún Vala mín bjó einu sinni, rætt við skólasystur systkina minna tveggja og sinnt skjólstæðingum... Geri aðrir betur á skemmri tíma. Hef nú fast land aftur undir fótum og get alveg hugsað mér að slíka ferð aftur :)

4 Comments:

At 8:14 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Sólveig dónakelling!

 
At 12:47 e.h., Blogger Sólveig said...

phehe... hafði góðan kennara, nefni engin nöfn... ;)

 
At 5:55 f.h., Blogger Elva said...

Jeiii... eg er svo anaegd med hvad thu ert dugleg ad blogga!!! Eintom hamingja :)

 
At 3:51 e.h., Blogger Anna Geirlaug said...

Já ég les hér um mjög spennandi flugferð...og er alveg til í að fara með þér þangað...en aftur í lærdóm. Hafðu samband.

 

Skrifa ummæli

<< Home