miðvikudagur, júní 06, 2007

Sumarblíða :)

Ég er alveg að semja langan pistil um Tæland sko... en hann er bara í tölvunni minni en núna er ég í vinnunni og bara VARÐ að skella inn nokkrum línum af því það er orðið svo óskaplega langt síðan ég skrifaði eitthvað hérna síðast.

Ég er sem sagt formlega búin að ljúka námi við Háskóla Íslands, útskrift eftir nokkra daga bara. Furðulegt alveg hreint. Ég er náttúrulega strax byrjuð að skoða námsskrár háskólanna í dag og hvað þeir bjóða upp á í fjarnámi... hversu sorglegt sem það er. Ég er allavega búin að ákveða að taka spænsku í fjarnámi frá VMA næsta vetur (þið minnið mig á það kannski síðsumars...)

Ég er mætt með síðustu vorfuglunum hingað á Húsavíkina og er tekin til starfa. Ég fæ náðasamlegast að búa í lítilli kjallaraíbúð með útsýni yfir Kjötiðjuna og aðeins smá út á sjó. Get samt ekki kvartað, allt betra en litla stúdentagarðaholan mín fyrrverandi. Orðið af nýrri kerlu í bænum hefur greinilega breiðst út því að þegar ég var að bera dótið mitt inn á mánudaginn þá kom steggur aðvífandi og sýndi mér mikla lotningu. Í gær voru þeir svo orðnir 3 steggirnir sem biðu mín í garðinum þegar ég kom heim. Þetta voru reyndar Grænhöfðasteggir en ekki mannlegs eðlis en þessir mannlegu hljóta að fylgja á eftir, ekki geta þeir verið eftirbátar fiðurfésins... eða hvað? ;)

Ég er full bjartsýni með gott sumar.

1 Comments:

At 10:22 e.h., Blogger Elva said...

Það er gott að vera bjartsýnn!

Hafðu það gott á Húsavíkinni í sumar já og takk fyrir póstinn! Ég svara honum fljótlega (c:

 

Skrifa ummæli

<< Home