þriðjudagur, mars 06, 2007

Pistill nr 2

Verð að minnast á eitt í sambandi við Malaví. Veit ekki hvort ég var nokkuð unglegri þar en hérna heima (vil sjálf trúa því að ég sé bara alltaf svona ungleg...) en í Malaví trúði fólk því frekar að ég væri 20 en 28 og ég var spurð um skilríki þegar ég ætlaði að kaupa bjór, en þar er áfengiskaupaaldurinn 21 árs. Ég er náttúrulega bara himinsæl með þetta, enda finnst mér ég ekki sjálf deginum eldri en 21 :D

Annað sem ég fékk hreinlega ekki nóg af var þessi ótrúlega græna náttúra, það var hreinlega allt grænt svo langt sem augað eygði, frá lægstu dalverpum upp á hæstu fjallstinda. Okkur var reyndar tjáð að landið væri ekki alltaf svona grænt en við værum bara svo heppnar að vera þarna á regntímanum. Veit ekki hvort ég myndi þekkja landið aftur ef maður færi út á þurrkatímanum þegar ALLT er brúnt.




Held ég verði líka enn og aftur að minnast á matinn í Malaví. Hef náttúrulega minnst á þennan bragðlausa maísmjölsgraut, nzima, sem þau borða í öll mál og hreinlega sakna hans þegar þau fá hann ekki. Okkur var m.a. tjáð að ef það er eitthvað sem Malavar sem fara til náms erlendis sakna þá er það seddutilfinningin sem nzima gefur þeim, þeim finnst þau alltaf vera svöng. Með þessu borða þau ýmist þennan heila, sólþurrkaða, steikta fisk sem hefur óneitanlega verið minnst á áður eða þá relish úr graskersblöðum sem bragðast eins vel og fiskurinn bragðast illa. Hefði vel getað hugsað mér að fá uppskriftina að því og nota það sem sósu með hrísgrjónum hérna heima.


Tvívegis snæddi ég líka grillmáltíð á strönd Lake Malawi sem í bæði skiptin samanstóð af grilluðum fiski, hrísgrjónum, heimagerðri tómatsósu og soðnum graskerslaufum. Þetta voru ágætis máltíðir en helst til steinefnabættur þar sem maður bruddi sandkorn í hverjum bita. Kröfurnar voru samt ekki miklar fyrir, svo þetta varð bara hin fínasta máltíð.




Franskar kartöflur eru líka mjög svo vinsælar þarna og er boðið upp á þær með ÖLLUM mat, allt frá kjúklingi upp í fínustu steikur. Í flestum tilvikum eru þetta þó ekki djúpsteiktar kartöflur eins og við eigum að venjast heldur kartöflur sem eru marineraðar í rétt volgri fitunni, sömu fitu og er notuð til að djúpsteikja kjúklinginn svo að maður fær jafnvel einstaka djúpsteikta fjöður með frönskunum í kaupbæti... jammý!!!




Annars borðuðum við mest vestrænan mat; ávesti (ahhh... yndislegu ávextirnir :Þ ), grænmeti, hrísgrjón, kartöflurétti og fengum einstaka sinnum kjúkling og tvívegis snæddum við nautasteik á 2 fínustu veitingahúsum landsins. Hvernig okkur tókst til að elda úr malavísku hráefni er svo okkar að vita... Kalt mat: Mjög vel. Eldurðum meira að segja pizzu einu sinni sem rann ljúft niður. Mestu vonbrigði fyrir bragðskynið okkar voru án efa súkkulaðikökurnar sem þeir gera og malavísk kexframleiðsla. Við brögðuðum nokkrum sinnum súkkulaðiköku og af fyllstu hógværð get ég fullyrt að bestu súkkulaðikökurnar sem við fengum voru þær sem við gerðum sjálfar. Við gerðum líka margar tilraunir tið að finna okkur gott kex. Við lögðum í útgjöld (því kex er munaðarvara í Malaví og verðlag mun hærra á því en flestu öðru) á rúmlega 10 mismunandi kextegundum og urðum fyrir hverjum vonbrigðunum á fætur öðrum. Við fundum á endanum kextegund sem við gátum lagt okkur til munns, og það með bestu lyst. Komumst reyndar að því síðar að það kex var framleitt í S-Afríku...

Hérna erum við einmitt á fínasta veitingastað sem ég hef nokkurn tímann snætt á... kannski sérkennilegt að hann skuli vera staðsettur í Malaví en þar er hann nú samt. Staðurinn heitir 21 grill og er staðsettur við Ryalls hotel í Blantyre. Þarna gæddi ég mér á þessi líka fínu nautasteik með ljúfengri sósu, bakaðri kartöflu og gufusoðnu grænmeti. Sötraði vín með og reyndist kostnaðurinn við máltíðina nema ca 800 íslenskum krónum. Þetta fannst okkur nú svo hræódýrt að við hefðum snætt þarna aftur ef við hefðum haft tíma :)



En ég ætla að láta þetta nægja í bili. Er strax byrjuð á pistli 3 svo hann ætti að birtast á næstu dögum.

8 Comments:

At 8:41 e.h., Blogger Hannes said...

Myndirnar með þessari færslu koma ekki fram :/

 
At 11:01 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta hálfnagaða kjúklingabein lítur ekki vel út...ótrúlegt að það skuli hafa verið borið fyrir þig nákvæmlega eins og það er á þessari mynd...oj oj oj!

Stemmarinn á ströndinni með pott á hlóðum og eld undir er hinnsvegar mjög flott.

Góður pistill! Keep it up.

Jón Gunnar

 
At 11:15 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ok, takk fyrir ábendinguna Hannes. Sat sveitt við endurbætur sem virðast hafa skilað sér, allavega sjást myndirnar núna, vonandi líka þarna hinum megin á hnettinum :)

KV.
Sólveig

 
At 3:33 f.h., Blogger Hannes said...

... en hérna


... gerðuð þið eitthvað annað en að borða í þessari ferð ;o)

 
At 8:04 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Matur er mjog mikilvaegur partur af ferdum manns um heiminn finnst m'er allavegana. Og finnst l'ika gaman ad vita svona hluti.
Thetta nzima virdist virka svipad eins og hafragrauturinn 'i eldri kynsl'od landsins og mig... nema eg tharf helst ad f'a sl'atur og lysi med.
'Eg s'e myndirnar vel og greinilega hedan fr'a Queenstown.

 
At 8:40 f.h., Blogger Elva said...

Góður pistill!

En hérna... við Bergþóra getum líka státað að því hversu unglegar við erum.... hérna á NZ er áfengiskaupaaldurinn 18 ára og þegar við fórum í Starmarkt að kaupa bjór var BK spurð um skilríki. Maður hefði sennilega verið skúffaður ef maður væri 22 ára, en þegar maður er að nálgast þrítugt þá er þetta bara hrós :)

 
At 11:29 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hehe... já þetta með aldurstakmör getur stundum verið ákveðin upplyfting :)

Neibb, Hannes, við gerðum mest lítið annað en að borða þarna ;) Nei nei, við bara skrifuðum ekkert um matinn í fyrstu en síðan hefur það verið algengasta spurningin sem ég fæ: ,,Hvernig var maturinn þarna?"

Ég gleymdi náttúrulega að minnast á hafragrautinn því á tímabili komumst við yfir hafragrjón og því borðuðum við hafragraut með kanil, rúsínum og bönunum í hvert morgunmál. Söknuðum þess svo þegar það fékkst ekki lengur ;)

Kv. Sólveig

 
At 10:22 e.h., Blogger Elva said...

já matur er stór upplifun finnst mér þegar maður ferðast til ókunnra landa. Mér finnst hann skipta ótrúlegau máli. T.d. var Thailand alveg frábært í alla staði - og þar sem maturinn var algjört himnaríki þá hjálpaði það enn meira til :)

Annars fæ ég alveg vatn í munninn við að horfa á þessa pizzumynd þarna í færslunni. Bragðlaukarnir mínir alveg hoppa af kæti ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home