laugardagur, mars 24, 2007

Af nútíð, fortíð og jafnvel miklu fleira...

Lesendur góðir. Í dag hyggst ég nefna allavega tvennt um Malaví sem ég held ég sé ekki búin að nefna áður. Hið fyrra gæti ykkur þótt svolítið sérstakt því í Malaví skiptir nefnilega máli hvernig maður klappar. Ójá, þið lásuð rétt. Fyrir almúganum og venjulegu fólki eins og mér og þér væntanlega líka á maður nefnilega að klappa með beina lófa og láta þá mætast eins og spegilmynd. Skiljiði? Þetta gefur mjög svo hvellt klapphljóð og ber ekki merki um neina sérstaka virðingu. Þegar hins vegar kemur að því að klappa fyrir ,,the chief" í þorpinu eða einhverjum æðri framamanni skal maður klappa með kúptum lófum, í hægari takti og myndast þá mun holara klapphljóð sem segir þeim sem klappað er fyrir hversu mikil virðing er borin fyrir honum. Það væru því mikil mistök að klappa fyrir forsætisráðherranum með flötum lófum, STÓR mistök.

Annað með hefðir í Malaví er að þar er vinstri umferð. Landið var náttúrulega bresk nýlenda svo það þarf svo sem ekki að koma á óvart. Ég gleymi ekki aukaslögunum sem hjartað mitt tók í rútunni frá Stansted til Hethrow þegar helv... rútan fór ÖFUGT í hringtorgið. Ég hélt ég ætlaði upp um þakið mér brá svo mikið. Til að byrja með fannst manni líka örlítið sérstakt að keyra vinstra megin og sitja ,,vitlausu" megin undir stýri, en það vandist ótrúlega fljótt. Það sem er kannski enn furðulegra er að síðan ég hef komið heim hef ég í tvígang verið í vinstri umferð... í mínum umferðarheimi allavega. Í fyrra skiptið var ég að keyra á Húsavík, sem er nú sem betur fer ekki mjög svo fjölfarinn bær og áttaði mig allt í einu á því að bíllinn sem ég var að fara að mæta keyrði á sömu akrein og ég... ég var ekki alveg jafn snögg að átta mig á að ég var að keyra öfugu megin á veginum :/ Þetta slapp samt stórslysalaust og bara vægur handskjálfti og hraðtaktur hjá mér rétt á eftir. Seinna skiptið var ég nú bara að keyra á þjóðvegi 1 í sveit sveitanna (ekki þörf á að taka fram hvar á landinu það er... ;) og er að tala við 14 ára frænda minn sem situr í farþegasætinu. Hann rýfur umræðuna eftir dálitla stund og segir við mig hálf furðulegur á svipinn: ,,Uuuu... Solla, ertu ekki að keyra á vitlausum vegarhelmingi...???" Ég þurfti í alvörunni að hugsa hvorum megin ég átti að vera... Þetta er nú samt allt að koma, held ég enda eins gott þar sem ég er nú farin að keyra um höfuðborgina og hér er nú ekki beint rými né fámenni til að leyfa manni að aðlagast hægri umferðinni í rólegheitunum. Þið sjáið af þessu Hannes og Elva að það verður ekkert endilega hlaupið að því að skella sér í umferðina á annatíma þegar þið komið aftur heim...


Hér verða sko nokkur danssporin tekin þegar kemur að því að fagna heimkomu ykkar ilfætlinganna að nokkrum mánuðum liðnum... Hérna er bara smá forsmekkur af því sem koma skal þegar þessi fríði og föngulegi hópur sameinast aftur á einum og sama klakanum og ég held að meira að segja kjötkveðjuhátíð í Rio muni blikna við samanburðinn ;)


(Á þessar myndir vantar reyndar Markus, en fann ekki mynd af honum... hún kemur vonandi síðar :)

Jæja, best að hætta þessu bulli og fara að lesa.
Eigið góðan dag, hvar í heiminum sem þið eruð :)

5 Comments:

At 9:02 e.h., Blogger Elva said...

hahaha... varstu mikið að keyra þarna úti?

Það hefur 2x komið fyrir okkur HK að við vorum ein að fara að keyra og vorum komin í farþegasætið þegar við áttuðum okkur á því að það var ekkert stýri fyrir framan okkur. En ég átta mig ekki alveg á því hvort það verður erfitt að koma aftur til baka í hægri umferð. En samkvæmt þinni reynslu þá ætti maður að fara varlega í þetta þegar maður kemur heim :)

En já, það verður sko teki á því þegar við komum heim!! Rio hvað sko? Hehehe... ;o)

Skjáumst vonandi á Skype við tækifæri!

 
At 9:37 e.h., Blogger Hannes said...

Merkilegt nokk, þá var þessi klappfræðsla hluti af grunnskólamennun minni; en Svanhildur nokkur, íslenskukennari við Hrafnagilsskóla lagði okkur línurnar í þessum efnum.

Kæra Svanhildur. Ef þú lest þetta blogg. Fyrirgefðu oss vorar skuldir, það var ekki fallega gert að kalla þig Svínhildi, og við hefðum átt að fara úr úlpunum okkar í tímum án málalenginga.

Svanhildur kenndi mér ýmislegt um lífið og tilveruna, þá t.d. hvernig rita á orðið leyti/leiti, en þumalputtareglan er sú að segja "Það er ypsílon í öllu leyti, nema Gróu á Leiti".
... sem þýðir m.ö.o. að það er alltaf ypsilon í orðinu leyti, nema að samhengi orðsins eigi við um landslag.

En já... klöppum fyrir því...
... með kúptum.

 
At 12:33 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Svínhildur...??? Hannes! Varstu rebeller í grunnskóla??? Sé það ekki fyrir mér, en hvað veit ég svo sem.

Kjötkveðjuhátíðin í Rio mun hverfa í skuggann og reykinn af okkar reunioni og verða minnst af menningarvitum og fornleyfafræðingum að okkur látnum :)

Knús,
Sólveig


P.S. Er ekki annars merkilegt að verða að kommentera alltaf undir anonymous... meira að segja á sínu eigin bloggi???

 
At 8:43 f.h., Blogger Hannes said...

Kæri anonymous.

Mikið déskoti er þetta annars falleg mynd; enda af fallegu fólki við kjöraðstæður...

... keyrum á þetta á útmánuðum 2008 !

 
At 10:35 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Klöppum fyrir manneskjunni sem kenndi okkur að klappa í Malawi!

Hannes var baldinn í barnaskóla og merkilega uppsigað við téða Svanhildi sem hann og Rolf tóku oft óþekktarormasyndrómið á.

Kv,

Jón Gunnar

 

Skrifa ummæli

<< Home