miðvikudagur, mars 07, 2007

Pistill nr 3

Humm... hvað á ég nú eftir að segja ykkur?

Man eftir einu sem ég gleymdi um daginn þegar ég var að tala um fólkið og þjóðflokkana. Við nefnilega fórum einn daginn á menningarsafn þar sem við vorum fræddar um mismunandi hefðir hjá þjóðflokkunum. Margt sem var sagt var svo fáránlegt að ég hreinlega verð að hafa orð á því. Hjá Malövum er það t.d. sér athöfn þegar hjón hafa samfarir í fyrsta skipti eftir meðgöngu og fæðingu. Chewarnir eru raunsæir og þar sem samfarir eru bannaðar síðari hluta meðgöngu og í 3-6 mánuði eftir barnsburð er bara hreinlega reiknað með því að heimilisfaðirinn fái útrás fyrir langanir sínar ,,on the side”. Til að koma í veg fyrir að þessar athafnir hans og þau óhreinindi sem því fylgja smitist yfir í saklaust barnið hans er barnið haft með við fyrstu bólfarir foreldranna eftir þetta hlé. Það er ýmist bundið á bak móðurinnar eða haft liggjandi í rúminu. Þegar allt er afstaðið er sæðinu og ,,vaginal fluids” safnað saman og barnið smurt þessum líkamsvessum foreldra sinna og svo þarf að lyfta því yfir eld frá norðri til suðurs og austri til vesturs til að hreinsa barnið af hugsanlegum syndum föðurins. Annar þjóðflokkur hefur það lagið á að fyrstu 2 vikurnar eftir fæðingu er móðirin í sér húsi með nýburann en að þeim tíma liðnum þarf hún að gefa eiginmanninum merki um hvenær hann er velkominn aftur. Það gerir hún með því að verða sér úti um ferska kúamykju, smyrja henni á allt gólfið í húsinu og sitja svo fyrir utan með barnið þar til eiginmaðurinn rennur á lyktina... í bókstaflegri merkingu. Hljómar þetta ekki vel? Hjá sumum þjóðflokkum þurfa menn líka að borga fyrir kvonfang, nokkurs konar heimanmund. Bílstjórinn okkar þurfti m.a. að greiða andvirði 3 kúa fyrir konuna sína. Hann spurði líka hvað þyrfti að borga fyrir okkur og hann átti mjög erfitt með að trúa að í heimalandi okkar væri kvonfang ókeypis... ef menn telja það ekki eftir sér að verða ástfangnir :)

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að skera mig úr... svo manni leið á köflum frekar furðulega í Malaví þar sem hvítur maður getur engan veginn horfið í fjöldann. Við fundum strax fyrir því á flugvellinum í Amsterdam á leiðinni heim að maður slakaði öðruvísi á af því maður gat horfið í fjöldann (reyndar vorum við svo áberandi túristalegar innan um allt hitt hvíta fólkið í fínu fötunum sínum að við höfum sennilega skorið okkur ærlega út... en allavega ekki vegna húðlitarins lengur). Ég hef líka heyrt talað um að fólk sé beðið um leyfi til að fá að snerta þetta ljósa furðulega slétta hár. Börnin á einu munaðarleysingjahælinu sem við fórum á voru hins vegar bara stjörf. Þau voru á aldrinum 3-5 ára og vildu náttúrulega öll fá að vera í fanginu á manni og að laumast til að snerta hárið á manni var eitt af því fyrsta sem þau gerðu. Fyrst hélt ég að stelpurnar væru að reyna að ná hárteygjunni úr hárinu á mér (verð að minnast á Örvar, bekkjarbróður minn úr MA af þessu tilefni... þeir sem til þekkja vita hvað ég er að fara). En það var ekki málið heldur bara að fá að strjúka þetta sérstaka hár. Þau voru svo sæt. Sum barnanna verða reyndar alveg arvavitlaus og skíthrædd við mann af því maður er svona asnalega hvítur og furðulegur. Þau bara orguðu og reyndu allt til að komast í burtu, eins og hræddur köttur.


Hérna er eitt dæmi um slíkt. Greyið barnið var hreint ekki ánægt með nærveru okkar. Ætlaði að reyna að kæta hana með því að taka mynd og sýna henni. Það sló á táraflóðið rétt á meðan hún var að skoða myndina af fyllstu varfærni, en svo hófst það aftur og það margfalt... Það getur víst ekki öllum líkað við mann!



Flestir voru samt uppveðraðir af manni og þegar maður var búinn að smella af mynd og sýna þeim urðu lætin þvílík að maður átti nánast fótum sínum fjör að launa, þau ruddust hvort fram fyrir annað og ,,pósuðu", svo mjög að þau voru hreinlega komin inn í myndavélina og ekki lengur hægt að fókusera á þau.


Og svo er það dúkkusagan. Hún Laufey Ása 10 ára bróðurdóttir mín saumaði þessa svörtu tuskudúkku hér að ofan í saumum í skólanum og var mjög svo stolt af verki sínu, sem eins og sjá má er bara nokkuð vel gert miðað við aldur og fyrri störf. Henni var það mikið mál að ég tæki þessa dúkku með mér til Malaví og gæfi hana lítilli stúlku þar. Þetta fannst mér náttúrulega bara SVO yndislega falleg hugsun að ég taldi ekki eftir mér að gera þetta fyrir hana. Lofaði henni líka að ég kæmi heim með mynd af þeirri heppnu stúlku sem fengi þessa heimagerðu dúkku í hendurnar. Ég valdi þessar litlu systur sem eru dætur næturvarðarins við húsið okkar í Monkey Bay. Þær voru dauðhræddar við mig þegar ég nálgaðist þær, en sú eldri þáði samt dúkkuna úr hönd minni. Það sætasta við sögu dúkkunar er samt eftir að mínu mati því síðar um daginn þegar við stöllur fórum í göngutúr um þorpið rákumst við á stelpuna aftur og haldiði að hún hafi ekki haldið traustataki í dúkkuna sína. Ójúbb! Hérna Laufey mín, þetta er stelpan sem fékk dúkkuna þína. Skal gefa þér eintak af þessari mynd við tækifæri :)



Þessi mynd er svo tekin í fjallgöngunni okkar góðu í rúmlega 30 stiga hita, rakastigi dauðans og svitabaði óttans. Íris hélt meira að segja að hún myndi fá hjartaáfall í þessari þrekraun en við höfðum þetta af. Mikið asskolli var nú samt gott að fá aðeins að jafna sig á þessum steinum í miðri ánni :)

Malaví brunnur minn er engan veginn uppurinn svo þið megið eiga von á meiru á næstu dögum :)

4 Comments:

At 7:36 f.h., Blogger bergthora said...

Ahhh hvad thad er aedislegt ad lesa svona pistla. En thetta med barneignir og kynl'if hl'omar ekkert s'erstaklega spennandi.
N'una langar mig bara ad fara til afr'iku tho thad s'e fullt af f'olki thar. J'u reyndar langar mig l'ika til mong'ol'iu og ad sj'alfsogdu enn og aftur til S-amer'iku. Einhvert thar sem hlutirnir eru allt odruv'isi og EKKI VESTRAENIR.
NZ er samt aedi. Adios og 'eg hlakka ekkert sm'a til ad lesa fleiri pistla og koma heim og spjalla.

 
At 10:57 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Afríka er afskaplega lítið vestræn,það sem ég sá af henni allavega og maður getur alveg komist hjá því að vera í vestrænu borginni í Malaví (Blantyre).
Mig langar líka til S-Ameríku og Indlands, vantar einhvern til að leika eiginmanninn minn í Indlandi... Einhver sem bíður sig fram? :D Ég kannski bara skelli á mig strákakolli, vef mig og þykist vera strákur :)

 
At 9:58 e.h., Blogger Elva said...

OJ OJ OJ OJ!!!! Að binda barnið sitt við sig og hafa samfarir og maka svo vessunum á barnið í þokkabót. OJOJOJOJ!!! Ég fæ alveg grænar við að lesa þetta, jakk....

En þetta var mjög fróðlegt engu að síður. Og dúkkusagan er æði. Ekkert smá sæt. Og myndirnar eru svaka flottar - krúttleg börn :)

Ég hlakka til að lesa meira og skoða fleiri myndir!

 
At 11:56 e.h., Blogger Hannes said...

Eðall. 12 stig.

 

Skrifa ummæli

<< Home